Viðvera erlendra hermanna á Íslandi hefur vaxið umtalsvert frá árinu 2017, að því er fram kemur í svari Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar alþingismanns sem lagt hefur verið fram á Alþingi

Viðvera erlendra hermanna á Íslandi hefur vaxið umtalsvert frá árinu 2017, að því er fram kemur í svari Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar alþingismanns sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Spurt var um tímabil viðveru, tilefni, upprunaríki og fjölda liðsmanna og gistinátta.

Fram kemur að fjöldi gistinátta hermannanna hafi vaxið úr 36.650 árið 2017 í 94.525 árið 2023. En flestar voru gistinæturnar árið 2022, eða 101.435. Ýmist gistu hermennirnir á hótelum eða innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli og mun algengara var að menn gistu á öryggissvæðinu en utan þess.

Fram kemur í svarinu að beinn kostnaður af viðveru erlends herliðs í fyrra hafi numið rúmum 34 milljónum króna. Var sá kostnaður að langmestu leyti samningsbundinn vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland og er tekið fram að sá kostnaður hafi verið mjög lágur það ár. Kostnaður sem til fellur vegna annarra verkefna en loftrýmisgæslu er að mestu greiddur af hinu erlenda herliði.