Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra vill auka afkastagetu sendiráðs Íslands í Nýju-Delí til að afgreiða vegabréfsáritanir til Íslands. Þetta segir Bjarni í samtali við ViðskiptaMoggann en hann skrifaði á sunnudag undir sögulegan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Indlands.
„Það er gríðarlegur áhugi meðal Indverja að koma til Íslands. Við eigum möguleika á að fá mun fleiri ferðamenn frá Indlandi en í dag. Þeir eru oft vel stæðir og skilja mikið eftir sig þannig að eitt af því sem við munum gera er að tryggja getu sendiráðsins til að afgreiða fleiri umsóknir um vegabréfsáritanir. Við höfum væntingar um talsverðan vöxt ferðamanna vegna þess. Í því samhengi væri mjög áhugavert ef flugrekstraraðilar myndu á komandi árum sjá flöt á beinu flugi milli landanna,“ segir Bjarni.
Til samanburðar segir Bjarni að svissneska sendiráðið í Nýju-Delí taki við um 1.500 beiðnum um áritanir á dag.
„Gjaldtaka Svisslendinga fyrir áritanir stendur undir öllum rekstri sendiskrifstofa Svisslendinga á Indlandi og skilar að auki jafnvirði eins milljarðs íslenskra króna í tekjur.“
Bjarni fundaði í ferð sinni með utanríkisráðherra Indlands um að finna fleti á dýpra tvíhliða samstarfi t.d. á sviði sjávarútvegs.
„Það er áhugavert fyrir okkur að deila þekkingu, reynslu og kunnáttu til að hámarka virði sjávarfangs, vinnslu þess og markaðssetningu fyrir utan allt sem tengist reynslu okkar af að vera með öflugt fiskveiðistjórnunarkerfi,“ sagði Bjarni.
Hann sagði aðspurður að lokum að fríverslunarsamningurinn opni til dæmis leið fyrir vatns- og drykkjarvöruútflutning sem og fyrir sjávarafurðir og vörur úr lambakjöti en einnig séu miklir möguleikar í jarðhitaverkefnum.
Samkvæmt upplýsingum frá Félagi atvinnurekenda nemur útflutningur Íslands til Indlands 1,4 m. dala á ári, jafnvirði um tvö hundruð milljóna íslenskra króna. Helstu vörur eru lýsi, lyf, vélbúnaður og lækningavörur.