Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Rússneskir sjálfboðaliðar sem berjast við hlið Úkraínumanna sögðust í gær hafa náð rússneska þorpinu Tetkino í Kúrsk-héraði á sitt vald.
Samtökin Frelsissveit Rússlands birtu færslu á samfélagsmiðlinum Telegram þar sem segir að Rússar hefðu hörfað frá fyrrgreindu þorpi og það væri algerlega á valdi frelsissveitarinnar.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði hins vegar í tilkynningu síðdegis í gær að „með fórnfúsum aðgerðum rússneskra hermanna hefur öllum árásum úkraínskra hryðjuverkahópa verið hrundið“. Beitt hefði verið flugskeytum, fallbyssum og eldvörpum.
Talmaður úkraínska hersins sagði að rússnesku sjálfboðaliðarnir lytu ekki stjórn Úkraínu en árásirnar sýndu að rússnesk stjórnvöld hefðu ekki stjórn á ástandinu í Rússlandi.
Vopnaðir hópar rússneskra borgara sem eru andvígir hernaði Rússa í Úkraínu hafa áður gert árásir á rússnesk svæði skammt frá landamærum Úkraínu. Þannig sögðust þeir hafa náð nokkrum svæðum á sitt vald í maí og júní á síðasta ári eftir að hafa brotið sér leið gegnum landamærastöð. Þeir voru síðar yfirbugaðir.
Drónaárásir
Rússar sögðu í gær að Úkraínumenn hefðu sent 25 dróna til að gera árásir á skotmörk í Rússlandi en þeim árásum hefði verið afstýrt. Hefðu fjórir drónar verið skotnir niður á einni klukkustund í Kúrsk-héraði. Myndir hafa hins vegar sýnt elda loga í olíuhreinsistöðvum eftir árásir.
Ígor Kútsak, borgarstjóri í borginni Kúrsk, tilkynnti í gær á samfélagsmiðlum að skólum í borginni hefði verið lokað út vikuna vegna aukinna drónaárása Úkraínumanna. Kúrsk er höfuðborg samnefnds héraðs í Rússlandi. Þar búa um 440 þúsund manns. Borgin er um 140 km frá Tetkino, sem er við landamæri Úkraínu. Til þessa hefur Kúrsk sloppið við árásir en á síðustu dögum hafa verið gerðar drónaárásir á borgina.
Vyatsjslav Gladkov, borgarstjóri rússnesku borgarinnar Belgorod, sem er rétt við landamæri Úkraínu, sagði á Telegram að úkraínskur dróni hefði lent á ráðhúsi borgarinnar.
Rússar sögðust í gær hafa náð þorpinu Nevelske í austurhluta Donetsk-héraðs í Úkraínu á sitt vald. Rússar hafa að undanförnu sótt fram á svæðinu sem þeir sögðust árið 2022 hafa innlimað í Rússland.