Áslaug Gísladóttir fæddist í Reykjavík 10. janúar 1956. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. febrúar 2024.

Foreldrar Áslaugar voru Dagmar G. Guðmundsdóttir, f. 27. mars 1915, d. 27. ágúst 1985, og Gísli N. Guðmundsson, f. 31. desember 1912, d. 19. desember 2009. Systir Áslaugar er Auður Gísladóttir f. 9. júlí 1950.

Eftirlifandi eiginmaður Áslaugar er Guðmundur Ægir Jóhannsson, f. 23. mars 1951. Eldri sonur Áslaugar er Margeir Steinar Ingólfsson, f. 15. ágúst 1974 (maki Karen Grétarsdóttir) og yngri sonur er Gísli Steinar Ingólfsson (eiginkona Sesselja Sigurðardóttir). Barnabörn eru sex talsins á aldrinum 2-21 árs (Tristan Ari, Sindri, Krummi Arnar, Móheiður, Emma Sóley og Jökull Ari).

Áslaug fæddist í Reykjavík og var nokkurra daga gömul tekin í fóstur af foreldrum sínum, Gísla og Dagmar sem ólu hana upp. Áslaug gekk í Álftamýrarskóla áður en hún lærði starf bankastarfsfólks. Alla sína starfsævi vann hún hjá Landsbanka Íslands.

Áslaug og Guðmundur áttu heimili í Gerðhömrum 3 í Grafarvogi, sem og á Spáni þar sem þau dvöldu langtímum saman með vinum og/eða fjölskyldu.

Útför hennar fer fram frá Fríkirkunni í Reykjavík í dag, 13. mars 2024, klukkan 11.

Elsku besta mamma mín.

Líkt og skrefin hafa verið þung síðustu daga er þungbært að rita þessi orð á blað. Engin voru tilbúin fyrir þetta, hvorki ég né þú sem ávallt varst full af lífsgleði og lífsins orku. Þú varst einnig full af kærleika og velvilja til allra, hvort sem þau stóðu þér nærri eða fjarri.

Börnin mín, barnabörnin og ljósin þín, og ljósin þín, Sindri, Emma Sóley og Jökull Ari, voru heldur ekki tilbúin fyrir þetta og missir þeirra og okkar allra er mikill. Við yljum okkur við minningarnar og gleðistundirnar um ókomna framtíð. Við vitum hversu stolt þú varst af þeim, af okkur öllum og hversu góð sú tilfinning var. Það veitir okkur hvatningu til að halda áfram á þeirri vegferð sem við vitum að hefði veitt þér mikið stolt og mikla gleði.

Það er ástæða til að vitna í texta úr lagi með einum af uppáhaldstónlistarmönnum þínum; „… Ó hve dásamlegt lífið er, með þig í heimi hér“. (Lauslega þýtt textabrot úr „Your Song“ með Elton John).

Ávallt mömmustrákurinn þinn,

Gísli Steinar

Mig langar til þess að minnast elsku mömmu minnar af hlýju og þakklæti.

Mamma var aðeins nokkurra daga gömul þegar hún var tekin í fóstur af yndislegustu foreldrum sem hægt væri að óska sér.

Hún þurfti snemma að sýna styrk og seiglu þegar hún tók að sér móðurhlutverkið aðeins 18 ára gömul og ekki leið á löngu þar til hún stóð frammi fyrir þeirri krefjandi áskorun að ala ein upp orkumikið, ofvirkt og mjög svo krefjandi barn. Þá var gott að eiga að yndislega foreldra sem veittu þá aðstoð sem þurfti og áttum við bræður óteljandi góðar stundir í faðmi þeirra, elsku ömmu og afa.

Nokkrum árum síðar varð mamma svo þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta lífsförunaut sinn, Guðmund Ægi, sem gekk okkur bræðrum í föðurstað og reyndist hann henni stoð og stytta í rúmlega fjörutíu ár, allt til dánardags.

Mamma elskaði lífið og naut þess að ferðast um víða veröld eða dvelja á sínu öðru heimili á Spáni, umkringd góðum vinum. Ástríða hennar fyrir ferðalögum og ánægjan af því að deila þeim upplifunum með öðru fólki sýndi hversu forvitin og ævintýragjörn hún var. Þessir eiginleikar endurspegluðust í lífsgleði hennar, orku og óbilandi áhuga á að vita hvað væri að gerast í lífi þeirra sem hún elskaði.

Mamma var einstaklega örlát og hafði mikla löngun til þess að gleðja fólkið í kringum sig, hvort sem gjöfin fólst í því að verja tíma með barnabörnunum eða var í föstu formi stórra og harðra pakka á jólum eða á öðrum tímamótum.

Ástríðan draup af hverju strái og hún gat á köflum orðið mjög dramatísk en á sama tíma full af lífi og hver stund með henni var ótrúlega eftirminnileg. Það var aldrei nein lognmolla í kringum elsku mömmu. Viðkvæmni hennar og tilfinningadýpt voru eins og tvíeggjað sverð; þær gerðu hana mannlegri og nánari þeim sem þekktu hana en það gat líka flækt málin. Hún átti það til að vera hrókur alls fagnaðar og á sama tíma einstaklega ljúf og vildi öllum vel. Að búa yfir svona flóknum og fjölbreyttum karakter gerði hana jafn einstaka og raun bar vitni.

Eitt af því sem mér þykir hvað vænst um er hversu náið samband okkar varð á síðustu árum. Löng símtöl um allt á milli himins og jarðar, þar sem tíminn virtist standa í stað, eru minningar sem ég mun alltaf geyma í hjarta mínu.

Mér líður eins og ég hafi ekki bara misst móður mína heldur einnig einstaklega náinn og góðan vin.

Takk fyrir allt, elsku mamma.

Margeir Steinar Ingólfsson.

Elsku dýrmæta og dásamlega Áslaug.

Það er sárt að kveðja og hjartað mitt grætur af söknuði. Þú tókst á móti mér inn í fjölskylduna með einstakri hlýju, kærleika og vináttu. Stóðst með mér eins og klettur í lífsins ólgusjó og varst alltaf til staðar fyrir mig, strákana okkar og foreldra mína. Traust, umhyggjusöm og geislandi fögur að utan sem innan. Ég er þér einlæglega þakklát fyrir allar ógleymanlegu og yndislegu stundirnar sem við höfum áttum saman síðastliðin 25 ár og einstaka vináttu.

Þú blómstraðir í ömmuhlutverkinu og naust hverrar mínútu með gullmolanum þínum, full af gleði, leik og einlægri ást. Þú varst draumaamma drengjanna minna, alltaf til staðar, umhyggjusöm og með hlýjan faðm. Ruggaðir þeim í svefn fyrstu árin, skapaðir ævintýraheim fyrir þá á heimili ykkar Gumma í Gerðhömrum og dekraðir alla tíð. Sást ekki sólina fyrir þeim og það var svo fallegt hvað þú varst einlæglega spennt fyrir hverjum áfanga og hverri stund sem þú áttir með þeim. Framtíð þeirra og draumar voru þér ávallt efstir í huga.

Ævintýraferðin okkar til Dúbaí og Óman til að fagna 60 ára afmælinu þínu verður mér og strákunum mínum alltaf sérstaklega minnisstæð og kær. Þar nutum við okkar saman í yndislegu fríi með eyðimerkurívafi og stórkostlegri siglingu á Persaflóa. Þú elskaðir sólina og naust þín hvergi betur en í gylltum geislum hennar, helst með Gumma þínum í fallega húsinu ykkar á Spáni. Þar skipulögðuð þið ógleymanlegar ævintýraferðir fyrir strákana okkar og sköpuðuð dýrmætar minningar sem munu ylja okkur um ókomna tíð.

Við gátum spjallað tímunum saman um allt milli himins og jarðar á milli þess sem við dáðumst að drengjunum okkar. Lífsgleði, viðkvæmni og kærleikur voru einkennandi í fari þínu og alltaf varstu með nokkrar spennandi utanlandsferðir á prjónunum til að hlakka til. Þú varst endalaust stolt af fjölskyldunni þinni og hafðir velferð hennar og hamingju alltaf að leiðarljósi. Þá lét einstök útgeislun þín, einlægni og fegurð engan ósnortinn. Þú máttir ekkert aumt sjá og barst mikla umhyggju fyrir náunganum. Vildir allt fyrir alla gera og hvert sem þú fórst skildir þú eftir ljós, umhyggju og hlýju. Heimurinn er svo sannarlega fátækari án þín, elsku Áslaug mín.

Þig dreymdi um vorið í vændum með hækkandi sól og fleiri samverustundum með þínum nánustu. Vegferð þín síðustu fimm mánuðina var þyrnum stráð en nú ertu komin í sólina og ylinn í sumarlandinu fagra. Þín verður ávallt sárt saknað og mun minning um gullfallega og góða ömmu og einstaka og trausta vinkonu lifa sem ljós í hjörtum okkar.

Við sendum þér faðmlög og kossa, elskum þig endalaust.

Arna Gerður Bang,
Tristan Ari Bang
Margeirsson og Krummi Arnar Bang Margeirsson.

Elsku systir, það er svo sárt að þú skulir vera horfin úr lífi okkar, þú sem varst alltaf svo hraust, krabbamein kemur svo sannanlega aftan að okkur.

Okkur var úthlutað bestu foreldrum í heimi, mér fyrst og þér sex árum síðar.

Allt var gert fyrir prinsessurnar.

Þú varst líka heppin þegar þú og strákarnir þínir kynntust Gumma þínum.

Þið áttuð góð 40 ár saman sem þið nýttuð meðal annars í ferðalög, sem þú elskaðir. Barnabörnin þín missa mikið, þú dýrkaðir þau og varst alltaf til staðar. Þau eiga eftir að minnast þín með hlýju og væntumþykju í framtíðinni.

Elsku Áslaug mín, nú ert þú komin til mömmu og pabba sem án efa hafa tekið vel utan um þig. Hvíl í friði, elsku systir.

Auður Gísladóttir.

Okkar kæra hálfsystir hefur nú lagt upp í sína hinstu ferð eftir erfiðan sjúkdóm, sem hún tókst á við með einstökum viljastyrk, reisn og æðruleysi.

Við bræðurnir vorum samfeðra Áslaugu, en ólumst ekki upp með henni. Örlögin höguðu því hins vegar þannig að við kynntumst henni seint á lífsleiðinni og við erum mjög þakklátir fyrir alla þá hlýju og velvild sem hún ávallt sýndi okkur.

Áslaug og Guðmundur, hennar góði eiginmaður, byggðu sér glæsilegt heimili í Grafarvoginum þar sem fjölskylda hennar og vinir nutu einstaks örlætis þeirra og skemmtilegra samverustunda. Þau hjónin höfðu líka mikinn áhuga á ferðalögum og dvöldu oft langdvölum á Spáni. Kristinn og Eva minnast eftirminnilegra samverustunda með þeim hjónum í New York þegar þau komu að heimsækja Gísla, son Áslaugar, og Sesselju, eiginkonu hans, sem þar störfuðu um nokkurra ára skeið.

Áslaug var mjög farsæl í einkalífi sínu og uppskar eins og hún sáði. Hún eignaðist glæsilega og farsæla syni, tengdadætur og barnabörn og gat hún litið stolt yfir farinn veg og lífshlaup sitt enda hafði hún skilað einstöku ævistarfi. Áslaug hugsaði einstaklega vel um afkomendur sína sem nutu góðs af örlæti hennar og hjartahlýju. Þegar erfið veikindi herjuðu á hana vöktu Guðmundur og synir hennar og fjölskyldan öll yfir henni og umvöfðu hana þeirri sömu ást og hlýju sem hún hafði ræktað með þeim. Þessi einstaka umhyggja fjölskyldunnar sýndi vel að systir okkar var afar farsæl kona og sinnar eigin gæfu smiður.

Áslaug var bæði glaðvær og hógvær og heimsóknir til hennar og Guðmundar voru alltaf skemmtilegar. Það er varla hægt að hugsa sér yndislegri og samheldnari hjón. Þau Guðmundur voru vinamörg enda félagslynd og gestrisin. Hún skildi því vel í verki þá speki að raunverulegur auður og hamingja í þessu lífi er fyrst og fremst fólgin í því að gefa fremur en að þiggja. Um hana eiga því vel við orð skáldsins Steingríms Thorsteinssonar: „Svo dylst oft lind undir bergi blá, og brunar tárhrein skugga falin. Þótt veröld sjái ei vatnslind þá, í vitund Guðs hver dropi er talinn.“

Elsku systir, hafðu þökk fyrir allt. Við biðjum almáttugan Guð að taka þig í faðm sinn.

Kristinn, Guðmundur

og Helgi.