Óli Björn Kárason
Erfitt er og jafnvel útilokað að meta mikilvægi þess að tekist hefur að tryggja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til fjögurra ára. Langtímasamningar á vinnumarkaði ættu að öðru jöfnu að tryggja aukinn stöðugleika, lægri vexti og verðbólgu og aukinn kaupmátt launa. Meiri festa í efnahagslífinu gerir heimilum og fyrirtækjum kleift að horfa lengra inn í framtíðina og gera raunhæfar áætlanir. Stöðugleiki dregur úr áhættu og ýtir undir vilja til framkvæmda og fjárfestinga.
Þegar þetta er skrifað hafa stærstu samtök launafólks á almennum vinnumarkaði, fyrir utan VR, gengið frá kjarasamningum til næstu fjögurra ára. Ekki er ástæða til að ætla annað en að opinberir starfsmenn semji á svipuðum nótum. Annað er ekki í boði enda of mikið í húfi.
Mikilvægasta verkefni Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar launafólks var að leggja grunn að lægri verðbólgu og verulegri lækkun vaxta með kjarasamningum til langs tíma. Kjarasamningarnir eru í höfn, með umfangsmeiri aðkomu ríkisins en áður hefur þekkst. Verkinu er ekki lokið og það mun reyna á aðila vinnumarkaðarins og hið opinbera, líkt og segir í áskorun Samtaka atvinnulífsins undir lok síðasta árs. „Stjórn Samtaka atvinnulífsins skorar á aðildarfélög sín, önnur fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að styðja við fyrrgreind markmið kjarasamninga, eins og þeim frekast er unnt, með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði.“
80+ milljarða pakki
Til að greiða fyrir skynsömum kjarasamningum hefur ríkisstjórnin boðað kostnaðarsamar aðgerðir sem metnar eru á 80 milljarða króna á samningstímanum. (Kostnaðurinn er raunar mun meiri þegar horft er til lengri tíma því vandséð er að undið verði ofan af ýmsum nýjum útgjöldum að samningstíma loknum).
Í byrjun árs hélt ég því fram í vikulegum pistli hér í Morgunblaðinu að það væri „barnaskapur að ætla að ríkisvaldið fái frítt spil í komandi kjarasamningum“. Jafnt ríki og sveitarfélög geti leikið lykilhlutverk í að tryggja að skynsamlegir langtímasamningar náist milli aðila vinnumarkaðarins. „Þótt ég hafi aldrei verið hrifinn af því að hið opinbera komi með beinum hætti að lausn deilna á vinnumarkaði er fráleitt annað en að huga að því með hvaða hætti slík aðkoma geti verið.“
Með öðrum orðum: Ég taldi réttlætanlegt að ríkissjóður kæmi að mikilvægu verkefni. Það eru góð rök fyrir því að hækka jafnt barnabætur og greiðslur í fæðingarorlofi. (Ég hef hins vegar lengi talað fyrir því að barnabótakerfið verði lagt niður og þess í stað tekinn upp persónuafsláttur barna sem færi lækkandi eftir því sem tekjur foreldra eru hærri). Hækkun vaxta- og húsnæðisbóta orkar tvímælis en virðist mikilvægur þáttur í að kjarasamningar hafi tekist. Sá kostnaður er minni háttar miðað við ávinninginn af langtímasamningum og meiri stöðugleika.
Ekki er hins vegar hjá því komist að vara sérstaklega við hugmyndum um fríar skólamáltíðir sem áætlað er að kosti ríkissjóð um 21,5 milljarða út samningstímann. Það er allt rangt við þessa ráðstöfun fjármuna. Verið er að styrkja stóran hóp foreldra sem þarf ekki á stuðningi að halda og færa má rök fyrir því að matarsóun aukist. Ef það var ætlun ríkisstjórnarinnar að verja á þriðja tug milljarða króna til að styðja við barnafjölskyldur hefði verið skynsamlegra að hækka barnabætur enn frekar en ráðgert er. Fríar skólamáltíðir eru dæmi um vonda ráðstöfun sameiginlegra fjármuna.
Von mín um að ríkisstjórnin gæti sameinast um að lækka skatta, og þá sérstaklega lækka neðsta þrep tekjuskattsins, gekk ekki eftir. Það er miður enda kemur fátt þeim sem lægri launin hafa betur en lækkun tekjuskatts fyrir utan lækkun útsvars.
Ekki hærri skattar
Kjarasamningar virðast ekki hafa aukið hamingju stjórnarandstöðunnar. Í óundirbúnum fyrirspurnum síðastliðinn mánudag gat Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ekki með nokkrum hætti óskað ríkisstjórninni eða fjármálaráðherra til hamingju með sinn þátt í að tryggja langtímasamninga. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra benti Kristrúnu kurteislega á að óhætt væri „að óska mér til hamingju með að búið sé að ná langtímakjarasamningum við aðila vinnumarkaðarins á Íslandi til fjögurra ára, sem er mjög sjaldgæft“.
Þórdís Kolbrún var skýr í svörum um hvernig ætlunin er að fjármagna þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið. Taka þurfi ákvarðanir um forgangsröðun. „Er það gert með því að hækka alls konar skatta á sömu hópa og voru að ná saman í kjaraviðræðum til næstu fjögurra ára? Nei. Er hægt að fara í aðgerðir til að spara í kerfinu? Já, ég lít svo á að við séum með þessari forgangsröðun í þágu fjölskyldna, í þágu fjögurra ára friðar á vinnumarkaði, að taka ákvörðun um að setja það í forgang á kostnað kerfis.“
Skilaboð fjármálaráðherra eru skýr. Það á að auka aðhald í rekstri ríkisins – ekki sársaukafullan niðurskurð heldur fara betur með almannafé. „Mér þykir eðlileg krafa af hálfu fjárveitingavaldsins og stjórnvalda að skoða það á hverjum degi hvort farið er eins vel með annarra manna peninga og kostur er,“ sagði fjármálaráðherra.
Sparnaður, uppskurður og sala
Í aðdraganda fjármálaáætlunar eru skilaboð fjármálaráðherra mikilvæg. Við höfum ekki efni á því að reka jafn umfangsmikla stjórnsýslu og raun ber vitni. Augljóst er að stjórnarráðið hefur vaxið okkur yfir höfuð með mikilli fjölgun starfsmanna. Uppskurður er nauðsynlegur.
Við þurfum að fækka stofnunum ríkisins. Samkeppniseftirlitið og Neytendastofa yrðu góð eining. Við verðum að sameina sýslumannsembættin og styrkja þannig starfsemina um allt land. Sameining dómstóla blasir við. Fækkun hæstaréttardómara í fimm er skynsamleg. Þingmenn verða að tryggja framgang þriggja frumvarpa umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um uppstokkun og sameiningar stofnana sem heyra undir ráðuneyti hans.
Fækkun stofnana ríkisins, útvistun verkefna og sala ríkisfyrirtækja stuðlar að auknu hagræði í ríkisrekstrinum. Fjárfesting í stafrænni stjórnsýslu leiðir ekki aðeins til lægri rekstrarkostnaðar heldur til betri þjónustu við landsmenn.
Við verðum að sætta okkur við að ríkissjóður hefur ekki bolmagn til að ráðast í mörg verkefni sem mörgum kann að finnast nauðsynleg. Stofnun ríkisóperu er eitt, þjóðarhöll er annað, stofnun ríkisstofnunar um mannréttindi er þriðja. Listinn er því miður lengri.
Endurgreiðslur til erlendra kvikmyndafyrirtækja eru komnar úr böndunum. Fjögurra milljarða endurgreiðsla til bandarísks spennuþáttar særir alla skynsemi. Hækkun á hlutfalli endurgreiðslu, sem gerð var í mikilli samstöðu á þingi árið 2022, verður að fella úr gildi. Ekki verður hjá því komist að endurskoða höfuðborgarsáttmálann frá grunni.
Sé rétt að málum staðið geta aðgerðir ríkisins í tengslum við kjarasamninga orðið til þess að loftað sé um ríkisreksturinn, sópað undan teppum og ríkisreksturinn gerður skilvirkari og hagkvæmari.
Eðli máls samkvæmt hefur Seðlabankinn beðið eftir að kjarasamningar tækjust. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar 7. febrúar síðastliðinn er bent á að raunvextir hafi hækkað, verðbólga hjaðnað og spenna í efnahagslífinu minnkað. Verðbólguhorfur hafi því batnað, þótt langtímavæntingar séu enn yfir markmiði. Peningastefnunefnd ákvað í ljósi þessa og óvissu um niðurstöðu kjarasamninga og mögulegra aðgerða í ríkisfjármálum tengdra þeim, að halda stýrivöxtum óbreyttum. Nú hafa þessir tveir óvissuþættir horfið. Í því ljósi hníga öll rök að því að stýrivextir verði lækkaðir á næsta fundi peningastefnunefndar í komandi viku. Ákvörðun um annað sendir röng skilaboð til almennings og fyrirtækja.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.