Guðni Nikulásson
Guðni Nikulásson
Það er flest sem mælir með að Öxi sé eitt af forgangsverkefnum í vegaframkvæmdum.

Guðni Nikulásson

Samgöngumannvirkjum má líkja við æðakerfi landsins sem á að tryggja nauðsynlegar samgöngur um landið með sem auðveldustum hætti. Hér á Austurlandi gengur uppbygging á vegakerfinu alltof hægt. Í þessum greinarstúfi ætla ég að minna á nauðsyn þess að hafist verði handa (helst strax í sumar) við uppyggingu þessa ca. 20 km kafla um Öxi. Þar má segja að sé „kransæðastífla“ í einni samgönguæð Austurlands, en blása þarf henni í burtu ekki seinna en strax. Það mun stytta hringtengingu vegar um Ísland 68 km. Ekkert vandamál er að halda þessari leið opinni, þegar kominn er vel uppbyggður vegur. Það er flest sem mælir með að Öxi sé eitt af forgangsverkefnum í vegaframkvæmdum.

Þjóðhagslegur sparnaður umferðarinnar yrði mjög mikill að geta sparað ca. 140 km akstur fram og til baka með því að fara um Öxi.

Dæmi: 140 km x kr. 140/km = 19,6 þús. + 2 klst styttri ferðatími x kr. 5.000/klst = 10 þús. = 29,6 þús. Þarna er miðað við 1 mann í fólksbíl og verð samkvæmt taxta ríkisstarfsmanna.

Samtals sparnaður miðað við aðra leið = 14,8 þús. Búum til dæmi um sparnað umferðarinnar:

Dæmi: 365 dagar x 235 bílar/dag yfir Öxi = 85.775 bílar x 14,8 þús. = 1. 270 milljónir á ári (umferð 2023, 235 bílar á dag).

Dæmi: 365 dagar x 300 bílar/dag yfir Öxi = 109.500 bílar x 14,8 = 1.621 milljón. Áætlað er að uppbyggður vegur um Öxi kosti um 6,6 milljarða. Fjármagnskostnaður 5% gerir 330 milljónir á ári þannig að sparnaður umferðarinnar næði sömu upphæð á 5 til 7 árum, sama og uppbygging Axarvegar kostar.

300 bíla ADU væri þá: 1.620 milljónir hagnaður umferðar – fjármagnsk. 330 milljónir = 1.320 millj. Fjármagna yrði framkvæmdina með framlagi á vegaáætlun og skipta henni niður í 2 til 3 áfanga. Byrja Skriðdalsmegin á framkvæmdinni. Með uppbyggingu Axarvegar yrði stórkostleg úrbót á samgöngum á Austurlandi, minni mengun, minni slysatíðni vegna styttingar leiða og aukin samskipti milli byggðarlaga.

Nú nálgast kosningar til Alþingis, ég hvet sveitarstjórn Múlaþings, þingmenn og innviðaráðherra að beita sér fyrir að farið verði í útboð vegar um Öxi nú þegar. Það hefur ríkt of mikil þögn hjá kjörnum fulltrúum og ráðherra um uppbyggingu Axarvegar. Sama má segja um jarðgöng undir Fjarðarheiði. Stjórnvöld lofuðu, að ég held í aðdraganda sameiningarviðræðna sveitarfélaga um stofnun sveitarfélagsins Múlaþings, að farið yrði í vegagerð um Öxi og jarðgöng undir Fjarðarheiði. Sveitarstjórn Múlaþings verður að berjast fyrir að staðið verði við gefin loforð af hörku. Þið eigið að vera í framvarðarsveit þessarar baráttu og veita þannig sjálfum ykkur, þingmönnum og ráðherra aðhald og stuðning.

Hönnun vegar yfir Öxi er að mestu lokið og tímabært að bjóða verkið út.

Hringtenging um landið styttist um 68 km með uppbyggðum vegi um Öxi.

Höfundur býr í Arnkelsgerði í Múlaþingi.

Höf.: Guðni Nikulásson