Arsenal verður í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í fyrsta skipti frá árinu 2010, eftir sigur á portúgalska liðinu Porto í vítakeppni á heimavelli sínum í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitunum í gærkvöldi.
Porto vann fyrri leikinn 1:0 en Belginn Leandro Trossard tryggði Arsenal framlengingu með eina marki leiksins á 41. mínútu. Framlengingin var markalaus og því réðust úrslitin í vítakeppni. Þar skoraði Arsenal úr öllum fjórum spyrnum sínum en Porto aðeins úr tveimur af fjórum.
Þá komst Barcelona í átta liða úrslitin í fyrsta skipti síðan Lionel Messi yfirgaf félagið árið 2021 er liðið vann Napoli með sannfærandi hætti á heimavelli sínum, 3:1.
Fermín López, João Cancelo og Robert Lewandowski gerðu mörk Barcelona. Amir Rrahmani skoraði fyrir Napoli er hann minnkaði muninn í 2:1.