Illa grundvölluð félagsverkfræði að ofan afþökkuð

Liðinn föstudag kolfelldu Írar tvær tillögur um „nútímalegar endurbætur“ á stjórnarskrá: Að vikið skyldi að óhefðbundum fjölskyldumynstrum og að breyta orðalagi um „móðurskyldur á heimilinu“.

Leo Varadkar forsætisráðherra útskýrði að aðeins ætti að afmá fordómafullt og kynbundið orðalag, en allir flokkar nema einn studdu báðar breytingar. Jafnvel erkiíhaldið andæfði ekki, brennt eftir ósigra í sams konar þjóðaratkvæðagreiðslum um hjúskap samkynhneigðra 2015 og fóstureyðingar 2018.

Írska valdastéttin stendur því gapandi yfir því að 68% höfnuðu fjölskylduákvæðinu og 74% orðalagsbreytingu um stöðu kvenna.

Írskir fjölmiðlar, sem nær allir studdu breytingarnar, hafa reynt að útskýra að orsökin sé ekki andstaða við breytingarnar, heldur hafi mistekist að skýra þær fyrir lýðnum.

Það eru ósannfærandi rök í ljósi eindreginnar niðurstöðu um allt land og kjörsókn 44%. Ekkert var heldur til sparað – efnt til þjóðfundar og helstu hagsmunasamtök blessuðu tillögurnar – en allt kom fyrir ekki.

Einhver gæti haldið að kaþólskan hafi reist sig á ný, en það er hæpið, trúrækni er á undanhaldi, og fyrri stjórnarskrárbreytingar benda ekki til að þjóðin sé andsnúin veigamiklum breytingum í frjálsræðisátt.

Nei, niðurstöðurnar má frekar rekja til þess að þjóðin skoðaði tillögurnar og leist ekki á dyggðaskreytingar stjórnvalda, sem að sögn áttu sáralitlu að breyta. Vinstrimenn töldu t.d. margir að þær gengju of skammt, bændur að ný skilgreining á sambúð gæti leitt til erfðadeilna, sumir að innflytjendum yrði greidd gata, en aðrir að fjölkvæni yrði umborið.

Kannski réði hitt úrslitum að fólk sá ekki þörfina á hringli með stjórnarskrána – þar sem minnstu orðalagsbreytingar geta haft ótilætlaðar en víðtækar afleiðingar – grunaði að annað byggi undir og tortryggði fagurgala hinna talandi stétta í Dublin. Í fyrri atkvæðagreiðslum hafði enginn neinu að tapa, en margir til mikils að vinna.

Stjórnlög eiga að vera skýrar leikreglur lýðræðisins, sem allir fella sig við; ekki fyrirmæli um pólitísk markmið, sem þá eru ólýðræðisleg. Þeim á ekki að vera auðvelt að breyta, allra síst eftir pópúlískum tískusveiflum. Það á við víðar en á Írlandi.