— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Søren Skou, nýr stjórnarformaður Controlant, segir að þótt því fylgi áskoranir að vaxa hratt líkt og Controlant hefur gert undanfarin misseri þá sé það betri áskorun en að glíma við of hægan vöxt. „Að glíma við vöxt er góð áskorun og við…

Søren Skou, nýr stjórnarformaður Controlant, segir að þótt því fylgi áskoranir að vaxa hratt líkt og Controlant hefur gert undanfarin misseri þá sé það betri áskorun en að glíma við of hægan vöxt.

„Að glíma við vöxt er góð áskorun og við viljum að sjálfsögðu vaxa, þó ekki of hratt en þú vilt heldur ekki vera með of hægan vöxt því það felur líka í sér vandamál,“ segir Søren.

Søren Skou tók við sem stjórnarformaður Controlant í byrjun þessa árs en áður starfaði hann sem forstjóri A.P. Moller-Maersk, sem er stærsta flutningafyrirtæki heims en fyrirtækið veltir um 50 milljörðum bandaríkjadala árlega, er með 100 þúsund starfsmenn á sínum snærum og er með starfsemi í 130 löndum. Søren starfaði hjá Maersk í yfir 40 ár en hann sinnti ýmsum hlutverkum þar áður en hann tók við forstjórastólnum. Auk stjórnarhlutverks hjá Controlant situr Søren einnig í stjórn Nokia OY sem varastjórnarformaður og er stjórnarformaður The Mærsk Mc-Kinney Møller Center for Zero Carbon Shipping.

„Ég vann allan minn feril hjá Maersk í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Danmörku en vann einnig fyrir fyrirtækið í Kína og Bandaríkjunum,“ segir Søren og bætir við að tíminn hjá Maersk hafi verið áhugaverður og hann hafi leitt fyrirtækið í gegnum miklar umbreytingar.

„Árið 2016 samanstóð samstæðan af átta mismunandi deildum sem hver starfaði sem sjálfstætt fyrirtæki. Meðal þeirra var olíufyrirtæki, gámaflutningafyrirtæki, olíuborun, hafnarfyrirtæki og svo framvegis. Þegar ég tók við fór fyrirtækið í gegnum mikla umbreytingu og fór úr því að vera gamaldags fyrirtæki yfir í nýstárlegra,“ segir Søren og útskýrir að með því hafi fyrirtækið lagt aukna áherslu á að koma til móts við viðskiptavininn.

Sveiflukenndur geiri

Miklar áskoranir hafa blasað við flutningageiranum á undanförnum misserum. Spurður hvernig það hafi gengið að glíma við þær áskoranir segir Søren að geirinn sé sveiflukenndur og þar af leiðandi komi reglulega upp áskoranir, þær hafi þó verið miklar að undanförnu.

„Þó má ekki gleyma því að alþjóðlegi flutingageirinn átti góð ár í kringum heimsfaraldurinn þegar mikilvægt var að leysa þau vandamál sem aðfangakeðjur um heim allan stóðu frammi fyrir. Um þessar mundir eru krefjandi kringumstæður en svona virkar þessi geiri.“

Søren segir að þegar hann hafi látið af störfum sem forstjóri Maersk hafi hann ákveðið að hann vildi ekki taka við annarri forstjórastöðu heldur vildi hann taka sæti í stjórn félaga og sinna ráðgjöf.

„Í stað þess að taka sæti í stjórn stórs félags vildi ég frekar taka sæti í minna félagi til að geta haft meiri áhrif sem stjórnarmeðlimur.“

Heillaðist af lausnum Controlant

Hann bætir við að hann hafi skoðað fjölmörg tækifæri áður en hann tók við sem stjórnarformaður Controlant.

„Helstu ástæðurnar fyrir því að ég vildi taka þátt í að móta framtíð Controlant voru að ég heillaðist af framtíðarsýn fyrirtækisins sem er að vera leiðandi í rauntímavöktun á dreifingu lyfjavara á heimsvísu og útrýma sóun í aðfangakeðju lyfja. Það verður sífellt mikilvægara enda er okkur að fjölga og nýjar tegundir lyfja sem eru kynnt á markað eru sífellt flóknari og viðkvæmari, og þar af leiðandi verður þörfin fyrir lausnir Controlant meiri. Þannig að ég sé mikla möguleika í fyrirtækinu.“

Søren segir enn fremur að sér þyki tæknin sem Controlant hefur þróað mjög áhugaverð.

„Controlant sker sig einnig úr hvað varðar sambönd sín við viðskiptavini en margir taka þátt í því að móta og þróa lausnir félagsins. Það er alltaf gott merki þegar viðskiptavinir eru tilbúnir til þess að fjárfesta tíma og vinnu í að bæta lausn birgja sinna, í stað þess að leitast við að kaupa ódýrustu lausnina sem fæst. Teymið hjá Controlant, bæði stjórnendur og starfsfólk, vakti einnig athygli mína fyrir metnað sinn.“

Tækifæri í að útvíkka starfsemina

Søren segir fjölmörg tækifæri liggja í að útvíkka kjarnastarfsemi fyrirtækisins, fjölga viðskiptavinum og styrkja viðskiptasambönd við núverandi viðskiptavini.

„Það eru líka tækifæri fyrir Controlant til að yfirfæra lausnir sínar á annan iðnað eins og matvælaiðnað, landbúnað og aðra geira þar sem fylgjast þarf vel með hitastigi. Við erum um þessar mundir að stækka kjarnastarfsemi okkar ásamt því að þróa nýjar tæknilausnir. Við höfum þar að auki miklar væntingar til Saga Card-lausnarinnar okkar.“

Saga Card-lausnin sem Controlant kynnti nýlega mun veita lyfjafyrirtækjum og flutningaaðilum sem þjónusta lyfjageirann rauntíma-innsýn í flutning og birgðastöðu lyfja niður á einstaka vörur og tryggja þannig öruggan flutning og mun þar að auki draga úr sóun í aðfangakeðju lyfja. Saga Card er vöktunartæki á stærð við kreditkort.

Søren segir að mörg tækifæri felist í notkun þessarar nýju lausnar og bindur miklar vonir við hana.

„Það sem er einstakt við þá lausn er hversu handhæg hún er. Hún er aðeins á stærð við kreditkort en getur engu að síður safnað allskyns gögnum,“ segir Søren.

Stöðugur vöxtur

Controlant réðst í uppsagnir á síðasta ári og segir Søren að ástæðan á bak við þær hafi verið að Controlant gerði upphaflega ráð fyrir að eftirspurn eftir COVID-19-bóluefni myndi vera meiri til lengri tíma.

Spurður hvort hann telji í ljósi þess að fyrirtækið hafi vaxið of hratt segir Søren að þó svo að fyrirtækið hafi vaxið hratt þá breyti það því ekki að vöxturinn hafi verið stöðugur og eftirspurn eftir kjarnalausnum félagsins sé kröftug.

„Nýsköpunarfyrirtæki sem eru í hröðum vexti eins og Controlant glíma við alls kyns áskoranir. Til dæmis, hversu hratt eigi að stækka teymið, áskoranir er varða vöruþróun og fleira. Okkur hefur gengið vel hingað til að glíma við áskoranir og munum halda því áfram,“ segir Søren að lokum.