Skalli Orri Steinn Óskarsson og Mateo Kovacic takast á í Manchester.
Skalli Orri Steinn Óskarsson og Mateo Kovacic takast á í Manchester. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson hefur spilað vel fyrir danska stórliðið FC Köbenhavn á yfirstandandi tímabili. Orri Steinn, sem er einungis 19 ára gamall, gekk til liðs við danska félagið frá uppeldisfélagi sínu Gróttu árið 2019

Danmörk

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson hefur spilað vel fyrir danska stórliðið FC Köbenhavn á yfirstandandi tímabili.

Orri Steinn, sem er einungis 19 ára gamall, gekk til liðs við danska félagið frá uppeldisfélagi sínu Gróttu árið 2019.

Hann hefur komið við sögu í 16 leikjum í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur fimm til viðbótar. Alls hefur hann leikið 30 leiki með Köbenhavn á tímabilinu þar sem hann hefur skorað átta mörk og lagt upp önnur sjö.

„Þetta er búið að vera upp og niður tímabil, bæði hjá mér persónulega og hjá liðinu líka,“ sagði Orri Steinn í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta hefur verið virkilega krefjandi á köflum en þegar ég horfi til baka, hvar ég byrjaði og á þann stað sem ég er kominn á í dag og hvað ég hef komið með að borðinu, þá get ég verið sáttur við mitt framlag hingað til. Auðvitað vill maður alltaf gera betur en svona er fótboltinn stundum.

Ég fékk þau skilaboð á ákveðnum tímapunkti á tímabilinu að það væru aðrir leikmenn á undan mér í goggunarröðinni. Þetta var mjög sérstakt, vægast sagt, því annaðhvort var ég utan hóps eða í byrjunarliðinu. Ég hef aldrei upplifað svona áður og þetta var virkilega krefjandi andlega því þú veist í raun ekkert hver staða þín er og það tekur á,“ sagði Orri.

Snýst um andlega styrkinn

Daninn Jacob Neestrup hefur stýrt Kaupmannahafnarliðinu frá árinu 2022 og hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir meðferð sína á Orra á tímabilinu.

„Við höfum í raun ekkert rætt mína stöðu neitt sérstaklega. Aðrir leikmenn, sem byrjuðu undirbúningstímabilið mjög vel, unnu sig inn í liðið og ég hef einfaldlega lent fyrir aftan þá í röðinni. Í svona aðstæðum þarf maður að kafa ansi djúpt og eins og ég kom inn á áðan snýst þetta algjörlega um andlega styrkinn. Það er ekki neitt annað í boði en að halda áfram og reyna að standa sig vel á æfingasvæðinu.

Það lenda allir í mótlæti á fótboltaferlinum en stóra spurningin er alltaf hvernig þú tekst á við mótlætið. Ég fékk þau skilaboð að ég þyrfti að halda áfram að standa mig vel á æfingum, sem og ég gerði. Hjá mér kom ekkert annað til greina en að vinna mig aftur inn í liðið og það tókst. Ég var verðlaunaður fyrir góða frammistöðu á æfingum með byrjunarliðssæti gegn Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Manchester. Mér fannst ég komast vel frá mínu í leiknum og er ánægður með frammistöðu mína gegn City.“

Frábær upplifun að mæta City

Einvígi City og Köbenhavn lauk með nokkuð öruggum sigri Evrópumeistaranna, 6:2, en Orri Steinn lagði upp eina mark Köbenhavn í tapinu, 3:1, í síðari leik liðanna á Englandi með frábærri hælspyrnu.

„Að spila á móti Manchester City á heimavelli þeirra var algjörlega geggjað og frábær upplifun. Þetta var mjög skemmtilegur leikur, þó þeir hafi verið mun sterkari aðilinn allan leikinn. Þetta var mjög krefjandi leikur en þetta eru leikirnir sem mann dreymdi um að spila þegar maður var krakki. Að fá tækifæri til þess að bera sig saman við þessa bestu leikmenn heims eru fyrst og fremst forréttindi en það hefði verið aðeins skemmtilegra að vinna leikinn, ég skal alveg viðurkenna það.

Við erum vanir að vera með boltann í þeim leikjum sem við spilum og stjórna ferðinni ef svo má segja. Við nálguðumst þennan leik öðruvísi og mættum með öðruvísi hugarfar inn í hann en við erum vanir. Við vorum mjög meðvitaðar um það að þeir yrðu frekir á boltann og að við þyrftum að sinna varnarleiknum upp á tíu. Ég skal alveg viðurkenna það að það var orðið helvíti þreytt að horfa á leikmenn eins og Rúben Dias og Rodri leika sér með boltann í einhverjar 20 mínútur í senn, án þess að tapa honum.“

Rólegir yfir stöðu mála

Köbenhavn situr sem stendur í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 42 stig, þremur stigum minna en topplið Midtjylland, þegar ein umferð er eftir af hefðbundinni tvöfaldri umferð. Þá er deildinni skipt í tvennt þar sem efstu sex lið deildarinnar mætast innbyrðis í tvöfaldri umferð um meistaratitilinn.

„Við erum aldrei sáttir þegar við erum ekki í toppsætinu enda er Köbenhavn félag sem vill vinna alla þá bikara sem í boði eru. Við erum samt mjög rólegir yfir stöðu mála og það hefur áður gerst að við séum ekki á toppi deildarinnar þegar farið er inn í lokasprettinn. Þetta var upp og ofan hjá okkur til að byrja með en það hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur á tímabilinu.

Við höfum æft vel og við ætlum okkur að sjálfsögðu að verja titilinn enda kemur ekkert annað til greina hjá félaginu. Við finnum vel fyrir því í öllum leikjum sem við spilum heimafyrir, og sérstaklega á Parken, að við erum liðið sem öll önnur lið ætla sér og vilja vinna. Allir leikir á Parken eru úrslitaleikir og við þurfum því alltaf að vera á tánum, sem er mjög jákvætt.“

Ná virkilega vel saman

Orri Steinn er vanur að spila með Íslendingum hjá Köbenhavn en um tíma lék hann með bæði Hákoni Arnari Haraldssyni og Ísak Bergmann Jóhannessyni hjá félaginu. Þeir yfirgáfu félagið báðir í sumar en Rúnar Alex Rúnarsson gekk til liðs við Köbenhavn frá Arsenal í janúar.

„Það var mjög gott að fá Rúnar til félagsins. Hann er frábær manneskja og við náum virkilega vel saman. Um tíma var ég var eini Íslendingurinn hérna og ég var alveg farinn að sakna þess aðeins að tala smá íslensku. Á sama tíma hafði ég líka mjög gott af því að vera bara einn hérna um tíma. Ég þurfti að tala meira við hina strákana í liðinu og verða meiri partur af klefanum.

Það er gott að geta alltaf hallað sér að öðrum Íslendingum og ætli maður hafi ekki aðeins komið út úr skelinni. Það er samt alltaf gott að hafa annan Íslending í liðinu en ég er búinn að búa hérna í fjögur ár núna og Kaupmannahöfn er í raun orðin eins og heimili fyrir mig. Ég tala reiprennandi dönsku og mér líður mjög vel í Danmörku.“

Reyna að hjálpa hvor öðrum

Faðir Orra, Óskar Hrafn Þorvaldsson, tók við þjálfun norska úrvalsdeildarfélagsins Haugesund síðasta haust en áður hafði hann stýrt Breiðabliki í þrjú ár. Óskar Hrafn gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum árið 2022 og þá komst liðið fyrst íslenskra liða í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á síðustu leiktíð undir stjórn Óskars.

„Ég og pabbi heyrumst reglulega og það eru ekki nema 20 mínútur síðan ég lagði á hann. Þá var hann einmitt að gefa mér einhverjar ráðleggingar og það hættir aldrei. Við tölum mikið saman og endalaust um fótbolta. Stundum of mikið og stundum ekki. Við reynum eftir fremsta megni að hjálpa hvor öðrum. Ég get aðstoðað hann með ýmislegt þegar kemur að því að finna leikmenn og hann hjálpar mér að þróa minn leik.

Hjá okkur snýst þetta um það að ná sem lengst í því sem við erum að gera og við ýtum hvor á annan á mjög jákvæðan hátt. Þegar hann stýrði Blikunum var lítill sem enginn tími til þess að hitta hann oft og tíðum og ætli hann hafi ekki komið einu sinni á ári í heimsókn. Eftir að hann fór til Noregs hefur heimsóknunum fjölgað mikið sem er frábært. Það er ekkert betra en að fá foreldra sína í heimsókn,“ bætti Orri Steinn við í samtali við Morgunblaðið.