Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að fjöldi fimm ára barna geti vel hafið nám í fyrsta bekk grunnskóla.

Marta Guðjónsdóttir

Fyrir réttum tveimur árum flutti ég tillögu í borgarstjórn, fyrir hönd okkar Sjálfstæðismanna, um að auka sveigjanleika milli skólastiga við upphaf og lok grunnskólans. Nemendur hefðu þá val um að hefja grunnskólanám fyrr og/eða ljúka því fyrr. Þeir gætu þá hafið nám í grunnskólum borgarinnar við fimm ára aldur og hefðu auk þess val um að ljúka grunnskólanámi ári fyrr. Tillögu minni var vísað frá. Fyrir þessu fyrirkomulagi hef ég fært veigamikil rök sem rétt er að rifja upp og ítreka, nú þegar við Sjálfstæðismenn leggjum fram á ný sambærilega tillögu í borgarstjórn.

Nýtum tímann betur

Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að fjöldi fimm ára barna geti vel hafið nám í fyrsta bekk grunnskóla. Þá upplýsa rannsóknir að námsefni skarist umtalsvert milli leikskóla og grunnskóla og milli grunnskóla og framhaldsskóla. Slík skörun sóar umtalsverðum tíma hjá fjölda nemenda.

Grunnskólunum er ætlað að búa nemendur sem best undir framtíðina, hvort sem það er til náms eða starfa. Mikilvægur þáttur þeirrar viðleitni felst í því að nemendur nýti tíma sinn sem best og hafi ætíð verðug verkefni að kljást við. Það er engan veginn sjálfgefið að stöðugt lengri tími fyrir tiltekið námsefni bæti námsárangur. Í sumum tilfellum hefur of langur námstími og skortur á verðugum verkefnum haft þveröfug áhrif og kallað fram námsleiða og jafnvel brottfall úr námi síðar á námsferlinum.

Einstaklingsmiðað nám

Með sveigjanlegum skilum milli skólastiga er stigið mikilvægt skref að einstaklingsmiðuðu námi, sem tekur mið af ólíkum nemendum með mismunandi áhugamál og leitast við að fullnægja sem best þörfum þeirra allra á sviði náms og þroska.

Fjölbreyttara nám og meira val um skólagöngu myndi að öllum líkindum glæða áhuga forráðamanna á skólastarfinu og stuðla að auknu samstarfi milli þeirra og skólanna. Breytingarnar fjölga jafnframt möguleikum skólanna til sjálfstæðis, sérstöðu og sveigjanleika, en slíkur fjölbreytileiki og samanburður innan hans er ein meginforsenda fyrir framförum kerfisins í heild.

Styttum leikskólabiðlistann

Með breytingum af þessum toga þyrftu grunnskólar borgarinnar að bæta við sig einum árgangi næstu níu árin. En á tíunda árinu yrðu árgangarnir aftur tíu talsins. Hins vegar myndu fimm ára börn fara úr leikskólunum í grunnskóla. Sú ráðstöfun myndi stytta biðlistann inn á leikskólana til muna, en nú bíða um þúsund reykvísk börn eftir því að komst á leikskóla.

Að vísu bætist sá árangur við grunnskólann sem losnar úr leikskólanum, en hér skiptir það meginmáli að flestir grunnskólarnir hafa mun meira svigrúm til að sinna þessum eina árgangi, fremur en leikskólarnir. Í öllum grunnskólum eru t.d. starfandi frístundaheimili sem gætu nýst vel fimm ára börnum við endurskipulagningu skóladagsins. Þessi frístundaheimili sinna nemendum að loknum hefðbundnum skóladegi, en standa yfirleitt auð fyrir hádegi.

Hundrað ára fyrirmynd

Vert er að geta þess að í mörgum þeim löndum sem við einkum lítum til í skólastarfi hefja börn grunnskólanám við fimm ára aldur. Auk þess hef ég áður bent á að Skóli Ísaks Jónssonar hefur sinnt markvissri kennslu fimm ára barna frá stofnun, 1926, eða í tæpa öld. Það hefur hann gert með góðum árangri. Sá sjálfstæði skóli fer í öllu að grunn- og leikskólalögum og hefur lengi verið íslensku skólakerfi frábær fyrirmynd. Okkur er því ekkert að vanbúnaði að auka val í skólagöngunni, stuðla að einstaklingsmiðaðra námi og leysa leikskólavandann.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og situr í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar.

Höf.: Marta Guðjónsdóttir