Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er algert lágmark að farið sé að lögum, réttum leikreglum og verklagi og það gildir að sjálfsögðu um leigubílanám eins og allt annað. Síðan er það hin sjálfstæða eftirlitsstofnun, Samgöngustofa, sem fer með eftirlitið. Það er afstaða mín sem ráðherra,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í samtali við Morgunblaðið, spurður um viðbrögð við ástandinu á leigubílamarkaði. Í ljós hefur komið að algengt er að útlendingar komist í gegnum svokölluð „harkarapróf“ með svindli.

„Samgöngustofa er sjálfstæður eftirlitsaðili með þessu og ber ábyrgð á að sinna því. Ráðuneytið hefur síðan eftirlit með sínum stofnunum,“ segir hann.

Spurður um möguleg viðbrögð við því að útlendingar hafi aflað sér leigubílaréttinda með því að svindla á prófum segir Sigurður Ingi alvarlegt ef svo sé.

Kemur til greina að afturkalla þessi leyfi og láta menn gangast undir próf með réttum hætti?

„Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að Samgöngustofa fari ofan í saumana á þessu máli, kanni það, upplýsi okkur um stöðuna og svari fyrir það hvernig þetta er, áður en ráðherra fer að tjá sig um það,“ segir hann.

„Samgöngustofa fer með framkvæmd laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem undir þau heyra, þar á meðal útgáfu atvinnuleyfa, rekstrarleyfa, eftirlit með leyfishöfum og námskeiðahald,“ segir Sigurður Ingi og bendir á að af því leiði að það sé í hennar höndum að svara til um það ef komin sé upp sú staða að það sé ekki gert með réttum hætti. „Það er hluti af því sem við gerum í ráðuneytinu að kalla eftir upplýsingum um slíkt.“

Sigurður Ingi segir mikilvægt að tryggja að framkvæmd hinna nýlegu laga um leigubíla sé með eðlilegum hætti, þótt ekki sé komin mikil reynsla á lögin enn. Í þeim segi að endurskoða eigi lögin ekki síðar en um næstu áramót og laga brotalamir með tilliti til reynslunnar.

Í lögunum er ekki gerð krafa um íslenskukunnáttu og var Sigurður Ingi spurður hvort ástæða væri til að breyta því. „Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað,“ segir hann.

„Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða, hvort gera eigi frekari kröfur og setja skyldur á fólk sem sest hér að og er í þjónustustörfum. En það þarf að gæta jafnræðis og skynsemi í því. En ég held að eðlilegt sé að við skoðum það og það er hluti af heildarsýn ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum, að horfa annars vegar til frekari möguleika fólks á að læra íslensku til að verða þátttakendur í samfélaginu og hins vegar að setja frekari kröfur á fólk að læra íslensku,“ segir hann.

Sigurður Ingi segir að harðari reglur séu í gildandi löggjöf um leigubíla en áður var. Alltaf séu þó til dæmi um menn sem brjóti lög og á því þurfi augljóslega að taka, hvort sem það sé í þessari atvinnugrein eða einhverri annarri.

Í Morgunblaðinu í gær sagði Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, að starfsfólk stofnunarinnar hefði heyrt að menn hefðu haft rangt við í leigubílstjóraprófunum, en þó aldrei fengið neinar formlegar ábendingar þar um. Eftirlit hefði þó verið aukið, en það væri á ábyrgð framkvæmdaaðilans, þ.e. Ökuskólans í Mjódd, að sjá til þess að menn færu ekki í gegnum leigubílaprófið með svindli.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson