Reynir Guðmundsson fæddist í Reykjavík 17. nóvember 1950. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. mars 2024 eftir áralanga baráttu við krabbamein.

Foreldrar hans voru Guðmundur Magnús Kristjánsson, f. 22. mars 1918, d. 1. desember 1996, og Rakel Kristín Malmquist, f. 22. mars 1924, d. 5. ágúst 2020. Systkini hans eru Valgerður, f. 1944, Svanhildur, f. 1948, gift Halldóri Guðnasyni, Ebenezer Garðar, f. 1959, kvæntur Arndísi Láru Jónsdóttur, og Ásgeir, f. 1964.

Reynir kvæntist þann 14. ágúst 1971 Sigrúnu Sigurþórsdóttur, f. 28. febrúar 1951, dóttur hjónanna Sigurþórs Jónssonar og Sigurborgar Valgerðar Jónsdóttur. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Þór, f. 27. mars 1971, maki Erla Björnsdóttir, f. 1976, og eiga þau þrjú börn. 2) Sigurborg Valgerður, f. 11. september 1976, maki Sigurgeir Gíslason, f. 1977, og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn. 3) Jóhann Örn, f. 23. júlí 1980, maki Ragna Kjartansdóttir, f. 1980. Langafabarn er eitt.

Reynir var fæddur og uppalinn í Skerjafirði og var ætíð mikill Skerfirðingur í anda. Hann gekk í Melaskóla og fór þaðan í Hagaskóla á unglingastigið. Síðan lá leiðin í Iðnskólann að læra skriftvélavirkjun. Hann lauk sveinsprófi árið 1972 og hlaut meistararéttindi í faginu árið 1977. Hann starfaði hjá Gísla J. Johnsen, en fór til Svíþjóðar árið 1977 og starfaði þar hjá fyrirtækjunum Haldex og A.B. Dick næstu árin. Eftir heimkomu árið 1982 fór hann aftur til starfa hjá G.J.J. og starfaði hann hjá því fyrirtæki í gegnum nokkrar nafnabreytingar næstu árin, síðast hjá Nýherja. Þar á eftir fór hann til starfa í prentiðnaðinum þegar hann hóf störf hjá Hvítlist. Eftir áratug þar gerði hann stutt stopp hjá Leturprenti og hóf síðan störf í Pixel prentþjónustu 2007 og starfaði þar þangað til hann lét af störfum vegna veikinda árið 2016.

Reynir var mjög félagslyndur, virkur í fjölbreyttu félagsstarfi í gegnum árin og almennt vinsæll í þeim hlutverkum. Einnig naut hann ferðalaga um landið okkar og til annarra landa, en þau hjónin voru dugleg að ferðast. Þó var sumarbústaðurinn í Borgarfirði hans líf og yndi. Hann var óþreytandi við að breyta og bæta aðstöðuna þar til hagsbóta fyrir fjölskylduna.

Útför Reynis fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 14. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi. Ég gleymi því aldrei þegar ég fékk fréttirnar í febrúar 2016 um að þú værir með ólæknandi krabbamein. Áfallið var gríðarlegt, en ég bjó í Bretlandi á þeim tíma og hugsunin var einföld, „ég þarf að flytja heim“, sem ég og gerði í nóvember það sama ár. Hvert ár eftir það var gjöf og veikindin tóku ekki völdin fyrr en löngu seinna. Eftir fyrsta áfallið, ef svo má segja, tókstu lífið samt áfram traustataki eins og þér einum var lagið. Þið mamma ferðuðust erlendis og innanlands og eydduð flestum öðrum frístundum í sumarbústaðnum í Borgarfirðinum sem ber nafnið Hamrahlíð. Litla húsið sem var flutt árið 1987 af Seltjarnarnesinu er orðið að litlu þorpi. Þar má telja viðbyggingu á húsið, flæðandi pall sem tengir saman gestahúsið, tvo vinnuskúra ásamt tjaldflöt og gróðurhúsi. Þú varst óstöðvandi í framkvæmdum og viðhaldi fram til síðustu heimsóknar, sem var síðastliðið sumar. Þú lést veikindin eftir fremsta megni aldrei ráða ferðinni og misstir aldrei lífsviljann eða vonina. Talaðir enn um næstu ferð í bústaðinn undir það síðasta.

Barnæska mín einkenndist af ferðalögum um Ísland yfir sumartímann og ég tel nú að ferðagleði mín hafi smitast þaðan eða fylgt mér í vöggugjöf. Ég bjó erlendis í sjö ár, eða frá 2010 til loka 2016, fimm ár í Kína, tvö ár í Bretlandi, og heimsóttuð þið mamma mig á báða staði og fórum við saman á heimssýninguna sem einmitt stóð yfir í Sjanghaí það árið. Ógleymanlegir tímar og stundir með ykkur þar.

Þær voru einnig ótal ferðirnar í bústaðinn yfir vetrartímann og gleymi ég aldrei ferðum út á snjóbreiðuna, sem náði oft yfir birkiskóginn, að horfa á stjörnubjartan himininn í algjöru myrkri. Nú eða opnun páskaeggja í snjóhúsinu sem við grófum út með húsgögnum og tilheyrandi. Þér leið hvergi betur en í sveitinni, og þar var heiti potturinn mögulega í mestu uppáhaldi og vörðum við ótal kvöldstundum þar að ræða heimsmálin og fjölskyldumálin í bland, jafnvel með öl við hönd. Við deildum kannski ekki ótal áhugamálum fyrir utan ferðalög en mér þótti vænt um að átta mig á því að vinnuferðir í bústaðinn væru okkar mestu gæðastundir saman. Það lék allt í höndunum á þér, elsku pabbi, og lærði ég alla mína handlagni af þér, þó ég hafi verið seinn að tileinka mér slíkt með mínar áherslur á tölvur og tækni. Hringdi ég alltaf fyrst í pabba til að leita ráða í hvers kyns framkvæmdum eða reddingum.

Þú varst alltaf stoð mín og stytta í hverju sem ég tók mér fyrir hendur, svo lengi sem það var ekki einhver vitleysa. Þú áttir svo þinn þátt í því að koma mér í fyrsta viðtalið sem leiddi síðan að fyrsta starfinu mínu í tölvugrafík. Þú varst stoltur af mér og okkur systkinunum, ég veit það, þó þú hafir ekki alltaf fundið orðin. Þið mamma gerðuð mig að manneskjunni sem ég er í dag, og verð ég þér ævinlega þakklátur fyrir uppvaxtarárin, stuðninginn og samveruna þessi 43 ár sem ég fékk að eiga þig sem pabba.

Ég elska þig og sakna þín, pabbi minn.

Jóhann Örn Reynisson.

Elsku Reynir stóri brósi, það var ekki gaman að sjá „Sigrún Mágkona“ á símanum mínum og hvað þá að vera staddur erlendis. Ég vissi hvað á undan var gengið og nú var greinilega stóra kallið komið. Það var mjög erfitt að svara og svo ég tali nú ekki um að heyra í öllum snökktandi á hinum endanum.

Þú greindist með krabbamein haustið 2015 en það var sama ár og við öll systkinin fórum til Namibíu til að vígja SNJÓHÚSIÐ mitt í Kalaharí. Það var frábær og ómetanleg ferð svo ég tali nú ekki um að geta náð okkur systkinunum öllum saman á einn stað og það til Afríku.

Ekki veit ég hversu erfiður ég var sem krakki í Skerjafirðinum í denn þegar þú varst á þinni rauðu VW-bjöllu að slá þér upp með Sigrúnu og sennilega hefur það hjálpað að hrekkjalómurinn í mér hafi ekki verið stokkinn út og ég þar af leiðandi verið þolanlegur krakki. Árin í Skerjafirðinum voru ljúf og góð en það mæddi nú meira á ykkur eldri systkinunum að sjá um kjúklingabúið sem foreldrar okkar voru með í bakgarðinum. Örverpið gerði lítið annað en að rífa kjaft og nota öll nýju orðin sem hann hafði lært á konurnar sem komu að kaupa egg.

Þið bræður mínir hafið alltaf stutt við bakið á mér og þú áttir þinn þátt í því að ég fengi vinnu sem sölumaður hjá Gísla J. Johnsen á sínum tíma þegar ég var að koma mér í gegnum atvinnuflugmanninn. Þetta var alveg frábær tími hjá Gísla J. og ég elskaði sölumennskuna og hún átti vel við mig. Við vorum nú tæpir þegar prentaður var fimmhundruðkall sem notaður var í „smá spaug“ og það endaði í blöðunum minnir mig. Já almenningur má víst ekki búa til peninga segja þeir og við hefðum getað endað saman bræðurnir með herbergi fyrir austan fjall.

Ekki veit ég hversu margar nætur drengirnir mínir og ég gistum í Reynihlíð en þær nætur voru margar og ljúfar og alltaf var endað í heita pottinum góða. Oftar en ekki var snædd framandi villibráð.

Eina góða kvöldstund í pottinum, fyrir „krabba“ eins og ég kalla það, ræddum við útfarir og þá sagðir þú að þig langaði að Pálmi Gunnars syngi yfir þér. Ég sagði að sennilega gæti ég reynt að redda Pálma því ég kannaðist við hann úr stangveiðinni og hló og þótti skondið að skipuleggja sína eigin útför. Ekki átti ég von á að þurfa að hringja í Pálma og fá hann til að syngja en sú reyndist raunin, elsku bróðir.

Bræðraferðin okkar til Lúxusborgar, eins og ég kalla alltaf Lúxemborg, árið 2012 var mjög vel heppnuð. Hún var ákveðin eftir að ég reis úr rekkju eftir mitt slys og við nutum þess að sigla á Mousel-ánni, drekka hvítvín og skoða sveitir og staði í hertogadæminu nú ásamt því að borða góðan mat.

Eitt sinn datt okkur bræðrunum í hug að fræðast meira um áfengi og skelltum okkur saman í bjórskóla. Við vorum nú reyndar búnir að læra eitt og annað um áfengi í Skerjafirðinum hér á árum áður því þar voru ekki bara stundaðar „njólareykingar“. Eitt gamlárskvöldið ákváðum við að skella okkur niður á „BAR“ á Reynisnesi. Ebbi tók með Christian Brothers-hvítvín, niðursoðna ávexti og 75% spíra sem keyptur hafði verið í siglingu til Þýskalands. Síðan var bollan búin til og drukkin. Ég var í yngri kantinum og ekki með mikla reynslu og ákvað að fara rólega í þennan mjöð og borðaði aðllega ávextina sem að sjálfsögðu sugu í sig áfengið. Elskuleg móðir okkar held ég að hafi háttað okkur alla ofan í rúm og væntanlega brosað út í annað og hugsað „á þetta skemmtanalíf aldrei að taka enda?“

Elsku bróðir þú tapaðir í þinni viðureign gegn bévítans krabbameininu en ég dáist að þér hvað þú barðist hetjulega og oft vissum við ekki hversu illa þér leið. Minningarnar um þig munu lifa og takk fyrir að vera stóri góði brósinn minn!

Ásgeir.

Þegar maður fær andlátsfregn af einhverjum sem maður hefur fylgt og þekkt frá barnæsku hrannast upp minningar sem gott er að kalla fram. Þannig er það núna þegar Reynsi frændi lét í minni pokann fyrir þeirri óáran sem sótti á hann síðustu ár.

Þegar foreldrar mínir skruppu til Reykjavíkur ofan úr Mosó, á uppvaxtarárum okkar Bryndísar systur, fengum við oftast að koma með. Á leiðinni í borgina fengum við stundum að velja hverja af ættingjunum ætti að heimsækja áður en bæjarferðinni var lokið. Skerjó varð oftast fyrir valinu, þar voru mörg frændsystkinin sem gaman var að leika við og svo áttu þau svo stóran vinahóp sem einnig var gaman að hitta.

Skerjó var þá hálfgerð sveit og möguleikar til leikja óþrjótandi. Reynir var alltaf traustur frændi sem gott var að vera með, alltaf léttur og kátur, ég man ekki eftir honum öðruvísi. Hann tók vel á móti okkur eins og foreldrar hans og systkini.

Ein ljúf minning kemur upp. Þegar ég og nýja kærastan mín hittum Reyni og nýju kærustuna hans, hana Sigrúnu, fyrir utan dansstað í Reykjavík. Við frændurnir að springa úr monti að sýna okkar fallegu skvísur sem hafa fylgt okkur alla tíð og umborið okkur Blómsturvellingana að mestu. Börnin okkar komu í heiminn á svipuðum tíma og við vissum alltaf hvort af öðru í þeim athöfnum sem fjölskyldulífi fylgja.

Missir Sigrúnar og fjölskyldunnar allrar er mikill. Reynir frændi á stað í hjörtum okkar Hildar minnar. Megi allt gott varðveita hann og hans fólk.

Kristján Einarsson.