Knattspyrnudeild KR hefur farið mikinn undanfarnar vikur og fengið til sín hvern sterka leikmanninn á fætur öðrum í karlalið sitt. Blása á til sóknar í Vesturbæ, þar sem menn vilja ávallt vera í fremstu röð

Jóhann Ingi

Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Knattspyrnudeild KR hefur farið mikinn undanfarnar vikur og fengið til sín hvern sterka leikmanninn á fætur öðrum í karlalið sitt. Blása á til sóknar í Vesturbæ, þar sem menn vilja ávallt vera í fremstu röð.

KR hafnaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar á síðasta ári og var 29 stigum á eftir Íslandsmeisturum Víkings. Árið 2022 endaði KR í fjórða sæti, 25 stigum á eftir meisturum Breiðabliks.

Tímabilið 2021 var mun skárra, en þá endaði KR í þriðja sæti, sjö stigum á eftir Víkingi sem varð meistari. Árið 2020 var KR hins vegar í fimmta sæti, 16 stigum á eftir Val, þegar aðeins 18 umferðir voru leiknar vegna covid.

Síðustu ár hafa því verið mögur hjá stórveldinu í Vesturbænum. Ekki bætti úr skák að kvennaliðin í fótbolta og körfubolta og karlaliðið í körfubolta hafa öll nýlega fallið um deild og því yfir litlu að kætast hjá stuðningsmönnum félagsins, sem eru annars góðu vanir í gegnum tíðina.

Nú á að breyta því. KR hefur fengið til sín Axel Óskar Andrésson (sjá viðtal við hann hægra megin á síðunni), Aron Sigurðarson og Alex Þór Hauksson. Eiga þeir það allir sameiginlegt að vera að koma heim úr atvinnumennsku og ættu að styrkja leikmannahóp KR-inga verulega.

Undanfarin ár hefur KR ekki getað barist um stærstu bitana á leikmannamarkaðinum hér heima, en svo virðist sem einhver fjársjóðskista hafi fundist í Frostaskjólinu. Nú er pressa á nýja þjálfaranum Gregg Ryder að koma KR aftur í fremstu röð.