Þóra Hildur Jónsdóttir fæddist 25. júní 1950 á Akureyri. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 12. febrúar 2024.

Foreldrar Þóru Hildar voru hjónin Sigríður Stefánsdóttir frá Munkaþverá, f. 5. desember 1912, d. 12. mars 1995, og Jón Sigurðsson frá Bæjum á Snæfjallaströnd, f. 17. september 1915, d. 10. júlí 1984. Þau voru bændur á Borgarhóli í Eyjafjarðarsveit.

Systkini Þóru Hildar eru Stefán Þór (látinn), Arnheiður, gift Frey Ófeigssyni, Sigmar Kristinn (látinn), Ívar Hreinberg (látinn), Jón Eyþór (látinn), maki Guðbjörg Harðardóttir (látin) og Þorgerður, maki Atli Freyr Guðmundsson (látinn).

Eftirlifandi eiginmaður Þóru Hildar er Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri, f. 3. maí 1952. Foreldrar hans voru hjónin Anna Kristjánsdóttir frá Flateyri, f. 12. september 1925, d. 29. apríl 2013, og Vilhelm Þorsteinsson úr Hrísey, f. 4. september 1928, d. 22. desember 1993. Þau bjuggu á Akureyri. Þóra Hildur og Þorsteinn gengu í hjónaband þann 31. desember 1974 og hefðu því átt gullbrúðkaup á næsta gamlársdag. Börn þeirra eru: 1) Laufey Björk, f. 18.janúar 1969, gift Vigni Rafni Gíslasyni. Þau eiga sex börn og þrjú barnabörn. 2) Vilhelm Már, f. 1. janúar 1971, giftur Önnu Rósu Heiðarsdóttur. Þau eiga fjögur börn og eitt barnabarn. 3) Hildur Ösp, f. 29. nóvember 1975. Hún á þrjú börn. 4) Brynja Hrönn, f. 29. mars 1977. Í sambúð með Sigurði Sveini Nikulássyni. Hún á tvö börn. 5) Jón Víðir, f. 30. maí 1983. Hann á þrjú börn. 6) Stefán Ernir, f. 24. apríl 1995.

Þóra Hildur ólst upp á Borgarhóli Eyjafjarðarsveit við almenn sveitastörf. Hún gekk í Barnaskólann á Laugarlandi, fór í Alþýðuskólann á Eiðum í tvo vetur og síðan í Gagnfræðiskólann á Akureyri þaðan sem hún lauk gagnfræðaprófi árið 1968.

Eftir að Þóra Hildur og Þorsteinn stofnuðu fjölskyldu ung að árum, fyrst á æskuheimili Þorsteins, helgaði hún sig starfi húsmóður og sjómannskonu. Á námsárum Þorsteins 1970-1973 bjuggu þau á höfuðborgarsvæðinu en þegar Þorsteinn lauk prófi úr Stýrimannaskólanum fluttu þau aftur til Akureyrar. Þar bjuggu þau til ársins 2000 þegar þau fluttu á höfuðborgarsvæðið og hafa frá árinu 2002 búið í Kópavogi.

Þóra Hildur naut sín vel í húsmóðurstarfinu og rak stórt og gestkvæmt heimili. Meðan Þorsteinn var á sjónum sá hún um allt í landi og helgaði sig heimilinu og börnunum. Á Akureyri var hún m.a. í kirkjukór og í Slysavarnarfélaginu. Eftir að þau fluttu suður sinnti Þóra Hildur ýmsum mannúðarmálum sem hún hélt út af fyrir sig.

Árið 1983 keypti hún ásamt eiginmanni sínum og tveimur öðrum hjónum útgerðarfyrirtækið Samherja hf. sem þau voru hluthafar í allt til ársins 2000.

Þóra Hildur helgaði sig fjölskyldunni og samverustundum með henni, ekki síst barnabörnunum, sem voru hennar líf og yndi.

Útför Þóru Hildar fer fram frá Lindakirkju í dag, 14. mars 2024 klukkan 13.

Streymt er frá athöfninni á:

https://lindakirkja.is/utfarir/.

Elsku besta og fallega mamma okkar. Að kveðja þig er gríðarlega erfitt, þú varst okkur svo dýrmæt og það er enn þá mjög óraunverulegt að þú sért farin en við huggum okkur við góðar og kærar minningar og búum að gildum sem þú innprentaðir okkur um ókomna tíð.

Þú varst engin venjuleg mamma, í okkar augum varst þú ofurkona. Þú hugsaðir alltaf fyrst og fremst um börnin þín og settir ávallt fjölskylduna í fyrsta sæti. Mamma, þú varst hlý og góð og studdir okkur systkinin í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Þú varst ótrúleg húsmóðir og sjómannskona og var heimilið ávallt til fyrirmyndar og opið öllum enda var oft mikið líf og fjör á gestkvæmu og stóru heimilinu. Þegar pabbi var í brúnni úti á sjó varst þú í stefninu heima. Þú undir þér vel í eldhúsinu og þig munaði ekki um að töfra fram dýrindis máltíðir með fullt hús af fólki eða halda stórar veislur, hvort sem það voru fermingarveislur, jólaboð eða skötuveislur, og oftar en ekki sástu um að útbúa allar veitingarnar sjálf. Við systkinin nutum þess svo öll á yngri árum hversu snjöll þú varst að sauma og barnabörnin og reyndar fjöldi annarra barna einnig síðar meir hversu afkastamikil þú varst við að prjóna og hekla.

Við eigum þér mikið að þakka fyrir hversu vel þú fylgdir okkur eftir og studdir í íþróttum og þá sérstaklega í skíðaíþróttinni og kenndir þú hluta af okkur systkinunum á skíði eftir að hafa sjálf lært að skíða á fullorðinsaldri.

Þú varst sveitastelpa og mikill dýravinur og elskaðir ávallt æskustöðvarnar á Borgarhóli og það voru ófáar ferðirnar í sveitina til ömmu og afa og svo seinna í bústaðinn þar sem þér fannst best að hafa sem flesta með úr fjölskyldunni. Þú naust þín í laxveiði og varst með eindæmum fiskin og lunkinn veiðimaður. Oftar en ekki beit hann á þegar þú mættir á inniskónum á svæðið og ákvaðst að prufa að kasta einu sinni.

Seinna meir, þegar við systkinin vorum flest flutt að heiman, varðst þú heimshornaflakkari og ferðaðist mikið með pabba og en líka mikið með okkur og fjölskyldum okkar. Við erum þakklát fyrir allar frábæru ferðirnar með ykkur pabba til Spánar, New York og eins allar skíðaferðirnar til Austurríkis og víðar auk annarra ferða bæði innan lands og utan. Barnabörnin þekkja varla ferðir til útlanda eða í sumarbústaðinn nema að hafa ömmu og afa með sem er ómetanlegt. Í dag eru þetta svo dýrmætar minningar sem við munum ávallt varðveita.

Elsku mamma, þú varst alltaf svo sterk og kom sá styrkleiki oft best í ljós þegar eitthvað bjátaði á eða undir miklu álagi en ekki síður í veikindum þínum þar sem þú sýndir mikið æðruleysi og kvartaðir aldrei. Viðkvæðið var ávallt að þú hefðir það nú bara ágætt og það var ekki annað hægt en að dást að þér. Við söknum þín mikið alla daga og við munum varðveita allar fallegu og góðu minningarnar um þig.

Við pössum pabba.

Guð geymi þig, þú ert ljósið sem lýsir.

Laufey, Vilhelm,
Hildur, Brynja, Jón Víðir og Stefán Ernir.

Elsku Þóra mín. Mikið er skrítið að þú sért farin frá okkur. Þú varst æðrulaus í veikindum þínum öll þessi ár og vildir alls ekki vorkunn. Barst höfuðið hátt og aldrei var á þér bilbug að finna. Ég sit nú og rifja upp samverustundir okkar síðustu tæp 30 ár og brosi yfir fallegum minningum. Þú varst alltaf svo glæsileg kona þrátt fyrir mikil veikindi. Ég minnist þín komandi í vinnuna til mín á nokkurra vikna fresti, þú brostir þegar þú sást mig og veifaðir og alltaf beið eftir þér hornsætið þitt, teppi og koddi, þetta vissu allir. Og jafnvel þegar heilsunni fór að hraka og þú áttir erfiða daga þá varstu alltaf brosandi með bleika varalitinn þinn og alltaf leið þér bara ágætlega þegar þú varst spurð. Ég mun sakna þess að sitja með þér í Ísalind og seinna í Bæjarlind og spjalla, heyra um lífið í sveitinni sem þú elskaðir, fá ráðleggingar varðandi eldamennsku og barnauppeldi og allt hitt. Mikið mun ég sakna þriðjudags-fiskikvöldanna okkar, ómetanleg samvera.

Þú barðist lengi hetjulega í gegnum erfið veikindi en nú ertu búin að fá hvíldina. Takk fyrir allt sem þú gafst mér og allt sem þú varst mér. Love you.

Þín tengdadóttir,

Anna Rósa.

Elsku amma okkar.

Við trúum því ekki að nú sé komið að kveðjustund. Við erum svo þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér en syrgjum að tíminn verði ekki lengri. Í dag klæðumst við einhverju bleiku fyrir þig í athöfn sem við vitum að verður mjög falleg, full af söng og fallegum minningum þó að hún verði okkur afar erfið. Við elskum þig svo mikið og hugsum fallega til allra stunda sem við áttum saman. Þá er okkur sérstaklega minnisstætt hvernig um leið og við komum í heimsókn bauðstu okkur eitthvað að borða og tókst það vanalega ekki í mál að ekkert var hægt að færa okkur. Þá endaði það oft á því að þú hentir í pönnukökur, sem við reyndar elskuðum. Enda voru þær svo góðar hjá þér að erfitt var að segja nei við þeim. Amma okkar var frábær kona, hún var góð, hjartahlý, fyndin, rosalega bleik og hafði þann einstaklega hæfileika að taka öllum með opnum örmum. Svo bjó hún til lengsta tveggja stafa orð í heimi, núúúúúú. Amma tók okkur barnabörnunum fagnandi eins og heiminum öllum og vildi gera allt fyrir okkur. Við erum endalaust þakklát fyrir laugardagsmorgnana saman í Ísalind að horfa á Bold and the Beautiful, skíðaferðirnar, Spánarferðirnar, Marrakesh-ferðina og íþróttamótin sem þú komst að hvetja okkur áfram á.

Fyrir tæpum þremur árum varð amma langamma, ég man hvað hún var glöð og spennt þegar ég sagði henni að ég væri ólétt, hún sagði við afa að henni fyndist hún vera strax að stækka, því nú var hún orðin lengsta amman. Ég mun halda áfram að segja Ídu frá yndislegu og sterku langömmu hennar og mun hún þekkja þig áfram í gegnum minningar okkar og sögur.

Við pössum afa fyrir þig, söknum og elskum þig að eilífu,

Hildur Rós, Þorsteinn Jr., Þórey Edda og Andri Már.

Við systkinin minnumst elsku ömmu Þóru með söknuði en rifjum upp á sama tíma allar þær góðu stundir sem við áttum með henni. Amma var einfaldlega best. Það var alltaf gott að koma í ömmu- og afahús og voru alltaf allir velkomnir þangað.

Amma hafði gaman af því að eyða tíma með okkur barnabörnunum og þökkum við fyrir það hversu dugleg við vorum að eyða saman tíma þau ár sem við fengum með ömmu.

Nokkrar af okkar bestu minningum með ömmu eru ferðirnar okkar norður í bústað þeirra afa í Eyjafirði. Nú síðast í lok nóvember þar sem við eyddum dýrmætum tíma saman. Amma vissi ekkert betra, sérstaklega síðastliðin ár, en að eyða tíma í sveitinni þar sem hún ólst upp og helst með sem flesta úr fjölskyldunni með í för.

Allar utanlandsferðirnar sem við fórum í saman; hvort sem það var í húsið ykkar afa á Spáni, ferðir til hinna ýmsu borga eða skíðaferðirnar. Alltaf var skemmtilegast að hafa ömmu og afa með í för og þekkjum við krakkarnir varla að fara til útlanda án þess að amma og afi hafi komið með okkur.

Tímarnir sem við eyddum með þér í Ísalind og svo síðar Bæjarlind er eitthvað sem við verðum ávallt þakklát fyrir. Öll skiptin sem við krakkarnir komum að gista og amma bakaði fyrir okkur og sá til þess að öllum liði vel.

Elsku amma okkar sem var alltaf svo góð, alltaf glæsileg til fara, í fínum fötum og með skartgripi. Við munum sakna þín. Takk, elsku amma, fyrir allar fallegu minningarnar sem við eigum saman. Við pössum upp á afa fyrir þig.

Elskum þig alltaf.

Arna María,
Ívar Gísli,
Örvar Atli og Arnór Gauti.

Elsku Þóra mín.

Ég var svo heppinn, sumarið 1961 á Borgarhóli hjá ömmu og afa, að eignast aðra „mömmu“. Þú varst reyndar bara tíu ára. Þú varst yngst systkina á Borgarhóli og pabbi elstur. Þú tókst bara einhverju ástfóstri við mig strax sem hefur enst alla daga síðan. Sagan segir að þú hafir beðið við vagninn þar sem ég svaf þangað til ég vaknaði eftir blundinn á daginn. Svo fékk ég aftur stóran bingóvinning seinna þegar þú nældir í hann Steina þinn. Hann hefur verið minn mentor og „fóstri“ allar götur síðan.

Þið fóruð svo að koma ykkur fyrir í lífinu, eignuðust húsnæði og börn. Það allt gekk nú aldeilis vel og ég hef verið mjög tengdur öllum ykkar börnum og verið hálfgerður bróðir þeirra, allavega rúmlega frændi.

Ég leit alltaf svo upp til þín, elsku Þóra. Þú varst stórglæsileg, ljóshærð fegurðardrottning. Þú áttir líka svo auðvelt með alla hluti. Þú varst ávallt falleg og fín, vel til höfð, hafðir allt í röð og reglu og reddaðir öllu. Þú bjóst ykkur fjölskyldunni fallegt heimili, varst meistarakokkur og -bakari og svona gæti ég talið upp lengi. Þú áttir auðvelt með að ala upp fullt af börnum og barnabörnin gerðir þú algjörlega að þínum. Þú virtist bara hafa góða stjórn á öllu, meira segja Steina þínum ef svo bar undir.

Mig langar líka að minnast á móttökurnar og samverustundirnar gegnum árin. Þið Steini voruð ávallt tilbúin að taka á móti okkur Hörpu minni hvort heldur það voru matarboð heima, til ykkar í NY, til Spánar og auðvitað á Borgarhól og alltaf jafn gaman hjá okkur öllum. Við eigum endalausar hlýjar og skemmtilegar minningar frá öllum okkar góðu samverustundum.

Þú verður alltaf miklu meira en frænka í hjarta mínu. Ég sakna þín mjög mikið en fallegar og góðar minningar munu ylja okkur Hörpu og börnunum okkar um ókomna tíð. Guð geymi þig, elsku Þóra mín.

Þinn

Brynjar Freyr Stefánsson (Brinki).

Þóra móðursystir mín hefur kvatt þennan heim eftir erfið veikindi. Á æskuárum mínum var það mikil tilhlökkun að fara til Akureyrar og heimsækja Þóru og Steina. Ég man hvað mér þótti gaman að vera hjá þeim og minningarnar dýrmætar. Þau tóku mér opnum örmum og leið mér eins og einu af börnunum. Oft var mikið að gera á stóru heimili og kom það í hlut Þóru að ala upp börnin sex þegar Steini var á sjónum. Hún hugsaði einstaklega vel um heimilið og börnin voru hennar líf og yndi. Það eru ófáar minningarnar í gegnum árin bæði á heimili þeirra á Akureyri og síðar í Kópavogi og í bústaðnum á Borgarhóli. Alltaf var tekið vel á móti mér og fjölskyldu minni og minnast börnin mín Þóru með mikilli hlýju.

Það var oft gestkvæmt á heimili Þóru og Steina, vinirnir voru margir og fjölskyldan stór. Þóra hélt flottar veislur og minnist ég sérstaklega árlegrar skötuveislu þar sem fjölskylda og vinir komu saman og Þóra reiddi fram kræsingar af bestu lyst.

Hún hafði gaman af því að ferðast og vildi helst hafa börnin og barnabörnin með í för enda mikil fjölskyldukona. Húsið þeirra á Spáni var vinsæll áfangastaður og var þar oft mjög gestkvæmt enda vel tekið á móti öllum. Síðustu árin bjó Þóra í Bæjarlind í sama fjölbýli og móðir mín. Þær voru mjög nánar og var það mikill stuðningur fyrir móður mína þegar Atli stjúpfaðir minn féll frá fyrir fjórum árum. Þessi tími er afar dýrmætur fyrir móður mína, sem nú horfir á eftir systur sinni og er það henni mikill missir. Á síðustu árum ágerðust veikindi Þóru en þrátt fyrir það kvartaði hún aldrei og notaði hvert tækifæri til að ferðast og njóta þess tíma sem hún átti með fjölskyldunni.

Ég er þakklát fyrir að hafa haft Þóru í lífi mínu og barna minna. Nú er hún farin í sumarlandið en minningin lifir um góða og umhyggjusama konu.

Steina, börnum og barnabörnum votta ég mína dýpstu samúð.

Sigríður Arna.

Það fór ekki á milli mála hver stjórnaði heimili þá tilvonandi tengdaforeldra minna þegar ég kom þangað fyrst fyrir rúmlega 27 árum. Það var húsmóðirin Þóra Hildur sem þar réði ríkjum. Eiginmaðurinn, aflaskipstjórinn og útgerðarmaðurinn var þar háseti eða í besta falli bátsmaður. Og þvílík húsmóðir, það lék allt í höndunum á henni, hvort sem það var matseld, bakstur og veisluhöld, saumaskapur og hannyrðir. Heimili hennar var jafnframt afar smekklegt og snyrtilegt.

Þóra eignaðist 6 börn á 26 árum. Þegar ég kom inn í fjölskylduna var elsta barnið, Laufey konan mín, 27 ára og yngsta barnið var á öðru ári. Börnin, barnabörnin og fjölskyldan voru hennar ríkidæmi, líf og yndi. Hún naut þess að vera með fjölskyldunni og vildi helst hafa alla hjá sér.

Í móðurætt var Þóra af Norðurlandinu, afi hennar var stórbóndi á Munkaþverá í Eyjafirði en faðir hennar einn af 15 systkinum frá Bæjum á Snæfjallaströnd. Þau kynntust þegar Jón pabbi Þóru kom sem vinnumaður á Munkaþverá og náði í Sigríði mömmu Þóru, heimasætu á Munkaþverá. Þau gerðist síðan bændur á Borgarhóli í Eyjafirði. Þar í sveitinni ólst Þóra upp sem yngsta barn þeirra.

Tengdamóðir mín var ekki sú manngerð sem flaðraði upp um fólk við fyrstu kynni. Hún var í eðli sínu frekar hlédræg og seintekin. Þegar þú hafðir fengið traust hennar og vináttu gastu gengið að væntumþykju og vináttu, alltaf. Hún var ekki skaplaus og ef henni mislíkaði eitthvað gat blásið hressilegt norðanbál ættað af Snæfjallaströndinni. Þóra var frændrækin og hélt sambandi við ættingja sína í báðum ættum. Þó að hún hefði átt þess kost að ferðast mikið og eiga heimili erlendis voru ræturnar sterkar og ég fann alltaf að innst inni var hún sveitastelpan úr Öngulsstaðahreppnum. Við dvöldust oft með þeim Steina í sumarbústaðnum á æskustöðvum hennar og þar leið henni vel.

Við Laufey og börnin okkar vörðum miklum tíma með tengdaforeldrum mínum. Samverustundir margar í gegnum árin, bæði á heimili þeirra, í sumarbústaðnum, á Spáni og annars staðar. Þær stundir eru nú afar dýrmætar í minningunni.

Þóra og Steini kynntust og hófu sambúð sína mjög ung að aldri. Steini var lengi á sjónum og þá sá Þóra um allt í landi, bar ábyrgð á heimilinu og uppeldi sex barna. Samband þeirra var einstakt og í veikindum Þóru síðustu misseri og ár var Steini stoð hennar og stytta. Hlutverkin höfðu þá breyst og skipstjórinn tók ábyrgðina heima fyrir og annaðist Þóru í veikindum hennar. Þá sást svo sannarlega hvern mann Steini hefur að geyma.

Elsku Þóra, takk fyrir allt. Guð geymi minningu Þóru Hildar Jónsdóttur frá Borgarhóli.

Vignir Rafn Gíslason.

Í dag kveðjum við hana Þóru, vinkonu okkar til áratuga. Þó að lönd og höf hafi oft skilið í milli héldu vinaböndin. Þóra var alltaf nálæg og engu skipti hvort dagar eða mánuðir liðu milli þess að við hittumst – ávallt leið okkur eins og aðeins hefði liðið eitt augnablik frá því síðast.

Þóra var góð kona, heilsteypt, kát og kröftug og stóð þétt við hliðina á sínu fólk. Hún var gætin og ábyrg og gekk að engu óðslega og því hefur örugglega einhverjum þótt hún hlédræg. Magnús kynntist Þóru fyrst þegar hún og Steini hennar voru ung og nýbyrjuð að búa. Þá var Steini einn yngsti skipstjórinn í íslenska flotanum en jafnframt í hópi þeirra fremstu og tók hann fagnandi samstarfi við Hampiðjuna þar sem Magnús var í forsvari og vildi nýta þekkingu sjómanna við að bæta og þróa veiðarfærin. Kunningsskapur varð að vináttu og samgangur varð góður á milli fjölskyldna okkar. Þau Þóra og Steini og börnin voru aufúsugestir jafnt þegar við bjuggum í Bandaríkjunum og eftir að heim var komið og faðmur þeirra stóð okkur alltaf opinn, hvar sem var og hvenær. Þóra var einstaklega þægileg í samskiptum, nærveran góð og þá var hún einstaklega góður ferðafélagi.

Oft var margt um manninn á heimili Þóru. Þau voru vinamörg, barnahópurinn stór og síðar komu tengda- og barnabörn til sögunnar. Í veislum og gleðskap var alltaf tekið vel á móti gestum og reiddi Þóra fram veitingar á sama tíma og hún sá til þess að engan vanhagaði um neitt. Þá fór aldrei á milli mála að Þóra var skipstjórinn á heimili þeirra hjóna. Það er því skarð fyrir skildi nú við fráfall Þóru og verður hennar sárt saknað. Við sendum Steina og börnunum og fjölskyldu þeirra einlægar samúðarkveðjur. Minningin um góðan vin og einstaka konu lifir.

Magnús, Edda og
fjölskylda.