Séra Kristinn Cecil Haraldsson, fv. sóknarprestur, fæddist í Stykkishólmi 2. maí árið 1943. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði 4. mars 2024.

Foreldrar hans voru Haraldur Ísleifsson og Kristín Cecilsdóttir.

Fyrri kona Cecils var Ólína Salome Torfadóttir. Börn þeirra eru Kristín Haralda og Haraldur Ísleifur. Eftirlifandi eiginkona er Kristín Guðveig Sigurðardóttir. Þau eiga eina dóttur, Þorbjörgu Ölmu. Stjúpdóttir Cecils og dóttir Kristínar er Guðlaug Vala Smáradóttir.

Cecil tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1962 og theol. kand. frá Lundarháskóla árið 1980. Hann tók framhaldsnám í guðfræði og heimspeki við sama háskóla 1980-1983 og tók fil. kand. árið 1983. Tók lestrarpróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1986.

Cecil starfaði sem kennari við Barnaskólann á Ísafirði 1963-1964 og við Miðskólann í Stykkishólmi 1964-1970. Hann var skólastjóri Barna- og unglingaskólans á Laugum í Dalasýslu 1970-1971, kennari við Víghólaskóla í Kópavogi 1971-1973, skólastjóri Gagnfræðaskólans í Neskaupstað 1973-1974 og síðan kennari við Garðaskóla í Garðabæ 1974-1976.

Cecil var vígður þann 22. janúar árið 1984 í Dómkirkjunni í Lundi í Svíþjóð og varð prestur í Burlöv í Suður-Svíþjóð 1984-1986. Hann varð forstöðumaður öldrunarþjónustu á Akureyri árin 1986-1988 og prestur Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík frá ágúst 1988 til 1997. Cecil var settur sóknarprestur í Seyðisfjarðarprestakalli frá 1. júlí 1998 og skipaður frá 1. september 1999, þar sem hann starfaði til starfsloka.

Cecil verður jarðsunginn frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 14. mars 2024, klukkan 14.

Elsku frændi.

Takk fyrir allar góðar stundir sem við áttum saman og góða nærveru.

Þú vissir vel þegar síminn hringdi að ég væri að biðja um eitthvað, annaðhvort skírn, fermingu eða giftingu.

Og þótt það yfirleitt þýddi ferðalag þvert yfir landið til að skíra Ólaf Tryggva, Trausta Marel og Cecil, sem og gifta okkur Steina, þá var það var það alltaf auðsótt.

Við gerðum þér svo ferminguna á frumburðinum auðveldari með því að flytja austur og njóta hennar í bláu kirkjunni þinni.

Þær voru heimilislegar guðsþjónusturnar hjá þér, og ef við gerðum þau mistök að sussa á strákana þá vorum það við sem sátum skömmustuleg eftir þegar presturinn var búinn að að útskýra að allir ættu að vera þeir sjálfir í kirkjunni.

Okkur er minnisstætt hversu skemmt þér var þegar frumburðurinn tróð sér á milli okkar við altarið í giftingunni og tilkynnti mömmu sinni hátt og snjallt að hann þyrfti á salernið.

Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og þínum betur þau níu ár sem við bjuggum fyrir austan og fyrir að geta kallað þig hluta af fjölskyldunni.

Þú varst góður að leita til þegar á reyndi, reynsla þín á bæði góðu og verri hliðum lífsins gaf að maður vissi að þú varst að deila af djúpum reynslubanka þegar á því þurfti að halda, en varst svo góður að halda í léttleikann í tilverunni þess á milli.

Þú og Kristín voruð líka alltaf tilbúin að hlaupa undir bagga þegar vantaði pössun eða annað viðvik til að aðstoða upptekna barnafjölskyldu.

Þótt við höfum bara fengið tækifæri til að hittast tvisvar eftir að við fluttum að austan fyrir sjö árum lifir alltaf minningin um stóran mann sem fyllti hús og kirkjur með góðri nærveru og gaf öllum pláss til að vera þau sjálf.

Takk fyrir allt, elsku frændi.

Knús í sumarlandið,

Rita Hvönn, Þorsteinn, Ólafur Tryggvi,
Trausti Marel og
Geirlaugur Cecil.

Kæri Cecil frændi.

Okkur tvíburasysturnar, systurdætur þínar, langar til að minnast þín í nokkrum orðum.

Fyrst langar okkur til að þakka þér fyrir að vera frændi okkar. Við litum alltaf upp til þín í orðsins fyllstu merkingu, bæði vegna þess að þú varst frændi okkar og svo hávaxinn!

Sameiginlega eigum við systur minningar um dvöl okkar hjá þér þegar þú bjóst í Svíþjóð og varst í prestsnámi. Við vorum 11 ára og 14 ára. Þá dvöldum við í heilan mánuð í Svíþjóð, tvær vikur hjá þér og tvær vikur hjá Gylfa heitnum bróður þínum. Ein af minningunum er af ferð í risastóra verslun, sem á þeim tíma var mikil upplifun að fara í vegna stærðarinnar. Síðar í lífinu áttuðum við okkur á því að þetta var IKEA!

Ein af sterkum minningum Önnu er af bíóferðum með þér til að sjá Tinna, þegar hún dvaldi hjá þér um helgar í Reykjavík þegar hún lá langdvölum á spítala og fékk helgarfrí öðru hverju. Það eru örugglega komin 47-48 ár síðan! Þakklætið er mikið, því það var erfitt að vera 8-9 ára á spítala fjarri fjölskyldunni.

Þú varst svo sannarlega innan handar þegar fyrsta barnabarn foreldra okkar, Kristborgar systur þinnar og Trausta föður okkar, hún Anna Kristín dóttir Oddfríðar, fæddist. Þú bæði giftir foreldra Önnu Kristínar í Fríkirkjunni í Reykjavík 1995, þegar þú þjónaðir því prestakalli, og skírðir Önnu Kristínu í Stykkishólmskirkju 1996. Þetta hélt áfram með hin barnabörn foreldra okkar, skírn, fermingar og gifting systur okkar, hennar Ritu Hvannar. Við erum ævinlega þakklát.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til yndislegu Kristínar, eftirlifandi eiginkonu þinnar, sem hefur verið stoð þín og stytta í gegnum árin og í gegnum veikindi þín. Einnig innilegustu kveðjur til barnanna ykkar, Þorbjargar Ölmu, Guðlaugar Völu, Kristínar Haröldu, Haralds Ísleifs, og barnabarna.

Þínar frænkur,

Anna og Oddfríður
Traustadætur.

Við Cecil fluttum á Seyðisfjörð á sama tíma og áttum mikla samleið. Fyrst í kennslu við grunnskólann og síðar í pólitíkinni. Hann skírði líka alla þrjá syni mína þó tæpt væri með miðjudrenginn þar sem þá skírn bar upp á sumarfrí prestsins og honum fannst gott að sofa út. Með þann þriðja bað hann mig líka fyrirfram um að passa upp á að vera ekki að standa í þessu veseni í kringum afmælisdag eiginkonunnar í október, hún ætti nú stórafmæli á þessum tíma. Ég hefði svo sannarlega frestað fæðingu drengsins um einhverjar vikur hefði ég getað það, eingöngu fyrir hann.

Við unnum lengi saman við kennslu og áttum nær undantekningalaust gott samstarf. Nemendur jafnt og samstarfsfólk báru ákveðna óttablandna virðingu fyrir honum og enginn mótmælti þegar „sestu“ gall við í kennslustundum. Stundum vorum við ósammála og lentum í smá þrjóskukeppni sem leystist samt alltaf sjálfkrafa.

Þar sem Cecil var stór maður, um tveir metrar á hæð og töluvert fyrirferðarmikill jafnt í fasi sem orði, gat það stuðað mann og annan. Hann hafði þó húmor fyrir stærðinni og talaði með blik í auga um kajakana sína eins og einhver nemandi kallaði skóna hans.

Í pólitíkinni var Cecil óhræddur við að segja sínar skoðanir umbúðalaust en hann var m.a. oddviti hreins framboðs VG á Seyðisfirði árið 2010 sem náði inn einum manni, sem var sannarlega ekki sjálfgefið. Þar var ég hans varamaður þrátt fyrir að passa á engan hátt í hans stóru skó. Það var alltaf gott að geta leitað til hans þegar mikið lá við.

Cecil var mjög virkur í starfi VG og lagði mikið á sig til að sinna pólitískum málefnum og lét mig heyra það ef ég var ekki að standa mig og ætlaði ekki að mæta á fundi. Við urðum líka oft samferða á pólitíska fundi, oft á P57 og þá ekki alltaf á löglegum hraða.

Í mínum huga var Cecil maður margra andlita, hann var kennari, prestur og pólitíkus og ekki endilega í þessari röð. Hann var mögulega hrjúfur á yfirborðinu en fyrir innan var allt annað í gangi.

Ég þakka fyrir góð kynni af manni sem var óhræddur við að standa við sínar skoðanir, sem var góður uppfræðari og vinur vina sinna. Takk kæri Cecil fyrir allt sem þú kenndir mér.

Eiginkonu og afkomendum Cecils sendi ég mínar kærustu samúðarkveðjur.

Þórunn Hrund Óladóttir.

Fyrir 66 árum hóf ég nám í MA og var settur í strákabekk, 3B. Við sátum saman tveir frændur en við hina hlið mér settist dökkhærður og hressilegur strákur. Í ljós kom að hann hét því fágæta nafni Cecil Haraldsson og kvaðst vera úr Stykkishólmi. Hann var ári á undan í skóla og sléttu ári yngri en ég en álíka að stærð. Það stóð nú ekki lengi því um vorið hafði hann stækkað um a.m.k. 20 sentímetra meðan ég stóð í stað. Við vorum ekki lengi að kynnast og úr varð vinskapur sem varð til þess að við urðum sessunautar, ekki aðeins út veturinn heldur alla bekkina fjóra. Naut ég vel alla tíð hve hve góður hann var í stærðfræði og raungreinum. Einnig bjuggum við lengst af á sama gangi í heimavistinni og vorum mikið í sama vinahópnum alla skólagönguna og brölluðum ýmislegt sem ekki verður fært hér í letur.

Cecil var góður námsmaður ef hann vildi það við hafa en stundum fannst honum sitthvað áhugaverðara en að sitja yfir námsbókunum, t.d. að spila bridge, sem hann stundaði síðan af kappi alla tíð. Þá var hann þekktur fyrir að sofa fast ef því var að skipta og ekki alltaf auðvakinn. Þessi skólaár eru sérstök í minningunni og þar á Cecil stóran sess.

Að stúdentsprófi loknu skildi leiðir okkar og lágu ekki mikið saman næstu árin. Hann festi ráð sitt og var við kennslu næstu 13 árin áður en þau Ólína kona hans fluttu til Svíþjóðar þar sem hún fór í framhaldsnám í hjúkrunarfræðum en hann í guðfræði. Starfaði hann sem prestur lengst af eftir það, fyrst í Svíþjóð en síðustu árin á Seyðisfirði. Þar heimsótti ég hann síðast fyrir fáum árum og átti með honum góða dagstund. Fékk ég á tilfinninguna að þar hefði honum liðið vel og átt góða tíma eftir nokkurt umrót í lífinu, skilnað og allt sem slíku getur fylgt. Þar vatt hann sér í pólitíkina enda alla tíð samfélagslega sinnaður og nokkuð róttækur jafnaðarmaður.

Ég minnist Cecils sem góðs félaga og vinar og votta eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu samúð mína.

Haraldur Finnsson.