Símalaus samvera er hvatningarátak sem hefur það að markmiði að hvetja foreldra og börn til að skipuleggja sameiginlega gæðastund án snjalltækja.

Kristín Ýr Gunnarsdóttir og Erla Ósk Ásgeirsdóttir

Samkvæmt niðurstöðum úr Þjóðarpúlsi Gallup telur helmingur landsmanna sig verja of miklum tíma í símanum eða öðrum snjalltækjum. Sex af hverjum tíu foreldrum finnst börn sín eyða of miklum tíma í snjalltækjum og 80% foreldra barna á aldrinum 10-14 ára telja börn sín verja of miklum tíma í símanum og myndu vilja minnka notkunina.

Þessar tölur gefa okkur til kynna að við þurfum að taka höndum saman og gera breytingar. Snjalltækin eru sannarlega orðin partur af tilveru okkar en þau mega ekki koma niður á lífsgæðum okkar og gæðastundum með fjölskyldunni. Við vitum að við getum flest gert betur í þessum efnum og að okkur myndi jafnvel líða betur gagnvart sjálfum okkur og börnunum okkar um leið og við höfum meiri stjórn og hugum betur að samvistum okkar við snjalltækin.

Í þessu ljósi höfum við hjá Barnaheillum og Símanum ásamt forsvarskonum Símaklefans ýtt úr vör hvatningarátakinu Símalaus samvera sem hefst sunnudaginn 17. mars næstkomandi. Átakinu er ætlað að hvetja til ábyrgrar símanotkunar og minna okkur á að gefa okkur tíma til að skipuleggja símalausa samveru. Rannsóknir sýna að skipulögð skjáhvíld eykur lífsgæði og skapandi hugsun.

Við vildum því einfalda fjölskyldum verkefnið og höfum samhliða hafið sölu á Símaklefanum á vefsíðu Barnaheilla, sem er lítið viðarbox sem fjölskyldan getur sett símana sína í – til geymslu á meðan á samverustundinni stendur. Allur ágóði af sölunni rennur til Barnaheilla.

Átakið stendur yfir næstu fjóra sunnudaga og hvetjum við öll til að taka þátt og finna stund sem hentar yfir daginn, leggja tækin frá sér og njóta augnabliksins. Einhvers staðar þarf að byrja, svo vonandi verður þetta að föstum lið hjá fjölskyldum sem ósjálfrátt leiðir til fleiri gæðastunda án snjalltækja.

Kristín Ýr er kynningarstjóri Barnaheilla. Erla Ósk er framkvæmdastjóri hjá Símanum.