Eldvörp Vestur af Svartsengi eru Eldvörp. Ármann segir virkni og aflögun hafa færst í áttina að þeim og telur að þar muni eldgos hefjast næst.
Eldvörp Vestur af Svartsengi eru Eldvörp. Ármann segir virkni og aflögun hafa færst í áttina að þeim og telur að þar muni eldgos hefjast næst. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is Rólegt er yfir Reykjanesskaga og verður áfram að mati Ármanns Höskuldssonar, eldfjallafræðings við Háskóla Íslands. Hann telur að úr þessu muni ekki draga til tíðinda fyrr en í haust og segist telja að eldgos verði næst í Eldvörpum en ekki á Sundhnúkagígaröðinni.

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Rólegt er yfir Reykjanesskaga og verður áfram að mati Ármanns Höskuldssonar, eldfjallafræðings við Háskóla Íslands. Hann telur að úr þessu muni ekki draga til tíðinda fyrr en í haust og segist telja að eldgos verði næst í Eldvörpum en ekki á Sundhnúkagígaröðinni.

„Við getum alveg þurft að bíða fram á haust með að fá eldgos,“ segir Ármann. Nú þegar snjóa leysir fara gervihnattamyndir að sýna áreiðanlegri niðurstöður. Fyrstu myndir gefa til kynna að aflögun sé farin að teygja sig í vestur á Reykjanesskaga.

„Það fer að styttast í að þetta fari í Eldvörpin,“ segir Ármann.

Með nýjum gervihnattamyndum sé auðveldara að greina aflögunina á svæðinu í heild sinni. GPS-mælar gefi vissar vísbendingar og séu góðir, en þeir séu þó bara á stökum punktum. „Þú færð ekki eins nákvæma mynd og gervihnötturinn gefur þér. Þú ert með miklu þéttari mælingar og þær koma mjög vel saman með GPS-mælingunum,“ segir Ármann. Þær eru þó háðar því að ekki sé snjór yfir landinu.

Virknin færist í vestur

Spurður að því hvað kunni að skýra að rólegra er yfir svæðinu segir Ármann það aðallega stýrast af spennunni í jarðskorpunni.

„Þetta er fyrst og fremst gliðnunarviðburður, ekki kvikuviðburður, kvikan kemur bara á eftir. Við erum að verða búin að losa um þarna á Sundhnúkasvæðinu. Þá fer að losna um í Eldvörpum og vestanmegin í kerfinu,“ segir Ármann.

Hann segir ekki hægt að segja að um jafnvægisástand sé að ræða, en að ástandið sé vissulega rólegra. „Kvikan heldur áfram að koma inn sem þýðir að það heldur áfram að togna á skorpunni. Skjálftarnir hafa orðið aðeins meira áberandi þarna vestur frá, við Reykjanestána. Við getum alveg þurft að bíða í einhvern tíma eftir næsta eldgosi,“ segir Ármann.

Kröflueldataktur

Í tikynningu Veðurstofu Íslands á þriðjudag kom fram að vísindamenn teldu atburðarás síðustu mánuði óvenju taktvissa.

„Hún er ekkert óvenjuleg. Það er bara mjög svipaður taktur í þessu og í Kröflu þó það sé önnur tímalengd. Þetta er bara mjög svipað og í Kröflu. Það eru fyrstu eldarnir sem við náum að mæla. Þar sjáum við fyrst þennan takt að það kemur kvika inn í jarðskorpuna og landið rís, þá verður kvikuinnskot eða eldgos á meðan spennulosun átti sér stað á Kröflusvæðinu,“ segir Ármann.

„Á meðan við erum að losa spennuna á Reykjanesskaga þá verðum við með taktvissa hegðun og það er ekkert nýtt. Við getum alveg fært að því rök að Mývatnseldar á 18. öld voru svipaðir og Öskjueldar á 19. öldinni hegðuðu sér eins. Þannig bara hegða flekamótin sér,“ bætir Ármann við.

Ekkert eiginlegt kvikuhólf

Hann segir að það sem sé ólíkt við Kröflu sé að þar undir sé eiginlegt kvikuhólf þar sem kvika safnist fyrir. Í því kerfi sem virkt er núna sé ekki eiginlegt kvikuhólf heldur safnist kvikan fyrir í tímabundnum kvikusyllum og brjótist síðan upp á yfirborðið.

„Ég reikna með að þessi hegðun breytist þegar Eldvörpin byrja. Þá er auðveldara fyrir kvikuna að komast beint upp og þá fáum við væntanlega lengri gos og hugsanlega einhverja öðruvísi hegðun,“ segir Ármann.

Sjálftavirkni hefur einnig verið við Eldey, en það er næsta kerfi við Reykjaneskerfið. Í eynni er einn GPS-mælir en Ármann segir vísindamenn við háskóla í Flórída áhugasama um að rannsaka hafsbotninn og hafa sótt um styrk til þess. Slíkar rannsóknir séu þó mjög kostnaðarsamar.