Kristján Hall
Kristján Hall
Samkeppni er aflvaki sem opnar markaði, hvetur til ráðdeildar og jákvæðni í rekstri fyrirtækja, opnar fyrir þróun nýjunga og nýrrar hugsunar.

Kristján Hall

Í heila öld hafa fyrirtæki og ríkisvaldið litið á samkeppni á mörkuðum sem ógn. Samkeppni hefur iðulega verið álitin ógnvaldur, og viðbrögð við henni oftar en ekki verið að eyða henni, drepa ógnina, og lagt hefur verið í stórar fjárfestingar til að „drepa keppinautinn“ en ekki fagna honum, sem í langflestum tilvikum stækkar markaðinn, eykur fjölbreytni og umtal. Landbúnaðurinn? Blessuð sé minning hans.

Samkeppni er aflvaki sem opnar markaði, hvetur til ráðdeildar og jákvæðni í rekstri fyrirtækja, opnar möguleika fyrir þróun nýjunga, nýrrar hugsunar, og hvetur til betri nýtingar á möguleikum þeim sem kvikna á markaði, þar sem fleiri hugsuðir finna nýjar leiðir.

Tökum Ríkisútvarpið til dæmis. Fyrirtæki sem hefur ótakmarkað leyfi til skuldasöfnunar sem ríkinu er ætlað að greiða. Því eru engar kvaðir settar um að deildir þess skili ávöxtun og getur þannig í sínum rólegheitum hringt í alla sem eru á auglýsingamarkaði og boðið ódýrari auglýsingar með þeirri framtíðarsýn að þegar búið er að drepa „keppinautana“, þá sé hægt að auka auglýsingatekjurnar.

Fyrir nokkrum árum voru gosdrykkjaframleiðendur þrír hér á landi og þar virtist markmiðið eitt, að drepa keppinautinn. Gosið var rándýrt, ætlað sem munaðarvara, á litlum flöskum og slökkti því engan þorsta. Þá kom nýr aðili inn á markaðinn, Sól, sem setti gosdrykkina á stærri flöskur og gerði venjulegum fjölskyldum kleift að njóta veitinganna með því að stórlækka verðið. Gosdrykkjamarkaðurinn margfaldaðist við þessar aðstæður og hagnaðurinn sömuleiðis. Allir framleiðendur urðu að risum þótt fáir skildu ástæðuna.

Fiskur var til skamms tíma aðnjótandi einokunar, 80% unnins fisks voru sett í saltfisk eða skreið. Allt var á hausnum en trúin á kerfinu raskaðist ekki jafnvel þótt síldin bættist við, hún væri upprætt á Íslandsmiðum og bæjarútgerðir mokuðu tapinu á bæjarsjóðina smáu.

Þá tóku ungir menn við, Halldór Ásgrímsson bjó til kvóta sem dró framsækna menn inn í útgerðina og með hið frjálsa framtak að baki sér, samkeppnina að leiðarljósi, þekkingu á mörkuðum erlendis og innanlands, breyttu þeir vinnslunni þannig að verðmæti afurðanna margfölduðust. Menn eins og Þorsteinn Már Baldvinsson, svo dæmi sé tekið, þó svo marga fleiri mætti til nefna, hafa fært vinnsluna og markaðssetninguna upp á það stig sem framast er í heiminum í dag og íslenskur fiskur hefur áunnið sér alþjóðlega stöðu sem bestur fiskrétta.

Þó eru þeir til sem vilja færa fiskvinnsluna til baka og að valdir óreiðumenn fái aftur útgerðina í hendur. Já, svona er Ísland í dag.

Frelsi og samkeppni eru lífgjafar, sem kalla það besta fram í manninum í sköpun og framþróun.

Höfundur er eftirlaunaþegi.