Sæluríki Lífið er einstaklega ljúft við sundlaugina á einu af þægindahótelunum sem eru á Amerísku ströndinni.
Sæluríki Lífið er einstaklega ljúft við sundlaugina á einu af þægindahótelunum sem eru á Amerísku ströndinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tenerife er sælureitur. Flugið frá Íslandi er hálf sjötta klukkustund og þegar komið er niður úr skýjunum blasir við þríhyrnd indæliseyja; gróin niður við strendur en hrjóstrug upp til fjalla. Hitamolla var í loftinu þegar við komum út úr…

Si

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Tenerife er sælureitur. Flugið frá Íslandi er hálf sjötta klukkustund og þegar komið er niður úr skýjunum blasir við þríhyrnd indæliseyja; gróin niður við strendur en hrjóstrug upp til fjalla. Hitamolla var í loftinu þegar við komum út úr flugstöðinni á Tenerife Sur Airport og gengum út á torgið, þar sem leigubílstjórar biðu í röðum. Við tókum bíl og vorum komin á hótel eftir hálftíma. Eyjan með sínum fallega svip tók vel á móti okkur og afgreiðslumaðurinn á hótelinu spurði um eldgos þegar við söguðumst vera frá Íslandi.

Vetrarhitinn er 25°C

Tenerife er úti fyrir ströndum Vestur-Afríku; er á sama breiddarbaug og Sahara en þarna kælir Atlantshafið sjávarloftið svo hitastig á eyjunni er milt og notalegt. Vetrarhiti í byrjun mars er gjarnan 20-25°C, ákjósanlegt fyrir stuttbuxur og ermalausan bol.

Hinar spænsku Kanaríeyjar eru samtals sjö og skiptast í tvö héruð. Annað er Las Palmas, þar sem eru til að mynda Gran Canaría og Lanzarote; hvort tveggja vinsælir ferðamannastaðir. Hinn staðurinn er svo Tenerife, með höfuðborginni Santa Cruz de Tenerife. Í borginni búa um 250 þúsund manns en um það milljón manns á eyjunni allri. Þetta er ekki síður vinsæll áfangastaður ferðafólks. Hingað liggja leiðir.

Á Tenerife eru ókjörin öll af hótelum, veitingastöðum og fallegum byggingum. Ferðamenn fara víða um á Tenerife, en helst þó um suðurhluta eyjunnar. Playa de las Américas, Los Cristianos og Costa Adeje eru vinsælustu staðirnir þar. Ameríska ströndin nýtur sérstakra vinsælda meðal Íslendinga. Staðarheitið nær raunar yfir stærra svæði en ströndina eina, en ljúfa lífið felst þó tvímælalaust í því að liggja í sólbaði á ströndinni. Eða setjast niður á matsölustöðum, þar sem þjónarnir rétta fólki matseðla sem sums staðar eru á íslensku.

Svo er gaman að spóka sig á göngugötunum. Ein þeirra er Laugavegurinn svonefndi; marmarastræti og sé það arkað enda á milli kemst maður ekki hjá því að heyra að hér eru Íslendingar á hverju strái. Góðan daginn, heyrist gjarnan sagt.

2.000 Íslendingar á hverjum tíma á Tenerife

„Hóflegt verðlag, veðrátta og stuttar vegalengdir milli helstu staða. Þetta eru skýringarnar á þeim vinsældum sem Tenerife nýtur meðal Íslendinga, en auðvitað kemur margt fleira til,“ segir Svali Kaldalóns fararstjóri. Hann hefur búið á Tenerife frá 2017 og starfrækir þar Tenerife-ferðir við þriðja mann. Undir þeim merkjum stendur hann fyrir margvíslegum lengri og skemmri skoðunarferðum um Tenerife. Farið er til dæmis einu sinni í viku um suðurhluta eyjunnar, og viðkoma þá höfð m.a. í fallegum sjávarþorpum, þar sem sagan er við hvert fótmál.

Um 50 þúsund manns frá Íslandi koma til Tenerife á ári hverju
og kunnugir telja að á hverjum tíma séu á svæðinu 2.000-2.500 manns að heiman. Sú tala er þó rokkandi, en flogið er frá Íslandi til og frá sólskinseyjunni 5-7 sinnum í viku.

Costa Adeje hefur, til viðbótar við Amerísku ströndina, komið á síðustu árum sterkt inn sem Íslendingastaður á Tenerife. Þar eru mörg nýleg þægindahótel í hæsta klassa og góðir veitingastaðir. „Núna á fyrstu mánuðum ársins hefur hér verið mikið af til dæmis eftirlaunafólki frá Íslandi. Unga fólkið kemur fremur um jól, áramót og páska. Þó má í raun segja að hér sé alls konar fólk á öllum tímum,“ tiltekur Svali sem segir það forréttindastarf að leiðsegja Íslendingum á Tenerife. Vinsældir eyjunnar séu miklar og slíkt muni væntanlega haldast áfram. Um fimm milljónir ferðamanna sæki staðinn á ári hverju og þar séu Bretar sérstaklega áberandi.