Ernaux „Það hvernig hún kaus að segja frá lífi foreldra sinna og um leið sinni eigin þroskasögu og það hvernig hún fjarlægðist þau, er einstaklega vel gert.“
Ernaux „Það hvernig hún kaus að segja frá lífi foreldra sinna og um leið sinni eigin þroskasögu og það hvernig hún fjarlægðist þau, er einstaklega vel gert.“ — Ljósmynd/Catherine Hélie, Gallimard
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Minningar Kona ★★★★★ Eftir Annie Ernaux. Þórhildur Ólafsdóttir þýddi og ritar eftirmála. Ugla, 2023. Mjúk kápa, 111 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Núna finnst mér ég vera að skrifa um móður mína til þess að geta sjálf komið henni í heiminn,“ (39) skrifar franski rithöfundurinn Annie Ernaux (f. 1940) í þessari áhrifaríku frásögn um móðurina, þar sem segir af því að í ársbyrjun 1940 hafi móðirin átt von á sínu öðru barni, höfundinum sjálfum, eftir að fyrsta barn foreldranna hafði dáið úr barnaveiki tæplega tveimur árum fyrr.

Ernaux byrjaði að skrifa Konu tveimur vikum eftir að móðir hennar lést og lauk verkinu um tíu mánuðum síðar. Þrátt fyrir að móðirin hafi síðustu misserin verið vistuð á stofnun fyrir heilabilaða og ljóst að hún ætti stutt eftir, þá var lát hennar einkadótturinni sem þungt högg. Þegar þrjár vikur voru liðnar frá jarðarförinni skrifar hún að þá fyrst hafi henni tekist að „yfirvinna skelfinguna sem fólst í að skrifa efst á hvítt blað, eins og það væri byrjun á bók, ekki á bréfi til einhvers: „Móðir mín er dáin““ (17).

Annie Ernaux er einn athyglisverðasti rithöfundur samtímans og hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2022. Síðan fyrsta bók hennar kom á prent fyrir hálfri öld hefur hún sent frá sér á þriðja tug bóka og vinnur hún í flestum með eigin minningar og reynslu; hún hefur til að mynda skrifað umtalaðar bækur um líf foreldra sinna, um fóstureyðingu sem hún undirgekkst ung og um ástarsambönd sín. Bækur hennar eru skrifaðar á einföldu máli, lausar við allt flúr og málalengingar; frásagnirnar virðast á yfirborðinu allt að því þurrar og ópersónulegar en um leið kafar hún með afhjúpandi hætti í félagslegar aðstæður og greinir tilfinningaleg sambönd fólksins sem hún skrifar um og þykir sumum hún sýna jafnvel óvægið miskunnarleysi við sína nánustu, og um leið sjálfa sig. Íslenskir lesendur eru lánsamir að hafa nú á tæplega tveimur árum fengið á prent stórfínar þýðingar á þremur rómuðum frásögnum Ernaux. Fyrst komu í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur hin snilldarlega bók Staðurinn, sem fjallar um líf og dauða föður Ernaux, og svo Ungi maðurinn, örstutt hugleiðing um og lýsing á sambandi hennar við miklu yngri mann. Staðurinn kom út á frönsku árið 1983 og vakti mikla athygli, meðal annars það hvernig höfundurinn fjallar um menntun sína og hjónaband og hvernig hún færist við það upp um stétt, frá verkamannastétt foreldra sinna. Nýr þýðandi tekur hér við því verki að snara skrifum Ernaux á íslensku. Þórhildur Ólafsdóttir er alvön að glíma við frönsku, með doktorspróf í frönskum bókmenntum, kenndi þær um tíma við HÍ og hefur nú lengi starfað hjá Evrópuráðinu í Strasbourg. Hún hefur líka bæði skrifað skáldskap og þýtt, og það mjög vel. Þórhildur ritar ljómandi góðan eftirmála um höfundinn, feril hennar og bókina.

Líta má á Konu sem sjálfstætt framhald Staðarins, þar sem frásagnirnar um líf og baksögu foreldranna skarast skiljanlega með ýmsum hætti en sjálf reynir Ernaux undir lok bókarinnar að skýra aðferð sína við ritun þessara verka: „Þetta er ekki ævisaga, auðvitað ekki skáldsaga heldur, ef til vill eitthvað mitt á milli bókmennta, félagsfræði og sálfræði“ (103). Frásögnin hefst þar sem höfundurinn sér lík móður sinnar á sjúkrahúsinu og síðan er greint ítarlega frá undirbúningi útfararinnar og dapurlegri útförinni sjálfri. Þegar sögukonan fer að venjast þeirri staðreynd að móðirin sé látin og „verður aldrei nokkurs staðar í heiminum framar,“ einsetur hún sér að halda áfram að skrifa um hana, því móðirin er „eina konan sem hefur skipt verulegu máli fyrir mig og hún var búin að vera vitskert í tvö ár. Ef til vill væri betra að ég biði þar til veikindi hennar og dauði væru runnin saman við straum liðinnar ævi minnar, líkt og aðrir atburðir, dauði föður míns og skilnaðurinn við manninn minn, svo ég nái þessari fjarlægð sem gerir greiningu minninganna auðveldari. En ég er ekki fær um að gera neitt annað í augnablikinu,“ skrifar hún. Og viðurkennir að viðfangsefnið sé erfitt, því „fyrir mér á móðir mín sér enga sögu. Hún hefur alltaf verið þarna.“ En Ernaux tekst engu að síður, þrátt fyrir skort á fjarlægð og sorgina, að draga meistaralega upp mynd af lífi og tilveru konunnar; „að leita að sannleika um móður mína, sannleika sem er ekki hægt að ná nema með orðum.“ Þann sannleika segir hún ekki ljósmyndir, eigin minningar eða vitnisburð fjölskyldunnar geta veitt sér, en samt færir hún okkur frásögn sem virðist ofur sönn og heiðarleg af konunni, aðstæðum hennar og fjölskyldunni. Og myndirnar sem dregnar eru upp eru margar knappar en áhrifaríkar, eins og af ömmunni sem undir lok ævinnar bjó í rafmagnslausri skúrbyggingu: „Móðir mín fór með mig í heimsókn til hennar á sunnudögum. Lítil, feitlagin kona, snögg í hreyfingum þrátt fyrir að annar fóturinn hafi verið styttri en hinn frá fæðingu. Hún las skáldsögur, talaði fátt en var hvassyrt, fannst gott að fá sér brennivínstár sem hún blandaði út í kaffisopa, beint í bollann“ (23).

Annað dæmi sem er dapurleg lýsingin á bræðrum og systrum móðurinnar en þau höfðu verið að týna tölunni: „Um langt skeið hafði áfengið deyft bræðisköst þeirra, karlarnir drukku á kaffikránum, konurnar heima (aðeins yngsta systirin sem ekki drakk, lifir enn).“ Ernaux segist einu sinni á leið heim úr skólanum hafa hitt eina af þessum frænkum sínum. „Hún heilsaði mér með kossi án þess að geta komið upp orði og riðaði á fótunum þar sem hún stóð.“ Og svo kemur ein setning, sem er svo dæmigerð fyrir frásagnarhátt Ernaux, afhjúpandi og mjög forvitnileg, án nokkurra frekari skýringa: „Ég held ég gæti aldrei skrifað á sama hátt ef ég hefði ekki hitt móðursystur mína þennan dag“ (30).

Foreldrar Ernaux höfðu lifibrauð af rekstri lítillar verslunar og kráar í Normandí en þegar móðirin var orðin ekkja tók Ernaux hana til sín um nokkurra ára skeið, til fjarlægrar borgar, og færði hana með því inn í líf í allt öðrum aðstæðum, í annarri stétt. Móðirin var í senn stolt yfir því lífi sem dóttir hennar lifði, eftir að hafa getað gengið menntaveginn með stuðningi foreldra sinna sem gátu það alls ekki, en um leið lenti sú gamla í erfiðum menningarlegum árekstrum. Frásögnin af því er á stundum átakanleg og dapurleg, en alltaf heiðarleg finnur lesandinn. Og þannig er aðferð höfundarins, allt að því skýrsluleg á stundum, og virðist jafnvel ópersónuleg, en þó viðkvæmnisleg og afhjúpandi. Það skrifar enginn eins og Annie Ernaux og sumum sem hafa fjallað um verkin finnst texti hennar þurr og óspennandi, jafnt á frummálinu sem í þýðingum. En sjálfsævisögulegar frásagnir hennar hrífa mig. Úthugsuð bygging sagnanna, meitlaður stíllinn, og það hvernig hún kaus að segja frá lífi foreldra sinna og um leið sinni eigin þroskasögu og það hvernig hún fjarlægðist þau, er einstaklega vel gert. Og auðvelt að skilja hvers vegna Nóbelsnefndin sænska kaus að verðlauna hana sem eina af þeim allra bestu.