[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirhugaður hótelturn við Skúlagötu í Reykjavík verður að hluta samsettur úr forsmíðuðum stáleiningum. Einar Þór Ingólfsson, verkfræðingur í Danmörku og hönnuður burðarvirkisins, segir bygginguna um margt brjóta blað í byggingarsögu Íslands

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fyrirhugaður hótelturn við Skúlagötu í Reykjavík verður að hluta samsettur úr forsmíðuðum stáleiningum.

Einar Þór Ingólfsson, verkfræðingur í Danmörku og hönnuður burðarvirkisins, segir bygginguna um margt brjóta blað í byggingarsögu Íslands.

Hótelið verður rekið undir merkjum Radisson Red og er áformað að taka það í notkun vorið 2025.

Búið er að steypa kjallara hótelsins og bíða framkvæmdaaðilar eftir byggingarleyfi til að steypa upp lyftu- og stigahúsið sem stáleiningarnar verða raðaðar utan um.

Einar Þór er meðeigandi KI verkfræðistofu í Kaupmannahöfn, eða KI Rådgivende Ingeniører, en KI er skammstöfun fyrir eftirnöfn stofnendanna, þeirra Jørgens Krabbenhøfts og Einars Þórs Ingólfssonar.

Krabbenhøft stofnaði stofuna árið 2009 undir eigin nafni og var nafni hennar svo breytt þegar Einar Þór varð meðeigandi.

Síðan árið 1994

„Ég hef búið í Danmörku síðan 1994 en ég flutti hingað sem barn með foreldrum mínum þegar pabbi fékk starf hér. Foreldrar mínir eru Ingólfur Kristjánsson efnaverkfræðingur og Ólafía Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau fluttu aftur til Íslands árið 2006 og pabbi starfar nú hjá Eflu verkfræðistofu en mamma fór á eftirlaun sl. sumar,“ segir Einar Þór sem býr í Kaupmannahöfn ásamt eiginkonu og þremur börnum.

Hann fetaði í fótspor föður síns og lærði verkfræði.

„Árið 2001 hóf ég nám við Tækniháskóla Danmerkur (DTU) og lauk meistaranámi árið 2006 sem byggingarverkfræðingur og fór svo í doktorsnám í beinu framhaldi sem ég kláraði árið 2010. Ég starfaði í nokkur ár hjá DTU sem aðjúnkt áður en við Jörgen hófum samstarf á verkfræðistofunni árið 2012,“ segir Einar Þór um feril sinn.

„Við erum í burðarþolshönnun og höfum allt frá stofnun stofunnar unnið mikið með arkitektum og aðilum sem þróa ný verkefni. Við höfum sérhæft okkur í flóknari burðarvirkjum og höfum ákveðna sérfræðistöðu í Danmörku á okkar sviði. Við erum ekki endilega í mikilli samkeppni [við aðrar stofur] um hefðbundin verkefni heldur erum við meira að leitast eftir verkefnum sem eru örlítið flóknari tæknilega og okkur hefur gengið vel að gera það. Við höfum tekið þátt í mörgum stórum verkefnum og það á mismunandi sviðum burðarvirkis. Við höfum m.a. hannað byggingar, brýr, háspennumöstur og orkuver og unnið verkefni í m.a. Danmörku, Bretlandi og á Íslandi.

Margar verkfræðistofur í Danmörku og á Íslandi starfa á mörgum fagsviðum en við erum með 30 starfsmenn sem sérhæfa sig eingöngu í hönnun burðarvirkja. Okkar strategía er að taka þátt í spennandi verkefnum og nýta sérþekkingu okkar til að hafa jákvæð áhrif á hönnun, hagkvæmni og útlit mannvirkisins. Við höfum sérstaka ánægju af því að vinna með arkitektum í verkefnum sem eru nýstárleg á einn eða annan hátt, hvort sem um er að ræða nýstárlegar vinnuaðferðir eða nýstárleg efni eða jafnvel nýstárlegan arkitektúr,“ segir Einar Þór.

Hófst fyrir farsótt

Hvað geturðu sagt mér um verkefnið á Skúlagötu?

„Verkefnið hófst fyrir kórónuveirufaraldurinn og við höfum frá fyrsta degi unnið að því að skilgreina með arkitektinum og eigandanum hvernig hægt er að byggja þetta hótel. Við höfum skoðað mismunandi burðarvirki og erum komin í þessa lausn núna sem er þessi stálgrind. Stálgrindin er búin til úr forsmíðuðum einingum úr stáli sem er tiltölulega nýstárlegt á Íslandi en þekkt á mörgum stöðum í Evrópu og raunar tiltölulega þekkt tækni. Við erum hér að blanda saman nýrri og þekktri tækni til að byggja og ná fram hagkvæmni í víðum skilningi. Til að mynda sömu gæðum, styttri byggingartíma, minna ónæði og minna kolefnisspori sem styður við markmið um lækkun kolefnisspors í byggingariðnaði.“

Hvað hefurðu komið að mörgum sambærilegum byggingum áður?

„Þetta er annað verkefnið sem við vinnum á þennan hátt en í eðli sínu er þetta hús ekkert ólíkt öðrum stálgrindarbyggingum. Það má segja að þetta sé hefðbundið hvað varðar burðarþol og mitt fag.“

Er þér kunnugt um að annar svona turn hafi verið reistur á Íslandi með þessari aðferð?

„Nei.“

Þannig að með þessu verkefni er verið að brjóta blað í byggingarsögu á Íslandi?

„Já, mér skilst það,“ segir Einar Þór.

Með 210 herbergjum

Kettle Collective, arkitektastofa skoska arkitektsins Tonys Kettles, fer með hönnun útlits hótelsins en fram kom í samtali við Kettle í Morgunblaðinu í ársbyrjun 2020 að skapa ætti nýtt kennileiti í borginni.

Hótelturninn verður 17 hæðir og með 210 herbergjum.

Á 17. hæð hótelsins verður bar með útsýni yfir miðborgina og sundin og fyrir ofan hann verður útsýnisverönd á þakinu. Við hlið hennar, á þaki 17. hæðar, verður tæknirými og er hugmyndin að skilja það að frá veröndinni með upplýstum súlum. Það er liður í að gera bygginguna að kennileiti.

Atli Kristjánsson, framkvæmdastjóri verkefnisins, segir það hafa hafist árið 2018 með niðurrifi eldri bygginga. Farsóttin hafi hins vegar valdið því að verkefnið var sett á ís.

Með því að byggja turninn að hluta úr forsmíðuðum einingum styttist framkvæmdatíminn um sex til níu mánuði. Það muni mikið um það í núverandi vaxtaumhverfi enda sé fjármagnskostnaður hár við þessar aðstæður. Hver eining verði í raun nær fullbúið hótelrými. Þannig muni til dæmis aðeins þurfa að setja teppi, rúm og smærri hluti inn í tilbúin herbergin.

Atli segir að samhliða byggingu hótelsins verði byggðar 27 íbúðir við hlið hans, á Skúlagötu 26, en þær verði fyrir almennan markað og komi í sölu í árslok eða í byrjun næsta árs. Undir hótelinu og íbúðunum verði bílakjallari með 51 bílastæði. Miðað við eitt stæði á íbúð má ætla að 24 stæði séu fyrir hótelið og segir Atli það nægja hóteli af þessari stærð. Þá bendir hann á að bílastæðahúsið Vitatorg sé við hliðina og að almenningssamgöngur séu góðar á svæðinu. Jafnframt séu bílaleigur þar í grennd og deilibílastæði. Við hótelið eru sömu aðilar einnig að byggja 34 íbúðir á Skúlagötu 30 sem verða með gistileyfi í flokki 2, hótelíbúðir. Að sögn Atla er hugmyndin að hafa veitingastað, verslun og þjónustu á jarðhæð þeirrar byggingar sem styðji við gistiþjónustuna og nærliggjandi svæði, fyrirtæki og heimili. Sömuleiðis muni þessi þjónusta gagnast gestum hótelsins en þar verði veitingahús og bar sem standi gestum hótelíbúðanna til boða.