Varnarvirki Verkamenn í Karkív-héraði reisa „drekatennur“, sem eiga að tálma för bryndreka.
Varnarvirki Verkamenn í Karkív-héraði reisa „drekatennur“, sem eiga að tálma för bryndreka. — AFP/Sergey Bobok
Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði við því í gær að Rússar væru „tæknilega reiðubúnir“ fyrir kjarnorkustríð ef tilvist, fullveldi eða sjálfstæði rússneska ríkisins væri ógnað, en á sama tíma teldi hann enga þörf á því að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu og ólíklegt að til þess kæmi

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði við því í gær að Rússar væru „tæknilega reiðubúnir“ fyrir kjarnorkustríð ef tilvist, fullveldi eða sjálfstæði rússneska ríkisins væri ógnað, en á sama tíma teldi hann enga þörf á því að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu og ólíklegt að til þess kæmi.

Pútín lýsti einnig yfir að rússnesk kjarnorkuvopn væru öðrum fremri, hvort sem þeim væri skotið af landi, sjó eða úr lofti. Sagði hann Rússa hafa jafnvel náð fram úr Bandaríkjunum tæknilega séð þegar kæmi að kjarnorkuvopnum.

Ummæli Pútíns féllu í sjónvarpsviðtali sem hann veitti í aðdraganda komandi forsetakosninga í Rússlandi, en þær fara fram nú um helgina. Pútín sagði einnig að Bandaríkjamenn skildu að ef bandarískir hermenn yrðu sendir til Úkraínu myndu Rússar líta á það sem merki um þátttöku Bandaríkjanna í stríðinu.

Pútín vék einnig að yfirlýsingum Macrons Frakklandsforseta um að vesturveldin yrðu að vera reiðubúin til þess að senda herlið til Úkraínu ef þörf krefði. Sagði Pútín að Macron hefði látið stjórnast af tilfinningum, þar sem Frakkar væru nú að glata bandamönnum sínum í Norður-Afríku til Rússa.

Ráðist á olíuhreinsistöðvar

Úkraínumenn héldu áfram drónaárásum á Rússland í gær og fyrrinótt, og greindi rússneska Tass-fréttastofan frá því í gær að drónaárás hefði hæft höfuðstöðvar FSB, rússnesku leyniþjónustunnar, í Belgorod-héraði. Hefði árásin valdið skemmdum á byggingunni en engu mannfalli.

Þá náði úkraínskur sjálfseyðingardróni að kveikja eld í olíuhreinsistöð Rússa í Ríazan, en búið var að slökkva eldinn í gærmorgun. Staðfest var í gær að Úkraínumenn hefðu einnig ráðist á olíuhreinsistöðvar Rússa í Kstovo og Kirisjí, en ekki var hægt að staðfesta hvaða árangur þær hefðu borið. Þá var sjálfseyðingardrónum einnig stýrt á a.m.k. tvo herflugvelli í Rússlandi.

Oleksandr Sirskí, yfirmaður allra herja Úkraínu, sagði í gær að staðan væri erfið á austurvígstöðvunum, og að Rússar væru að reyna að brjótast þar í gegn. Skotfæraskortur, einkum fyrir stórskotalið, hefur háð Úkraínumönnum undanfarnar vikur, en Bandaríkjastjórn tilkynnti í fyrrakvöld að hún myndi senda skotfæri og önnur hergögn að verðmæti um 300 milljónir bandaríkjadala til Úkraínu.

Sendingin var möguleg, þar sem varnarmálaráðuneytið gat hliðrað til í eigin fjárlögum, en Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, varaði við því að hergögnin myndu einungis duga í skamman tíma.

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, skoraði í fyrrinótt á Mike Johnson, forseta fulltrúadeildarinnar, að hleypa frumvarpi öldungadeildarinnar um aðstoð við Úkraínu, Ísrael og Taívan til atkvæðagreiðslu í neðri deildinni. Þingmenn deildarinnar hafa nú hafið undirskriftasöfnun til þess að knýja fram atkvæðagreiðslu um frumvarpið.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson