Bergischer Arnór Þór Gunnarsson eftir lokaleikinn á síðustu leiktíð.
Bergischer Arnór Þór Gunnarsson eftir lokaleikinn á síðustu leiktíð. — Ljósmynd/Bergischer
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolta- og landsliðsmaðurinn fyrrverandi Arnór Þór Gunnarsson var fljótur að venjast þjálfarastarfinu en hann lagði skóna á hilluna síðasta vor eftir langan og farsælan feril hér heima og í Þýskalandi

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handbolta- og landsliðsmaðurinn fyrrverandi Arnór Þór Gunnarsson var fljótur að venjast þjálfarastarfinu en hann lagði skóna á hilluna síðasta vor eftir langan og farsælan feril hér heima og í Þýskalandi.

Arnór Þór, sem er 36 ára gamall, er uppalinn hjá Þór á Akureyri en gekk til liðs við Val árið 2006 og lék með liðinu í fjögur tímabil áður en hann hélt út í atvinnumennsku til Þýskalands.

Hann samdi við Bittenfeld, sem nú heitir Stuttgart, árið 2010 og lék með liðinu í tvö tímabil áður en hann gekk til liðs við Bergischer þar sem hann lék í ellefu ár áður en skórnir fóru á hilluna.

Að loknu síðasta tímabili var hann ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins en Bergischer er í harðri fallbaráttu og situr sem stendur í 17. og næstneðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 14 stig, stigi frá öruggu sæti.

„Ég fíla mig mjög vel í þessu nýja hlutverki,“ sagði Arnór Þór í samtali við Morgunblaðið.

„Það var frekar langur aðdragandi að þessari ráðningu. Ég ræddi við framkvæmdastjóra Bergischer tveimur árum áður en ég ákvað að leggja skóna á hilluna og hann vissi að ég væri búinn að taka einhver þjálfaranámskeið heima á Íslandi. Hann vildi fá mig í starf innan félagsins og við fjölskyldan þurftum að taka ákvörðun saman. Þetta snerist fyrst og fremst um það hvort við værum tilbúin að vera áfram í Þýskalandi. Við tókum ákvörðun á mínu síðasta tímabili með Bergischer og ég ákvað að skrifa undir tveggja ára samning við félagið,“ sagði Arnór.

Skrítið til að byrja með

Arnór lék sem hægri hornamaður á ferlinum og hann vinnur náið með hornamönnum þýska félagsins í dag.

„Starfið er mjög fjölbreytt og ég er algjörlega með hornamennina á minni könnu, hvort sem það snýr að vörn eða sókn. Ég er líka mikið í því að klippa leiki og leikgreina. Ég sé líka alfarið um þjálfun 3. flokks félagsins sem er mjög skemmtilegt og gefandi starf. Það er mikill metnaður innan Bergischer að bæta yngri flokka starfið hérna og við erum tveir núna, sem hættum báðir í fyrra, sem erum með það á okkar könnu í dag.

Ég myndi ekki segja að ég hafi lent í einhverjum hindrunum þannig séð en ég skal alveg viðurkenna að fyrstu mánuðirnir, þegar undirbúningstímabilið var í fullum gangi, var aðeins skrítið. Ég var vanur að segja yngri leikmönnum liðsins til á æfingum en það var aðeins öðruvísi, til að byrja með, að segja þessum eldri leikmönnum til sem maður var kannski búinn að spila með í einhver sex til átta ár. Þetta hefur í raun gengið vonum framar og í dag er ég bara aðstoðarþjálfari liðsins og það er ekkert vesen.“

Mikilvægt að standa saman

Eins og áður sagði er Bergischer í harðri fallbaráttu en það hefur lítið gengið upp hjá félaginu í síðustu leikjum og hefur Bergischer tapað sjö leikjum í röð í deildinni.

„Þetta hefur tekið á, það er klárt mál. Á sama tíma er þetta ekki í fyrsta skiptið sem Bergischer er í harðri fallbaráttu. Maður gekk nokkrum sinnum í gegnum þetta með félaginu sem leikmaður en það er allt öðruvísi að upplifa fallbaráttu sem þjálfari. Sem þjálfari þarftu einhvern veginn að reyna að hugsa út fyrir boxið og þú ert alltaf að reyna að finna lausnir. Hvernig getum við bætt liðið og hvað getum við gert betur eru spurningar sem maður spyr sig sjálfan sig á hverjum einasta degi, oft á dag.

Sem leikmaður ertu meira í því að hugsa um sjálfan þig og hvað þú getur gert til þess að hjálpa liðinu. Þetta er því algjörlega svart og hvítt en þetta er líka ótrúleg reynsla sem þú öðlast á því, sem þjálfari, að vera í fallbaráttu. Mesta pressan er alltaf á þjálfaranum þegar illa gengur og ég hef reynt eftir fremsta megni að vera stoð og stytta fyrir Jamal Naji, þjálfara liðsins. Þjálfaranum líður oft eins og hann sé einn í heiminum þegar illa gengur og það er mikilvægt að allir í teyminu standi saman þegar á brattann er að sækja. Við ætlum okkur að halda sæti okkar í deildinni og það er að sjálfsögðu markmiðið.“

Sáttur með ákvörðunina

En saknar Arnór þess ekkert að vera inni á vellinum, sérstaklega þegar illa gengur hjá félaginu?

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá nei, þá sakna ég þess ekki beint. Ég hef fengið þessa spurningu mjög oft undanfarna mánuði. Það sem ég sakna mest við að vera ennþá að spila er tilfinningin fyrir leiknum sjálfum. Að standa inni á vellinum og upplifa stemninguna og fagnaðarlætin. Að ganga inn á völlinn og ganga út af honum eftir sigurleik, það er fátt sem toppar þá tilfinningu, hvað þá þegar maður skorar sigurmark leiksins eða eitthvað í þá áttina.

Á hinn bóginn sakna ég þess ekki neitt að vakna á morgnana og að vera að drepast úr verkjum, meðal annars í mjöðminni. Ég var kominn á þann stað að ég gat varla gengið þegar ég fór fram úr rúminu á morgnana og allir dagar byrjuðu á einhverjum verkjalyfjum hjá mér. Ég er með brjóskeyðingu í mjöðminni, sem eru frekar algeng meiðsli hjá handboltamönnum, og líkamlega var þetta löngu komið gott. Mér líður mun betur í líkamanum í dag og ég er mjög sáttur með þá ákvörðun mína að leggja skóna á hilluna. Ofan á það þá eru 35 ár ágætis aldur til þess að kalla þetta gott, þó menn eins og Alexander Petersson séu reyndar ennþá í fullu fjöri!“

Alltaf liðið vel hjá félaginu

Arnór hefur alla tíð haldið tryggð við Bergischer þrátt fyrir að mörg stórlið hafi sýnt honum mikinn áhuga.

„Það er margt sem heillar mig við þetta félag. Ég kom til félagsins árið 2012 og þá var Sebastian Hinze að taka við liðinu. Hann var einungis 32 ára og við smullum algjörlega. Við unnum mjög vel saman í tíu ár áður en hann tók svo við Rhein-Neckar Löwen. Árið 2012 fæddist dóttir mín í Bergischer og mér stóð þá til boða að fara til Kielce í Póllandi en ég var ekki tilbúinn að rífa fjölskylduna upp frá rótum. Hún var einungis þriggja mánaða og við ákváðum að taka slaginn hérna áfram.

Það þróaðist svo þannig að okkur leið alltaf betur og betur og við vorum einfaldlega ekki tilbúin að fara neitt annað, þrátt fyrir að ég hafi fengið ágætis tilboð hér og þar, innan sem utan Þýskalands. Þetta er frábært svæði og við erum í fimmtán mínútna fjarlægð frá bæði Düsseldorf og Köln. Okkar var líka tekið mjög vel hérna, strax frá fyrsta degi. Þetta spilar allt inn í en ef ég ætti að nefna eina ástæðu fyrir því af hverju ég hef alltaf haldið tryggð við Bergischer þá er það Sebastian Hinze og okkar samstarf.“

Vill starfa áfram við þjálfun

Uppeldisfélag Arnórs, Þór á Akureyri, er stórhuga í handboltanum þessa dagana en hefur Arnór leitt hugann að því að snúa aftur heim í bráð og taka þátt í uppbyggingunni sem á sér stað á Akureyri?

„Ég er samningsbundinn Bergischer út næsta keppnistímbil. Hvað gerist eftir það þarf eiginlega bara að koma í ljós. Eins og staðan er í dag þá sé ég fyrir mér að halda áfram í þjálfun. Ég hef lært ótrúlega mikið bara á þessu tímabili. Það er ekkert mál að ná sér í þjálfaragráður en að standa á hliðarlínunni og upplifa starfið er allt annað dæmi. Við fjölskyldan höfum oft rætt það okkar á milli hvort það sé kominn tími til þess að snúa aftur heim til Íslands. Börnin okkar eru bæði fædd í Þýskalandi og þekkja ekkert annað en Þýskaland og við viljum auðvitað að þau upplifi Ísland á einhverjum tímapunkti.

Ég var mjög ánægður þegar ég sá að Oddur Gretarsson væri á heimleið í Þór eftir frábæran tíma í Þýskalandi. Hann er á góðum aldri ennþá og það var frábært hjá Þórsurunum að sækja hann. Auðvitað væri gaman að fara heim á einhverjum tímapunkti og taka þátt í uppbyggingunni á Akureyri en ég er ennþá samningsbundinn hérna úti.

Það eru hins vegar góðir hlutir að gerast á Akureyri, bæði þegar kemur að handboltanum og fótboltanum, sem er mjög ánægjulegt að sjá fyrir Þórsara eins og mig.

Svo eru líka góðir hlutir að gerast í handboltanum á Íslandi heilt yfir og mig langar að nýta tækifærið og óska mínu gamla félagi Val til hamingju með báða bikarmeistaratitlana um síðustu helgi,“ bætti Arnór Þór við í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.