Stykkishólmur Fallegur staður og nú með réttu bókmenntabær.
Stykkishólmur Fallegur staður og nú með réttu bókmenntabær. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Konan og gyðjan í fornaldar- og þjóðsögum er þema Júlíönu – hátíðar sögu og bókmennta sem verður haldin í Stykkishólmi um helgina, það er 14.-16. mars næstkomandi. Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2013 og hefur vaxið að umfangi frá upphafi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Konan og gyðjan í fornaldar- og þjóðsögum er þema Júlíönu – hátíðar sögu og bókmennta sem verður haldin í Stykkishólmi um helgina, það er 14.-16. mars næstkomandi. Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2013 og hefur vaxið að umfangi frá upphafi.

Júlíana Jónsdóttir, sem hátíðin er nefnd eftir, var fædd 1838 og í æsku kynntist hún kveðskap og bókmenntum. Komst þannig á sporið. Fulltíða bjó hún í Stykkishólmi í um tíu ár og vakti þar og þá athygli fyrir kveðskap sinn. Árið 1876 sendi hún frá sér ljóðabókina Stúlku, fyrstu bókina eftir konu sem gefin var út á Íslandi. Ekki löngu síðar hélt Júlíana á braut og settist að í Vesturheimi. Í Winnipeg kom út önnur ljóðabók hennar, Hagalagðar, það er árið 1916, réttum 40 árum eftir útgáfu hinnar fyrri. Júlíana lést vestra árið 1917, þá 79 ára að aldri.

Fræðikonur eiga sviðið

Í ár verður dagskráin aðeins frábrugðin því sem áður hefur verið, á laugardegi hátíðarinnar nú eiga fræðikonur sviðið í stað rithöfunda. Til máls taka Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í norrænum fornaldarsögum, Ingunn Ásdísardóttir, doktor í norrænni trú, og loks Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor við HÍ.

„Í aðdraganda hátíðarinnar hafa leshópar tekið til kostanna bókina um Sölku Völku eftir Halldór Laxness. Stjórnandi lestursins í Stykkishólmi var Ólafur K. Ólafsson sýslumaður og í Reykjavík var annar hópur undir minni leiðsögn. Inntak þessa alls er að Stykkishólmur, þar sem ég bjó lengi, verði bókmenntabær,“ segir Gréta Sig. Bjargardóttir sem er í forsvari fyrir Júlíönuhátíðina. Til aðstoðar hópunum var Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og sérfræðingur í Sölku Völku.

Eins og undanfarin ár á Júlíönuhátíð kom rithöfundur til að vinna með nemendum Grunnskólans í Stykkishólmi að skapandi skrifum. Bergrún Íris Sævarsdóttir vann með nemendum í 3.-6. bekkja skólans og afrakstur þess starfs verður svo kynntur í Amtsbókasafninu í Hólminum kl. 11 á morgun, föstudag.

Unnið með tónlist

Hátíðin hefur einnig unnið með Tónlistarskólanum í Stykkishólmi og í ár sömdu nemendur tónverk við ljóð Júlíönu Jónsdóttur skáldkonu. Tónverkin verða flutt og sungin við setningu hátíðarinnar. Á morgun kl. 20 verða svo í Stykkishólmskirkju tónleikar þar sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzosópran kemur fram ásamt eiginmanni sínum, Francisko Javier Jáuregui, sem er klassískur gítarleikari. Þau munu flytja lög um konur, samin af konum eða samin til kvenna.