„Ef vilji er til að leysa leikskólavandann verðum við að fara fjölbreyttari leiðir og þetta er ein þeirra leiða sem við verðum að prófa, sérstaklega í ljósi þess að við sjáum að hún hefur reynst vel í öðru bæjarfélagi,“ segir Marta…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ef vilji er til að leysa leikskólavandann verðum við að fara fjölbreyttari leiðir og þetta er ein þeirra leiða sem við verðum að prófa, sérstaklega í ljósi þess að við sjáum að hún hefur reynst vel í öðru bæjarfélagi,“ segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.

Hún hefur fyrir hönd sjálfstæðismanna í borgarstjórn lagt fram tillögu í skóla- og frístundaráði borgarinnar þess efnis að tekið verði upp svokallað Kópavogsmódel í leikskólum borgarinnar með það að markmiði að nýta þau pláss í leikskólunum sem eru vannýtt vegna manneklu, veikinda og álags á starfsfólk.

„Markmiðið með nýjum leiðum í leikskólamálum yrði jafnframt að koma í veg fyrir að loka þurfi deildum vegna manneklu sem hefur komið niður á þjónustu við börnin og sem veldur streitu og álagi á fjölskyldur leikskólabarna,“ segir Marta. Hún bendir á að nú séu 140 laus pláss á leikskólunum sem ekki er hægt að nýta vegna skorts á starfsfólki og það jafngildi því að tveir leikskólar væru lokaðir. Þá sé heldur ekki hægt að nýta 370 leikskólapláss vegna viðhaldsleysis og samtals geri það 510 pláss sem ekki er hægt að nýta sem sé eins og að sjö leikskólar væru lokaðir.

Mikilvægt sé að auka sveigjanleika í dvalartíma, tekjutengja leikskólagjöld og bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir sex tíma vistun. Lagt er til að vinna við innleiðingu Kópavogsmódelsins hefjist sem fyrst og að skipaður verði starfshópur sem komi með tillögur að útfærslu, þannig að taka megi upp nýtt fyrirkomulag í haust.

Í Kópavogi er leikskólavist gjaldfrjáls fyrir börn sem dvelja þar sex klukkustundir á dag eða skemur og nýta 19% foreldra sér það samanborið við 2% áður. Hefur þriðjungur foreldra stytt viðveru barna sinna í leikskólum og dvalartími að meðaltali styst úr 8,1 klukkustund í 7,5.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson