Frá áramótum til 8. mars sl. dróst úr nýskráningum nýrra fólksbíla á Íslandi um 47,6%, borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu. Um 980 nýir fólksbílar komu á göturnar á umræddum tíma

Frá áramótum til 8. mars sl. dróst úr nýskráningum nýrra fólksbíla á Íslandi um 47,6%, borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu. Um 980 nýir fólksbílar komu á göturnar á umræddum tíma. Séu tölur brotnar niður sést samdráttur í sölu á rafbílum: 62,1%. Seldir rafbílar á þessu tímabili eru 294 borið saman við 775 selda bíla sömu daga 2023. Tölur á líku róli komu fram í Morgunblaðinu nýlega. Þá var undir tíminn frá áramótum til 16. febrúar en þá var samdráttur í rafbílasölu milli ára 49%.

„Margt skýrir samdrátt; háir vextir, óvissa um kjarasamninga en einnig hafa aðgerðir stjórnvalda sl. tvö ár, þegar kemur að auknum gjöldum á hreinorkubíla, áhrif,“ segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Hvað varðar nýskráningu og sölu á nýjum rafbílum þá hefur áhrif, að mati Maríu, afnám virðisaukaskattsívilnunar upp á 1.320 þúsund sem um áramótin var breytt í styrk sem sóttur er til Orkusjóðs og er allt að 900 þús. kr. Aðrar aðgerðir eru eins og úrvinnslugjald á drifrafhlöður rafbíla, hækkun bifreiðagjalds, breyting á vörugjaldakerfi og svo kílómetragjald á raf- og tengil­tvinnbíla. Allt slíkt telur.

Í janúar voru skráð umráða- og eigendaskipti á notuðum bílum rétt undir 9.000 talsins, sem er svipað og í fyrra. Stundum getur svo sama ökutækið talið nokkrum sinnum, til dæmis þegar bílar eru um stundarsakir skráðir á fjármálafyrirtæki t.d. vegna lána. Taka ber þarna fram að sala á notuðum bílum er jafnan minnst á fyrstu mánuðum ársins, en jafnan mest fyrri hluta sumarsins. Árin 2021-2023 voru skráningar á umráða- og eigendaskiptum notaðra bíla gjarnan um 135 þúsund á ári.

„Almennt tel ég að sala á notuðum bílum sé þó góð, svo sem á ýmsum ódýrari gerðum. Þegar verðið er komið í 8-10 millj. kr. er hreyfingin í sölu minni samkvæmt því sem ég heyri frá mínu fólki,“ segir María Jóna. Kunnugir segja bíla sem kosti undir 2 milljónum fara fljótt; séu gjarnan seldir maður á mann með auglýsingum á félagsmiðlum. sbs@mbl.is