Tónlist Hjónin Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson verða með tónleika annað kvöld.
Tónlist Hjónin Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson verða með tónleika annað kvöld. — Ljósmynd/Heiða Dís Bjarnadóttir
Hjónin Berta Dröfn Ómarsdóttir sópran og Svanur Vilbergsson gítarleikari halda tónleika, sem þau kalla Bernskuslóð, í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík annað kvöld og hefjast þeir klukkan 20

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hjónin Berta Dröfn Ómarsdóttir sópran og Svanur Vilbergsson gítarleikari halda tónleika, sem þau kalla Bernskuslóð, í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík annað kvöld og hefjast þeir klukkan 20. „Þetta eru fyrstu sameiginlegu tónleikar okkar í Reykjavík og við flytjum þekkt lög í nýjum búningi,“ segir Svanur.

Svanur steig sín fyrstu spor í tónlistinni á Stöðvarfirði. Hann segir að þar hafi verið góðir tónlistarkennarar og ekki síst erlendir sem hafi flutt til landsins til að kenna. 17 ára hafi hann farið í enskan tónlistarmenntaskóla og síðan lokið háskólaprófi í tónlist í Hollandi. „Þar ákvað ég að leggja klassískan gítarleik fyrir mig.“ Hann hafi flutt heim fyrir áratug og þau Berta kynnst á dansnámskeiði fyrir um fimm árum. „Við erum bæði ættuð að austan en höfðum ekki hist fyrr,“ rifjar hann upp. „Þá var Berta nýkomin úr tónlistarnámi á Ítalíu eftir að hafa áður verið í Söngskóla Reykjavíkur og þetta var skemmtileg tilviljun.“

Tengingar

Berta á einnig ættir að rekja til Grindavíkur og vegna þeirra tengsla áttu tónleikarnir, sem eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, upphaflega að vera þar 10. nóvember á nýliðnu ári. „Daginn sem allt byrjaði að nötra,“ minnir Svanur á. „Ég var rétt búinn að strauja skyrtuna og við vorum að leggja í hann þegar Grindavíkurvegurinn var kominn í sundur.“

Svanur segir að þeim hafi brugðið við jarðhræringarnar eins og öðrum og að undanförnu hafi mikill tími farið í að aðstoða vini og ættingja Bertu í Grindavík. „Hamfarirnar hafa því haft áhrif á okkur en í sjálfu sér hafa þær ekki breytt öðru hjá okkur sjálfum en tíma og stað fyrir tónleikana.“

Nafnið Bernskuslóð vísar til æskustöðva Bertu og þess að hjónin Margrete Kaldalóns og Sigvaldi Kaldalóns, læknir og tónskáld, bjuggu í Grindavík í 15 ár, en sagt hefur verið að það hafi verið frjóustu ár hans á tónlistarsviðinu.

Svanur hefur gert nýjar útsetningar fyrir gítar og sópran af nokkrum sönglögum Sigvalda Kaldalóns, þar á meðal af lögunum Betlikerlingu, Ég lít í anda liðna tíð og Mamma ætlar að sofna, og verða þau á efnisskránni. „Eins flytjum við lög eftir Þorvald Gylfason sem upprunalega voru samin fyrir píanó og söng en ég hef líka umritað þau,“ segir Svanur. Hann bætir við að Berta hafi meðal annars farið til Ítalíu ásamt Þorvaldi og fleirum í fyrra og þá frumflutt mörg lög eftir hann. Heimildarmynd hafi verið gerð um ferðina og verði hún væntanlega sýnd hérlendis innan skamms. „Síðan flytjum við nýlegt sönglag eftir mig við ljóðið Bernskuslóð eftir Rúnar Þorsteinsson, sem er frá Stöðvarfirði eins og ég. Efnisskráin tengist því bernskustöðvum okkar Bertu.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson