[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Amanda Ilestedt, ein af lykilkonum sænska landsliðsins í knattspyrnu sem fékk brons á HM í fyrra og leikmaður Arsenal á Englandi, er komin í barneignarfrí. Hún leikur því ekki með sænska liðinu í undankeppni EM í vor og sumar og spilar væntanlega…

Amanda Ilestedt, ein af lykilkonum sænska landsliðsins í knattspyrnu sem fékk brons á HM í fyrra og leikmaður Arsenal á Englandi, er komin í barneignarfrí. Hún leikur því ekki með sænska liðinu í undankeppni EM í vor og sumar og spilar væntanlega ekki á ný með Arsenal fyrr en á næsta ári. Amanda er 31 árs og hefur leikið 74 landsleiki fyrir Svíþjóð.

Akureyringurinn Alex Máni Sveinsson hefur gert tveggja ára samning við sænska íshokkífélagið ÖHF frá Örnsköldsvik. Alex er tvítugur og ólst upp hjá Skautafélagi Akureyrar en hann lék með 20 ára liði ÖHF á síðasta tímabili. ÖHF leikur í sænsku C-deildinni, Hockeyettan, og er Alex fyrsti Íslendingurinn sem gerir tveggja ára samning við félag í þeirri deild. Alex er í íslenska landsliðinu sem býr sig nú undir keppni í 2. deild A á heimsmeistaramótinu, en riðillinn er leikinn í Belgrad í Serbíu dagana 21. til 27. apríl.

Knattspyrnumaðurinn Lisandro Martínez, miðvörður Manchester United og heimsmeistara Argentínu, hefur verið valinn í landsliðshóp Argentínumanna þrátt fyrir að vera að glíma við meiðsli. Endurhæfing Martínez er á áætlun og samþykkti Man. United að hleypa honum í komandi verkefni með Argentínu þar sem liðið á fyrir höndum tvo vináttuleiki í Bandaríkjunum, gegn El Salvador og Kosta Ríku.

Ryan Giggs, fyrrverandi leikmaður Manchester United og landsliðsþjálfari Wales, er mættur aftur í enska fótboltann. Er Giggs orðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá enska D-deildarliðinu Salford City. Giggs á einnig hlut í félaginu, ásamt Nicky Butt, Gary Neville, Phil Neville, Paul Scholes og David Beckham, sem léku með honum hjá United á sínum tíma. Giggs lék allan feril sinn hjá Manchester United, en hann lék 672 leiki með aðalliði félagsins og skoraði í þeim 114 mörk.

Hollenski varnarmaðurinn Micky van de Ven mun ekki leika með Tottenham gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardag vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Tottenham gegn Aston Villa síðastliðinn laugardag. Óvíst er hve lengi sá hollenski verður frá en hann verður í það minnsta ekki klár í slaginn um helgina.