— Ljósmyndir/Hörður Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er geimhrollvekja og verkið á sér stað í framtíðinni, kannski eftir 100 ár. Jörðin er ekki lengur byggileg, mannkynið hefur séð til þess, þannig að verið er að leita leiða til að koma upp byggðum annars staðar í geimnum

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Þetta er geimhrollvekja og verkið á sér stað í framtíðinni, kannski eftir 100 ár. Jörðin er ekki lengur byggileg, mannkynið hefur séð til þess, þannig að verið er að leita leiða til að koma upp byggðum annars staðar í geimnum. Það er lítill hópur fólks sem er komið alla leið til Plútós, er þar búið að koma upp lítilli geimstöð og er í rauninni að bíða eftir að vera sótt og að annað teymi komi til að taka við keflinu,“ segir Sólveig Arnarsdóttir leikkona spurð út í verkið X, sem frumsýnt verður á Nýja sviði Borgarleikhússins laugardaginn 16. mars klukkan 20.

Tíminn verður afstæður

Um er að ræða dulmagnað og hrollvekjandi spennuleikrit úr smiðju Alistairs McDowalls sem er af mörgum talinn eitt athyglisverðasta leikskáld Breta í dag.

„Þegar verkið hefst eru geimfararnir orðnir sambandslausir við jörðina og halda í fyrstu að um sé að ræða tæknilega örðugleika en svo lagast ekki neitt. Það næst ekki samband við jörðina en hins vegar kemst allt til skila sem þau senda til jarðarinnar. Forsendur verksins eru því að við vitum ekki hvort ákveðið hefur verið að skilja þau eftir eða hvort það er enginn lengur á lífi á jörðinni,“ segir Sólveig og bætir við að áhöfnin sé því alveg einangruð frá umheiminum, alein í svartamyrkri.

„Fljótlega byrja svo öll tækin þeirra, sérstaklega klukkan sem tengd er jarðartímanum, að detta úr sambandi og bila. Þá erum við komin inn í þær aðstæður að þú ert einhvers staðar á pínulitlum hnetti í svartamyrkri einhvers staðar úti í geimnum í fullkomnu tímaleysi og í rauninni í fullkomnu tilgangsleysi og hvað gerist þá? Hvað kemur fyrir manneskjuna ef það er enginn tilgangur, engar ytri aðstæður sem gefa þér einhvers konar strúktúr í daginn, enginn tími, hvað gerist þegar það er allt farið? Það er auðvitað alveg rosalega áhugavert.“ Segir Sólveig að í kjölfarið fari að gerast mjög einkennilegir hlutir.

„Það fara til dæmis að birtast manneskjur sem þau eru ekkert sammála um hvort séu til í raun og veru.“

Fyrst og fremst spennandi

Aðspurð segir Sólveig verkið ansi ólíkt því sem sést hefur á fjölum Borgarleikhússins á þessu leikári. „Þetta er eiginlega bara allt öðruvísi verk heldur en mjög margt annað sem ég hef annaðhvort leikið í eða séð því raunveruleikinn leysist upp. Þú veist ekki hverju er að treysta þannig að það er ekki eins og þetta hafi beina skírskotun í eitthvert viðkvæmt samtímamál. Það er miklu frekar verið að skoða mannssálina og mannshugann. Geturðu treyst eigin minni eða eigin upplifunum og annarra?“

Segir Sólveig að það þurfi ekki einu sinni svona ýktar aðstæður til að fólk missi vitið. „Það getur til dæmis bara gerst ef fólk lendir í miklum svefnerfiðleikum, þá er mjög stutt í að þú byrjir að ruglast. Ég tala nú ekki um ef tíminn er ekki lengur til, eða ekkert tímaviðmið, og það er alltaf svartamyrkur. Það er svo miklu styttra í það að við missum tökin á raunveruleikanum en við ímyndum okkur.“

En hvernig skyldi takast að búa til og skapa hrollvekjandi spennu á sviðinu sem skilar sér út í sal?

„Það gerist einfaldlega í framvindu verksins en þú sem áhorfandi ert alltaf að fá einhverjar upplýsingar sem þú þarft að vinna úr og reyna að átta þig á. Er þessi til eða ekki? Gerðist þetta eða gerðist þetta ekki?“ segir Sólveig og nefnir í framhaldinu að töfrar leikhússins birtist áhorfendum að sjálfsögðu líka í formi hljóða og lýsingar og öðru sem ýti undir upplifunina og skapi ákveðna stemningu og andrúmsloft. „Við erum með alveg frábært fólk, í leikmynd, teymin sem búa til hljóðin, lýsinguna og fleira en það er mikill hljóðheimur í verkinu sem skilar sér út í salinn.“

Ekki er allt sem sýnist

Leikstjóri verksins er Una Þorleifsdóttir en hún hefur leikstýrt mörgum sýningum. Má þar nefna Atómstöðina endurlit, Þéttingu hryggðar, Síðustu daga Sæunnar og Prinessuleikana. Spurð út í leikarahópinn í verkinu segir Sólveig einvala lið þar á ferð.

„Á sviðinu eru sex manneskjur, að mér frátalinni eru það Bergur Þór Ingólfsson, Björn Stefánsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og svo Kría Valgerður Vignisdóttir sem er barn. Leikhópurinn samanstendur af þessum sex manneskjum en í rauninni, samkvæmt raunveruleika verksins, eru líklega ekki nema fjórir í þessari áhöfn. En við vitum það ekki,“ segir Sólveig með ákveðinni dulúð í röddinni.

Sjálf fer Sólveig með annað aðalhlutverkanna í sýningunni þó að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að svo væri þegar hún fékk handritið fyrst í hendur.

„Ég leik konu sem heitir Gilda en hún er svona frekar ferköntuð vísindakona. Hún er ekki beint sprúðlandi skemmtileg eða hress týpa en hún er sú sem hefur langmestar áhyggjur af þessu öllu saman, að ekki náist samband við jörðina og hvað sé raunverulega í gangi,“ segir hún og svarar því í kjölfarið aðspurð að hlutverkið sé mjög krefjandi. „Já, það er það og einnig erfitt. Það er miklu víðfeðmara, stærra og erfiðara en ég áttaði mig á þegar ég var að lesa verkið. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu að ég væri með aðalhlutverkið,“ segir hún og hlær.

„Yfirleitt er það þannig að þegar maður byrjar að æfa þá hefur maður nokkuð skýra hugmynd um umfang hlutverksins en í þetta sinn var það ekki svo fyrr en nokkuð var liðið á æfingatímabilið. Það eru mjög spennandi og krefjandi hlutverk í þessu verki sem reyna talsvert á okkur öll. Þess vegna er mikilvægt að traust og leikgleði sé til staðar sem svo sannarlega er raunin hér.“

Þá segir Sólveig eitt það skemmtilegasta við verkið vera að manni sé sífellt komið á óvart. „Ég upplifi það svolítið þannig að alltaf þegar maður heldur sirka hvert það sé að stefna, þá er tekin einhver u-beygja og farið eitthvað allt annað. Þannig að verkið kemur manni aftur og aftur á óvart.“

Mikil eftirvænting í hópnum

Að sögn Sólveigar hafa æfingarnar gengið vel og segir hún mikla eftirvæntingu í hópnum fyrir frumsýningardeginum.

„Þetta hefur verið alveg frábær æfingatími með Unu Þorleifsdóttur sem er náttúrulega alveg einstaklega flink og frábær leikstjóri. Við erum að vinna núna saman í þriðja skiptið og það er alltaf jafn ánægjulegt og gleðilegt að vinna með henni því hún er svo klár og skemmtileg.“

Þá segir hún áhorfendur mega búast við spennandi kvöldstund þar sem tekist er á við erfiðar aðstæður sem hrista upp í fólki.

„Þetta fjallar, eins og öll góð leikrit, um mannssálina og hversu brothætt við erum og hversu lítið í rauninni þarf að bregða út af til þess að allt molni undan okkur. Það er kannski það sem er áhugaverðast. Það þarf ekki nema að kippa nokkrum stoðum undan og þá hrynur allt. Maður heldur alltaf að maður geti treyst sjálfum sér og samferðafólki sínu en þarna er á ferðinni ótrúlega klárt, flott, vel menntað, þjálfað fólk og á aðeins nokkrum vikum er allt farið í rugl hjá því. Þú veist ekki hverjum þú getur treyst, hvað er raunveruleikinn og hvort raunveruleikinn sé yfir höfuð til“ segir Sólveig að lokum og skilur blaðamann eftir ansi spenntan fyrir því að drífa sig á sýninguna.