Gjald Íslenskar útgerðir greiða hærra veiðigjald af fleiri nytjastofnum.
Gjald Íslenskar útgerðir greiða hærra veiðigjald af fleiri nytjastofnum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Veiðigjöld fyrir árið 2024 tóku nokkrum breytingum frá fyrra ári og hækkaði gjald á fleiri tegundum um áramótin. Til að mynda hækkaði veiðigjald á þorsk um 39%, í 26,66 krónur á kíló. Þá hækkaði veiðigjald á ýsu um 12% og endaði í 22,28 krónum á…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Veiðigjöld fyrir árið 2024 tóku nokkrum breytingum frá fyrra ári og hækkaði gjald á fleiri tegundum um áramótin. Til að mynda hækkaði veiðigjald á þorsk um 39%, í 26,66 krónur á kíló. Þá hækkaði veiðigjald á ýsu um 12% og endaði í 22,28 krónum á meðan veiðigjald á ufsa hækkaði um heil 60% og nemur nú 12,14 krónum á kíló.

Á sama tíma lækkaði veiðigjald á makríl um 49% og um 14% í tilfelli djúpkarfa. Mesta hlutfallslega lækkunin var þó fyrir rækju, gulllax og grálúðu en gjald á þessar tegundir var fellt niður.

„Í tilvikum grálúðu, gulllax og rækju er niðurstaða útreiknings reiknistofns neikvæð og því tillaga Skattsins um fjárhæð veiðigjalds þessara tegunda 0 krónur á kílógramm á veiðigjaldsárinu 2024,“ útskýrir matvælaráðuneytið í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns um grundvöll veiðigjalds ársins 2024.

Bent er á að lög geri ráð fyrir að veiðigjald verði 33% af reiknistofni hvers nytjastofns. „Reiknistofninn byggir á innsendum upplýsingum um aflaverðmæti hverrar veiddrar fiskitegundar sem koma fram á sérstöku eyðublaði, sem útgerðaraðilar skiluðu með skattframtali ársins 2023 og upplýsingum frá Fiskistofu um landaðan afla íslenskra fiskiskipa á almanaksárinu 2022 skipt niður á fisktegundir.“

Þá segir í svarinu að reiknistofninn sem er til grundvallar veiðigjalds sé reiknaður í þremur skrefum. „Fyrst skal reikna fyrir hvert fiskiskip. Frá aflaverðmæti hvers nytjastofns sem skipið veiðir skal draga hlutdeild stofnsins í breytilegum og föstum kostnaði skipsins við veiðiúthald. Hlutdeild í breytilegum og föstum kostnaði við veiðiúthald skal vera jöfn hlutdeild aflaverðmætis stofnsins af heildaraflaverðmæti skipsins á almanaksári.

Þessu næst skal leggja saman þá niðurstöðu fyrir öll fiskiskip sem veiddu nytjastofninn. Að lokum skal deila í samtölu þessa með öllu aflamagni nytjastofnsins hjá öllum fiskiskipunum á sama almanaksári. Reikna skal til króna á kílógramm landaðs óslægðs afla.“