— Ljósmyndir/GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í rúma fjóra áratugi hafa íslensk stjórnvöld stutt við þekkingaruppbyggingu sérfræðinga frá þróunarlöndum á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu og sem geta leikið lykilhlutverk í sjálfbærri þróun

Þórhildur Ólafsdóttir

Úganda

Í rúma fjóra áratugi hafa íslensk stjórnvöld stutt við þekkingaruppbyggingu sérfræðinga frá þróunarlöndum á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu og sem geta leikið lykilhlutverk í sjálfbærri þróun. GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar hér á landi, stóð nýverið fyrir viðburði í Úganda þar sem útskrifaðir nemendur komu saman.

Í Kampala, höfuðborg Úganda, kom saman hópur fólks úr ólíkum áttum. Sum búa í borginni, önnur lögðu langar vegalengdir að baki. Þótt bakgrunnur þeirra sé ólíkur eru þau öll sérfræðingar á sínum sviðum og starfa víðsvegar innan stjórnsýslunnar, háskóla og á almennum vinnumarkaði við að stuðla að sjálfbærri þróun í Úganda. Eitt sameinar þau öll: Það er Ísland.

Stærsta samstarfslandið

Þetta eru fyrrverandi nemendur GRÓ-skólanna fjögurra: Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans. Síðustu fjóra áratugi hafa íslensk stjórnvöld stutt við sérfræðinga og fagfólk frá þróunarlöndum til að bæta við þekkingu sína með því að sækja nám við skólana. Þeir eru starfræktir á vegum GRÓ, undir merkjum Mennta-, vísinda-, og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Næstum 1.700 nemendur hafa útskrifast úr 5-6 mánaða námi við skólana á þessum tíma, frá öllum heimshornum.

Úganda er stærsta samstarfsland GRÓ þegar litið er til þeirra landa þar sem allir skólarnir fjórir hafa starfað, en alls hafa 117 nemar komið þaðan. Sum þeirra útskrifuðust fyrir áratugum síðan, önnur eru nýkomin heim.

Hluti þessa stóra og öfluga úgandska nemendahóps kom saman til að sækja viðburð skipulagðan af fulltrúum nemenda, GRÓ, UNESCO og sendiráði Íslands í Úganda. Tilgangurinn með fundinum var að efla tengslanet nemendanna þvert á málefnasviðin fjögur og vekja athygli út á við á sérfræðiþekkingu þeirra. Öllum sem sátu fundinn mátti vera ljóst að þarna var á ferðinni hámenntað fólk, margt í afar áhrifamiklum störfum.

Dr. Godfrey Kubiriza leiddi skipulagningu fundarins af hálfu nemenda, en hann er lektor við náttúruvísindasvið Makerere-háskóla í Kampala og fyrrverandi nemandi Sjávarútvegsskólans. Einnig lauk hann doktorsprófi frá HÍ með skólastyrk frá GRÓ. „Við erum bjartsýn á að með þessum fundi getum við enn frekar virkjað þekkingu og hæfileika þessara nemenda. Þau eru sérfræðingar á sínum sviðum og þjálfunin sem þau hlutu á Íslandi bætir enn við hugvit þeirra og reynslu. Það er mikill hagur í að nýta þennan mannauð enn frekar,“ segir Godfrey. „Ég er mjög stoltur af þessari samkomu og vona að fleiri fyrrverandi nemendur skólanna annars staðar í heiminum geri hið sama.“

Lærdómur sem nýtist vel

Á fundinum kynntu nokkrir fundargestir þau verkefni sem þau unnu á námstíma sínum á Íslandi og hvernig sú þekking sem þau viðuðu að sér hefur nýst þeim við störf þeirra. Evelyn Mugume stundaði nám við Landgræðsluskólann árið 2014. Hún bar um hálsinn silfurmen með útlínum Íslands til minningar um þann tíma sem hún segir að hafi kennt sér ótalmargt. Sá lærdómur nýtist henni vel í starfi sem umhverfisfulltrúi í Kasese, sem er ægifagurt svæði í V-Úganda og hluti af tveimur þjóðgörðum.

Íbúar Kasese eru aðallega bændur. Jarðvegurinn þar er sendinn og vatn rennur auðveldlega í gegnum hann. Evelyn segir hann að mörgu leyti líkan grófum eldfjallajarðvegi Íslands. Hún vinnur ásamt heimafólki að því að finna leiðir til að koma í veg fyrir að vatnið seytli burt heldur næri jarðveginn svo í honum sé hægt að rækta meira. „Hiti, þurrkar og hæðótt landslag eru meðal áskorana þegar kemur að vatnssöfnun,“ segir hún. „Ég lærði á Íslandi að vinna með samfélögum og tækla ákveðin svæði í einu, þá eru meiri líkur á að ná tökum á vandanum.“

Akullo Davis Ebong sótti Sjávarútvegsskólann 2021-2. Verkefni hennar miðaði að því að auka gæði á þurrkuðum fiski svo hann nýtist frekar til manneldis. Akullo þróaði leið til að nota eiginleika sítrónugrass. Fiskurinn er meðhöndlaður með því áður en hann er lagður til þerris en jurtin verndar hann fyrir skemmdum og skordýrum. Akullo starfar hjá Landbúnaðarrannsóknamiðstöð Úganda, sérhæfir sig þar í gæðastjórnun og meðhöndlun á fiski. Vinnan er henni hjartans mál: „Ég borða nefnilega sjálf mjög mikinn fisk,“ segir hún glettin.

Peter Mawejje spyr um nýjustu fréttir af eldgosum á Reykjanesi. Hann var í Jarðhitaskólanum árið 2007 og heillaðist af eldgosa- og jarðhitakerfi Íslands. Hann vinnur í orkumálaráðuneyti Úganda, en í landinu er nokkur jarðhiti sem þó hefur hvorki verið rannsakaður eða nýttur svo nokkru nemi. Peter segir stefnt að djúpborunum á völdum svæðum í landinu og er spenntur fyrir möguleikunum, ekki síst því að nota jarðhita til meðhöndlunar matvæla. Fundurinn er fyrir honum frábært tækifæri til að byggja upp tengslanet, sérstaklega við sérfræðingana úr Sjávarútvegsskólanum. „Jarðhiti getur nýst til fiskeldis og þurrkunar eins og Íslendingar vita svo vel,“ segir hann.

„Ég er nýkominn úr ferð af jarðhitasvæði í stóru landbúnaðarhéraði þar sem er ræktað töluvert af tei. Það væri mikill akkur í því að nýta jarðhita til að þurrka og fullvinna laufin.“

Nemendur Jafnréttisskólans voru áberandi á fundinum. Hin orkumikla Sophia Nabukenya sem útskrifaðist 2018 brennur fyrir kynheilbrigðismálum ungs fólks. Hún hefur unnið með stjórnvöldum og stofnunum til að draga úr kynsjúkdómum og þungunum táningsstúlkna. Eftir dvöl sína á Íslandi fékk hún mikinn áhuga á launamun kynjanna. Sjálf stefnir hún langt. „Mig langar að leggja stund á frekara nám innan kynjafræðinnar og starfa innan áhrifamikilla alþjóðastofnana og leggja mitt af mörkum til að bæta hag kvenna og stúlkna um allan heim.“

Annar nemandi Jafnréttisskólans er Katuramu Peter Collins, útskrifaður 2018. Peter er úr fátækri fjölskyldu og mætti miklu mótlæti í bernsku, en hann fæddist með bæklaða fætur. Peter tókst með harðfylgi að sækja skóla og hefur nýtt menntun sína til að bæta réttindi fatlaðs fólks í Úganda. Hann segir námið á Íslandi hafa eflt sig enn frekar til dáða og fyllt sig sjálfstrausti til að stofna samtök sem vinna að bættu aðgengi fyrir fatlað fólk. Hann hefur sérstaklega skoðað stöðu fatlaðra kvenna. „Ég er fatlaður maður og þekki jaðarsetningu, en ég áttaði mig á því að fatlaðar konur búa við tvöfalt meiri fordóma. Þeirra staða í Úganda er oft mjög slæm,“ segir hann. Peter stefnir nú að því að bjóða sig sjálfstætt fram til setu á úgandska þinginu. Nái hann kjöri ætlar hann að vinna af hörku svo fatlað fólk í Úganda, sem er um fimm milljónir, fái betra aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu.

Við getum breytt lífi fólks

Eftir viðburðaríkan fund og áhugaverðar umræður kom hópurinn saman yfir tei. Úgandabúar drekka mikið af tei, sá drykkur er undirstaða hópeflis og samræðna – sem eru fjörugar og innblásnar. Charles Draecabo verkefnastjóri UNESCO í Kampala segist fullur andagiftar.

„Fyrir mér hefur þetta verið mjög gott tækifæri til að koma saman og tengjast þverfaglega. Hér er um að ræða mikilvægt skref til að hjálpa útskrifuðum nemendum að stuðla að breytingum, bæði innan sinna fræðasviða og stofnana, en ekki síst í þessu samfélagi og haft þannig áhrif á þróun þess,“ segir hann. „Með því að virkja hæfileika hópsins getum við breytt lífi fólks í Úganda og víðar. Við í UNESCO viljum styðja við þetta framtak og vinna áfram með nemendum, GRÓ og öðrum stofnunum sem tengjast verkefninu.“

Höfundur býr í Úganda og vann greinina að beiðni GRÓ.

Höf.: Þórhildur Ólafsdóttir