Fjölskyldan Jóladagsganga í Simsonsgarði í Tunguskógi í Skutulsfirði.
Fjölskyldan Jóladagsganga í Simsonsgarði í Tunguskógi í Skutulsfirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sædís María Jónatansdóttir er fædd 14. mars 1974 í Reykjavík en fjölskylda hennar bjó í Súðavík og þar er hún alin upp, elst í þriggja systkina hópi. „Yngsta systir mín lést aðeins vikugömul sem var átakanleg og mótandi reynsla fyrir tólf ára mig

Sædís María Jónatansdóttir er fædd 14. mars 1974 í Reykjavík en fjölskylda hennar bjó í Súðavík og þar er hún alin upp, elst í þriggja systkina hópi.

„Yngsta systir mín lést aðeins vikugömul sem var átakanleg og mótandi reynsla fyrir tólf ára mig. Það var gott að alast upp í Súðavík, ég hugsa til æskunnar með þakklæti og þakka foreldrum mínum fyrir allt það sem þau hafa gefið mér, lífið, ástríkt heimili, vináttu og stuðning og einnig mínum kæru systkinum.

Í vestfirskum fjörðum er árhringurinn skýr og hver árstíð hefur sinn sjarma. Það var alltaf nóg að gera og í minningunni voru sumrin best. Við krakkarnir vorum mikið úti í leikjum þvert á aldur. Ég var líka ágæt í að dunda mér ein og ég elskaði að leika mér í fjörunni við húsið hennar ömmu og að dorga á bryggjunni við Frosta. Álftafjörður er í huga mér sá allra fallegasti og lagið hans Mugison, Stingum af, nær svo vel að fanga sumarstemninguna sem ég er alin upp við. Ég á einnig góðar minningar frá ömmu og afa Sæmundi í Grindavík og var ég svo lánsöm að fá að ferðast með þeim um landið nokkur sumur.“

Sædís gekk í grunnskólann í Súðavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1994. Hún lauk B.Ed.-kennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri 1998, viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu 2018 og MA-diplómu í jákvæðri sálfræði 2022.

„Heimurinn minn stækkaði smám saman en mest þegar ég hitti hann Jóa minn vorið 1990. Hann hefur ýmsa styrkleika sem ég hef ekki sem er svo gott. Við fórum bæði í Menntaskólann á Ísafirði og áttum þar frábær ár. Það sem stendur upp úr frá þeim tíma er hvað ég eignaðist góða og trygga vini. Einn þeirra er Jói maðurinn minn. Við höfum tekist á við alls konar þroskandi verkefni og oft tekið hvort annað út fyrir þægindarammann. Ég dreg fram mjúka manninn hans og hann herðir mig upp. Ferðalagið okkar saman er alveg magnað.

Háskólaárin voru ótrúlega skemmtileg og lærdómsrík, en þó í skugga snjóflóðanna árið 1995. Við vorum svo heppin að Jói átti yndislega fjölskyldu á Akureyri sem reyndist okkur alveg gríðarlega vel. Í dag þann 14. mars er einmitt kveðjustund dásamlegrar konu sem studdi svo vel við okkur litlu fjölskylduna á þessum tíma, hún Þóra Hildur Jónsdóttir. Já, litlu fjölskylduna, því í lok árs 1995 kom svo sannarlega ljós, en þá fæddist frumburðurinn okkar hún Thelma Rut.“

Sædís kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í níu ár, frá 1998-2007. Þá tók hún við starfi sem deildarstjóri í félagsþjónustu á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar, 2007-2019. Frá árinu 2019 hefur hún starfað sem forstöðumaður hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

„Hjá Fræðslumiðstöð er boðið upp á sí- og endurmenntun fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Starf forstöðumanns er fjölbreytt og skemmtilegt og engir tveir dagar eru eins. Það er gefandi að starfa við það að hvetja fólk til frekara náms og persónulegs vaxtar. Svo koma á okkar borð ýmis spennandi þróunar- og samstarfsverkefni. Eitt þeirra er t.d. Gefum íslensku séns þar sem unnið er að því markmiði að hvetja samfélagið til að taka þátt í að stuðla að framförum fólks af erlendum uppruna í íslensku.

Það er óhætt að segja að ég sé rík af fjölskyldu og vinum. Við Jói eigum fjögur yndisleg börn, dæturnar Thelmu Rut, Dagbjörtu Ósk og Lilju Borg og soninn Albert Inga og svo hundinn Góa. Að ala upp fjögur börn er ómetanleg gjöf. Það var aldrei lognmolla, alltaf líf og fjör. Svo hefur okkur einnig hlotnast það lán að eignast frábæran tengdason, Hinrik Elís og tvö dásamleg barnabörn. Þau Glódís María og Róbert Theodór, bráðum sex og þriggja ára, stækka hjarta mitt og eru lífsins lukka. Ég er lánsöm kona og börnin og barnabörnin eru það sem ég er stoltust af í lífinu.

Vestfirsku ræturnar rista djúpt og hér höfum við búið frá árinu 1998 og unum okkur vel. Lengst af hef ég starfað í störfum sem snúa að stuðningi við fólk, fræðslu og velferð. Það var því einstakt tækifæri fyrir mig að kynnast fræðum jákvæðrar sálfræði veturinn 2021-2022. Það er óhætt að segja að námið hafi haft djúpstæð áhrif á mig og þá vegferð sem ég hóf þá upplifi ég á vissan hátt sem nýtt upphaf.

Áhugamálin snúa flest að einhvers konar samveru með fjölskyldu og vinum. Mér finnst nærandi að umgangast skemmtilegt fólk, taka þátt í kórastarfi, ferðast, vera í náttúrunni eða bara að dunda eitthvað heima. Við hjónin höfum gengið um flesta firði á Hornströndum en einnig í friðlandinu að Fjallabaki. Í fyrrahaust hjóluðum við hluta af Jakobsveginum sem var frábær upplifun. Andrúmsloftið á Jakobsveginum er alveg stórkostlegt og orkan einstaklega nærandi.

Það er kannski það skrýtnasta við þau tímamót að standa á fimmtugu að átta sig á því hvað tíminn líður ægilega hratt. En mikið er gott að líta yfir farinn veg og sjá hvað lífið hefur verið gjöfult, gott og fallegt. Og mikið sem ég er heppin með samferðafólk. Ég fyllist auðmýkt og djúpu þakklæti.“

Fjölskylda

Eiginmaður Sædísar er Jóhann Bæring Gunnarsson, f. 30.7. 1973, framkvæmdastjóri hjá Ístækni á Ísafirði. Þau eru búsett í Holtahverfi á Ísafirði. „Við erum fjarðarpúkar.“

Foreldrar Jóhanns eru hjónin Gunnar Albert Arnórsson, f. 30.11. 1952, fv. skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni, og Sigurborg Þorkelsdóttir, f. 27.12. 1952, fv. verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þau eru búsett á Ísafirði.

Börn Sædísar og Jóhanns eru 1) Thelma Rut Jóhannsdóttir, f. 28.12. 1995, mannauðsráðgjafi hjá Elkem á Grundartanga, búsett í Kópavogi. Maki: Hinrik Elís Jónsson, sérfræðingur í endurkröfum hjá Íslandsbanka. Börn þeirra eru Glódís María Hinriksdóttir, f. 2018 og Róbert Theodór Hinriksson, f. 2021; 2) Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, f. 13.12. 2002, nemandi við Söngskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, búsett í Reykjavík; 3) Lilja Borg Jóhannsdóttir, f. 10.3. 2004, nemandi við Íþróttalýðháskólann í Aarhus í Danmörku, núna búsett þar; 4) Albert Ingi Jóhannsson, f. 23.6. 2009, nemandi við Grunnskólann á Ísafirði.

Systkini Sædísar: Steinunn Björk Jónatansdóttir, f. 29.7. 1977, náms- og starfsráðgjafi, býr ásamt fjölskyldu í Vogum á Vatnsleysuströnd; Kristján Jón Jónatansson, f. 24.6. 1981, fjármálastjóri hjá Banönum ehf., býr ásamt fjölskyldu á Álftanesi; Lilja Ósk Jónatansdóttir, f. 5.10. 1986, d. 12.10. 1986.

Foreldrar Sædísar eru hjónin Jónatan Ingi Ásgeirsson, f. 30.7. 1953, síðast stýrimaður á Stefni Ís, og Lilja Ósk Þórisdóttir, f. 3.6. 1954, umsjónarmaður félagsstarfs eldri borgara í Súðavík. Þau eru búsett í Súðavík.