Birgir Andrésson (1955-2007) Sjórekið lík nr. 1, 1998 Olíulakk á MDF-plötu 60 x 80 cm
Birgir Andrésson (1955-2007) Sjórekið lík nr. 1, 1998 Olíulakk á MDF-plötu 60 x 80 cm
Sjórekið lík nr. 1 er meðal merkilegustu tilrauna Birgis Andréssonar í textatengdri myndlist. Verkið er hluti af myndasyrpunni Dauði / Íslenskir litir, byggt á enskum texta með hvítu letri á túrkisbláum fleti, kuldalegu litaspili í athyglisverðri…

Sjórekið lík nr. 1 er meðal merkilegustu tilrauna Birgis Andréssonar í textatengdri myndlist. Verkið er hluti af myndasyrpunni Dauði / Íslenskir litir, byggt á enskum texta með hvítu letri á túrkisbláum fleti, kuldalegu litaspili í athyglisverðri mótsögn við tilfinningaríka lýsingu á illa útleiknu líki.

Um litaval Birgis má segja að það sé mjög klassískt ef tekið er tillit til hefðar sem nær mun lengra aftur í fortíð íslenskrar myndlistar en við eigum að venjast í nútíð og samtíð. Málningarvinna við ævagömul hús færði honum heim sanninn um litaval fyrri alda; að náttúran hafði þar mun minni áhrif á val lita en síðar varð. Áhugi Birgis á slíku menningarbundnu viðfangsefni skipaði honum á sérstakan sess meðal íslenskra listamanna.

Árið 1894 kom til kasta Axels Tuliniusar, þá setts sýslumanns í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeta á Seyðisfirði, að rannsaka líkfund tveggja sjómanna í mynni fjarðarins er þeir drógu á línu illa farna, alklædda beinagrind. Þeir gátu sér þess til að framhandleggirnir hefðu slitnað af búknum vegna fargs, sem notað hefði verið til að sökkva líkinu. Ályktun sjómannanna reyndist á rökum reist og hinn látni var vélstjóri á togara frá Aberdeen, en ölóð áhöfnin hafði dögum saman haldið vöku fyrir Seyðfirðingum með slarki og háreysti. Ekki hafði Axel Tulinius fyrr losnað við líkið óhugnanlega en það gekk aftur og ofsótti hann harkalega í svefni. Varð það sýslumanninum til happs að hann var sjálfur rammur að afli og naut þess að hafa framhandleggi umfram drauginn. Þórbergur Þórðarson skráði frásögn Axels í Gráskinnu, samantekt þeirra Sigurðar Nordals á ýmsum frásögnum sem út kom í fjórum bindum á árunum 1928 til 1936. Í stað hreinnar og beinnar skráningar Þórbergs hljómar enskur texti Birgis harðneskjulegur og ákafur. Þann svæsna expressjónisma sem Birgi kom ekki til hugar að ástunda myndrænt leyfði hann sér að birta sem texta.