— Ljósmynd/Elenora Rós Georgsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elenora Rós Georgsdóttir bakari er ein af þeim sem hafa dálæti á páskakræsingum og súkkulaði og prófaði hún sig áfram á dögunum í bakstrinum. Útkoman var þessi dásamlega ostakaka sem gleður bæði augu og bragðlauka

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Elenora Rós Georgsdóttir bakari er ein af þeim sem hafa dálæti á páskakræsingum og súkkulaði og prófaði hún sig áfram á dögunum í bakstrinum. Útkoman var þessi dásamlega ostakaka sem gleður bæði augu og bragðlauka.

Lætur gott af sér leiða til samfélagsins

Elenora er landsmönnum kunn fyrir baksturshæfileika sína, sér í lagi í súrdeigsbrauðs- og bollubakstri. Hún er líka bókahöfundur og hefur sent frá sér tvær bækur þar sem baksturinn er í forgrunni og vakið verðskuldaða athygli fyrir verk sín og persónuleika. Hún hefur ávallt látið gott af sér leiða til samfélagsins og hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar.

Þessa dagana býr Elenora í London og starfar í bakaríi í miðborginni þar sem hún fær að leyfa sköpunarhæfileikum sínum að blómstra. Hún gaf sér þó tíma til að skreppa heim til Íslands fyrir bolludaginn í ár og stóð fyrir Bollu-pop-up-viðburði til styrktar Hinsegin félagsmiðstöðinni á nýopnuðu Kaffihúsi Kokku sem er lífsstíls- og eldhúsverslun að Laugavegi 47. Elenora sló í gegn með sínum gómsætu bollum og runnu þær út á mettíma og fengu færri en vildu.

Fékk innblásturinn frá Rísegginu

Nú er súkkulaðihátíðin í nánd og þá eru það páskakræsingarnar sem eiga hug hennar allan. „Ég elska Ríssúkkulaðið frá Freyju, það er eitt af mínu uppáhalds. Nú fer að líða að því að það verði komið ár frá flutningunum mínum til London og þá einmitt tók ég Rísegg með mér því mér fannst ekki hægt að halda páska án þess að fá uppáhalds íslenska páskaeggið mitt. Þaðan fékk ég innblásturinn að rísbotninum, svo fannst mér spennandi að bæta við fleiri vörum frá Freyju eins og Bombusúkkulaðinu sem ég nota í fyllinguna og gerir hana silkimjúka. Síðan geri ég karamellutoppinn úr karamelludýrunum frá Freyju. Ostakakan er dúnmjúk, auðveld í gerð og bráðnar í munni,“ segir Elenora dreymin á svip.

Páskaostakaka Elenoru

Botn

200 g Freyju-Rískúlur

300 g kex, t.d. Digestive

200 g brætt smjör

Myljið kexið og rískúlurnar í matvinnsluvél eða blandara þangað til blandan er orðin að fínu mjöli. Bræðið smjörið og blandið því saman við kex- og hrísmjölið. Takið smelluform, Elenora notaði 23 cm form, og klæðið það með bökunarpappír. Setjið blönduna í formið og þjappið vel niður í botninn.

Ostakökufylling

600 g rjómi

500 g rjómaostur

120 g flórsykur

100 g Freyju-Bombusúkkulaði

30 ml rjómi

Bræðið Bombusúkkulaði og 30 ml af rjóma við vægan hita. Takið af hitanum og leyfið blöndunni að kólna. Þeytið saman flórsykur og rjómaost. Bætið brædda Bombusúkkulaðinu saman við og þeytið í um það bil mínútu í viðbót. Að lokum er rjóminn léttþeyttur og honum blandað varlega saman við rjómaostablönduna með sleif. Setjið ostakökufyllinguna í formið og setjið kökuna inn í kæli þar til fyllingin hefur stífnað.

Krem

1 poki Freyju-Karamelludýr (110 g)

250 g rjómi

100 g Freyju-Suðusúkkulaði

Setjið karamelludýr og rjóma í pott og bræðið við vægan hita. Þegar blandan er komin saman er hún tekin af hitanum. Bætið suðusúkkulaði út í blönduna og hrærið vel saman. Hellið kreminu yfir ostakökuna og dreifið vel yfir hana alla. Setjið kökuna aftur inn í kæli og leyfið kreminu að stífna vel áður en kakan er borin fram.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir