Guðrún Nordal
Guðrún Nordal
Við ættum að gleðjast yfir að dæminu hafi verið snúið við; að við séum vaxandi samfélag og að svo margir hafi slegist í hópinn.

Guðrún Nordal

Í sumar minnumst við þess að 80 ár eru liðin frá rigningardeginum mikla á Þingvöllum og stofnun lýðveldisins. En öðru afmæli væri gaman að lyfta upp, þó ekki sé hægt að tengja það við neinn ákveðinn dag. Á þessu ári eru nefnilega liðin 1150 ár frá landnámi Íslands ef við fylgjum tímatali Ara í Íslendingabók – og þar með hálf öld frá því að þjóðin skundaði á afmælishátíð á Þingvöll. Þá skein reyndar sólin.

Landnámið fyrir öllum þessum árum var ekki einn atburður, heldur endurtók það sig með öllum þeim sem gengu hér á land – og þau voru upprunnin úr ólíkum löndum, með ólíka þjóðfélagsstöðu, mörg undirokuð og í helsi, töluðu ekki sama tungumálið og aðhylltust auk þess mismunandi sið. Hér blönduðust því ólíkir hópar á þess tíma mælikvarða sem tóku til við að smíða samfélag. Sú smíðavinna hefur nú staðið í hálfa tólftu öld – og enn erum við að.

Hvernig átti að koma nýju samfélagi heim og saman? Íslendingasögurnar varðveita minningar um að það hafi ekki verið einfalt. Sögurnar eru miklar átakabókmenntir og fjalla um hvernig koma eigi á jafnvægi í þröngu samfélagi – þó að látið sé sem svo að stærsta byltingin, sjálf kristnitakan, hafi gengið næsta friðsamlega fyrir sig. En ekki má gleyma hverjir skrifa söguna.

Ég rifja þetta upp því að mér finnst að við gætum notað þessi fallegu tímamót og markað annað upphaf. Á síðustu árum hefur nefnilega orðið nýtt landnám. Á engu tímabili í sögu okkar hefur íbúum fjölgað um nær fimmtung á aðeins nokkrum árum. Hins vegar erum við vanari því gagnstæða, að missa tugi prósenta landsmanna úr sóttum, plágum og harðindum á mjög skömmum tíma – síðasta mannfækkunin var í lok nítjándu aldar þegar drjúgur hópur landsmanna flúði harðindi og sára fátækt í leit að nýjum tækifæri og möguleikum á betra lífi í Vesturheimi.

Við ættum að gleðjast yfir að dæminu hafi verið snúið við; að við séum vaxandi samfélag og að svo margir hafi slegist í hópinn. En auðvitað er svo snögg fólksfjölgun mikil viðbrigði fyrir fámennt samfélag og leggur okkur ögrandi og um sumt framandi verkefni á herðar.

Með nýjum landnámsmönnum koma nýir heimar, nýjar hugsanir, nýir hæfileikar, nýir siðir og með þeim endurnýjast samfélagið. Þau koma hins vegar ekki að ónumdu landi. Það er undir okkur sjálfum komið að taka vel á móti þeim og hrekja þau ekki á braut eða inn í einhverja kima á jaðrinum. Hér er samfélag sem á sér langa og flókna sögu, sem er samofin landinu og náttúrunni, og hér er talað tungumál sem rennur eins og rauður þráður í gegnum hana alla – og sem við eigum að hafa metnað til að standa með og gefa öllum aðgang að.

Samfélag okkar hefur raunar breyst svo mikið á síðustu árum að sumpart erum við öll landnámsmenn í nýju landi. Og ég segi fyrir mig: ekki langar mig að hverfa til baka til þess gamla.

Slítum ekki friðinn, eins og Þorgeir Ljósvetningagoði á að hafa mælt á Þingvöllum fyrir þúsund árum, efnum ekki til hatursorðræðu sem ýfir upp og býr til erfið sár, opnum frekar faðminn og strengjum þess heit að láta þetta nýja landnám heppnast.

Höfundur er forstöðumaður Árnastofnunar.