Sólskinsfólk Guðrún Sigríks og Karl Sigmar eru úr Þorlákshöfn.
Sólskinsfólk Guðrún Sigríks og Karl Sigmar eru úr Þorlákshöfn.
„Við erum heilluð af þessum stað og viljum vera hér sem mest,“ segir Guðrún Sigríks Sigurðardóttir úr Þorlákshöfn. Hún og Karl Sigmar Karlsson eiginmaður hennar komu til Tenerife í byrjun október á síðasta ári og ætla að vera þar ytra fram að páskum

„Við erum heilluð af þessum stað og viljum vera hér sem mest,“ segir Guðrún Sigríks Sigurðardóttir úr Þorlákshöfn. Hún og Karl Sigmar Karlsson eiginmaður hennar komu til Tenerife í byrjun október á síðasta ári og ætla að vera þar ytra fram að páskum. Þetta er þriðji vetur þeirra á Tenerife og tími þeirra þar hefur verið að lengjast ár frá ári. Samastaður þeirra í vetur hefur verið á búðahóteli í Los Cristianos. Svalirnar liggja vel á móti sólinni sem er satt að segja einstaklega örlát á geisla sína hér.

„Þetta er fínt hótel og hér viljum við vera. Þegar er bókað, klappað og klárt að vera hér líka næsta vetur. Við förum heim í íslenska sumarið en komum aftur í haust og verðum þá í sömu íbúðinni, hvar við göngum að öllu vísu. Lífið hér er ljúft og verðlag þannig að vel má komast af án þess að eyða miklu,“ segir Guðrún. Þá sé frábært að stundum komi börnin og þeirra fólk í heimsókn – eða aðrir úr stórfjölskyldunni af svæðinu.

„Gönguferðirnar eru oft langar. Fyrst þegar við komum hér uxu vegalengdir okkur stundum í augum svo við tókum taxa heim á hótel frá þeim stað þar sem við enduðum þann daginn. Nú finnst okkur þetta allt vera mátulega stutt og leigubíla þarf ekki lengur. Í göngunni hittum við oft vini og kunningja að heiman svo úr verða óvæntir fagnaðarfundir. Þá er hér stórt samfélag Íslendinga og hópur þeirra, kannski 50-60 manns, hittist alltaf einu sinni í viku á Lewinsky-barnum. Þá eru hér líka prjónastundir og fólk hittist og tekur í spil. Þetta gæti eiginlega ekki verið betra.“