Páll Steingrímsson
Páll Steingrímsson
Staðhæfingar meðlima hópsins standast illa skoðun en vegna allra verðlaunanna sem þeir hafa hlotið í gegnum tíðina er trúverðugleika þeirra hampað af mörgum.

Páll Steingrímsson

„Margir […] hafa þróað með sér skort á virðingu fyrir hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélagi.“ Þessi orð lét formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ) hafa eftir sér í viðtali við Claas Relotius þeirra Dana, Lasse Skytt. Meira um það síðar. Grein Lasse, sem birtist í danska fagtímaritinu Journalisten, var gerð að fréttaefni á heimasíðu BÍ, þann 8. febrúar 2023. Fyrir þeirri umfjöllun var skrifaður starfsmaður BÍ, sem vill reyndar svo til að er bróðir eins sakbornings í lögreglurannsókn, sem aftur var tilefni ummæla formannsins. Hugmyndir um hæfi virðast framandi á skrifstofu BÍ.

„Á Íslandi hafa margir nokkuð óþroskaðar hugmyndir um hlutverk fjölmiðla sem eins af burðarstólpum lýðræðisins. Þeir álíta blaðamenn ekki skipta máli.“ Þessi ummæli, sem einnig voru látin falla í umræddri blaðagrein, koma frá einum sakborninga í lögreglurannsókninni.

Ég hef margt við greinina að athuga, rétt eins og ég hafði við sambærilega grein Danans sem birtist í norska blaðinu Aftenposten Innsikt um líkt leyti. Ritaði ég því ritstjóra Journalisten tölvupóst 17. febrúar 2023 og sagði að í greininni væri ekki farið rétt með staðreyndir. Ritstjóri danska blaðsins ráðfærði sig greinilega við höfund greinarinnar því í svari hans til mín 22. febrúar sama ár fylgdi nefnilega óvart afstaða Lasse Skytt til athugasemda minna. Sagði Lasse mig upplifa mig afskiptan og að hann myndi bara þakka mér fyrir og hafa mig í huga eftir því sem málið þróaðist. Svar ritstjóra Journalisten var efnislega sambærilegt, en tók hann fram að hann sæi enga ástæðu til að bæta neinu við söguna. Staðreyndin var hins vegar sú að Lasse Skytt hafði aldrei haft samband við mig eins og hann hélt þó fram við ritstjóra Journalisten.

Aftenposten Innsikt fór aftur á móti aðra leið og birti langa afsökunarbeiðni í næsta tölublaði eftir ítarlega innri skoðun. Var niðurstaða þeirra að ekki stæði steinn yfir steini í fréttamennsku hins danska Lasse Skytt.

Standa íslenskir blaðamenn með Skytt?

Nú birtast fréttir af því að Daninn hafi ítrekað gerst sekur um ritstuld og rangfærslur í greinum sínum og hefur uppgötvunin valdið miklu fjaðrafoki í Danmörku. Skytt hefur verið afhjúpaður fyrir víðtækan ritstuld, heimildamisnotkun og fölsun, svo að blöð á borð við Politiken, Jyllands-Posten, Aftonposten, Kristeligt Dagblad og Journalisten hafa þurft að draga öll skrif hans til baka og útgáfan Syddansk Universitetsforlag hætt sölu á bók eftir hann. Allir hafa gert samstarf sitt við Skytt upp nema íslenskir blaðamenn og fagfélag þeirra, þar ríkir þögnin ein, ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist hjá þessum hóp á Íslandi.

Það er eðlilegt að gerður sé samanburður á milli Lasse Skytt og Þjóðverjans Claas Relotius. Einn af stærri blaðamannaskandölum skók heiminn árið 2018 þegar spænskur kollegi Relotius uppgötvaði að hinn margverðlaunaði blaðamaður stóð ekki undir öllum verðlaununum sem hafði verið hlaðið á hann. Um málið hefur mikið verið fjallað og bæði rituð bók og gerð kvikmynd.

En af hverju er ég að benda á þetta? Jú, vegna þess að blaðamannaverðlaun eru hvorki heilbrigðisvottorð né gæðastimpill.

Á Íslandi hefur fámennur hópur margverðlaunaðra blaðamanna, með dyggum stuðningi útvarps allra landsmanna, Ríkisútvarpsins, svo og formanns stéttarfélags blaðamanna, BÍ, stýrt umfjöllun um tiltekin mál. Eða svo orðfæri eins úr stuðningsliðinu sé notað: hafa „matreitt“ ofan í landann það sem þeir vilja sannast hafa. Til að hafa ekki alla blaðamenn landsins fyrir sök vil ég til einföldunar vísa til hópsins sem „RSK-hópsins“. Þeir taka það til sín sem eiga.

Ég hef oft áður vakið athygli á rangfærslum þessa hóps í svokölluðu Namibíumáli, og læt hér duga að vísa sérstaklega í gagnrýni mína á bók þeirra um afrek sín. Hana má finna á fésbókarsíðu minni svo og á frettin.is. Hins vegar, þar sem það snertir mig persónulega, vil ég benda á nokkrar staðreyndir í lögreglurannsókninni sem var tilefni greinar Danans Lasse Skytt. Svo ég noti orðfæri þessa hóps, „gögnin tala sínu máli“.

Áður en RSK-hópurinn mætti í skýrslutökur var allt hans bakland virkjað til að reyna að stöðva lögreglurannsóknina. Í nafni ungliðahreyfinga ýmissa stjórnmálaflokka á vinstri kantinum var boðað til mótmæla á Akureyri og í Reykjavík; greinar skrifaðar í öll blöð og viðtöl við verðandi sakborninga sem vissu ekkert um hvað málið snerist en vildu fyrir alla muna drepa rannsóknina í fæðingu. Fjöldi dómsmála var höfðaður fyrir öllum dómstigum og lögreglunni hótað Mannréttindadómstóli Evrópu.

Einn sakborninganna hætti á Ríkisútvarpinu örfáum dögum áður en mér var byrlað og sími minn tekinn. Opinberar skýringar hans á brotthvarfinu stangast á við skýringar hans hjá lögreglu.

Afar veikur einstaklingur nákominn mér hefur viðurkennt í skýrslutöku að hafa byrlað mér og tekið símann í framhaldi þess. Lögmaður viðkomandi stöðvaði svo skýrslutöku á skjön við reglur sakamálalaga og kom veiki einstaklingurinn grátandi aftur í skýrslutöku eftir samtal við lögmanninn. Lögmaðurinn hefur síðan hætt störfum fyrir viðkomandi.

Veiki einstaklingurinn viðurkenndi í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara að hafa látið starfsmann Ríkisútvarpsins fá símann. Þetta staðfesti starfsmaður héraðssaksóknara. Fyrir áhugasama má geta þess að viðkomandi starfsmaður hefur unnið frá upphafi í rannsókn á Namibíumálinu og er til þess að gera nýkominn úr 10 daga reisu starfsmanna embættisins til Namibíu þar sem afraksturinn var 10,5 klukkustundir af viðtölum. Gott 10 daga verk fimm ríkisstarfsmanna!

Ríkisútvarpið keypti síma og símanúmer í aprílmánuði, áður en ég veiktist, með símanúmeri sambærilegu mínu. Símanúmerið er hvergi skráð, hvorki á ja.is né á heimasíðu Ríkisútvarpsins og því engin leið fyrir almenning að vita um númerið. Einkasímanúmer starfsmanna Kveiks eru aftur á móti birt á heimasíðu þáttarins ásamt almennu símanúmeri og netfangi. Fyrrverandi ritstjóri þáttarins reyndi samt að selja lögreglu þá sögu að símanúmerið væri til þess að almenningur gæti verið í sambandi við starfsmenn þáttarins og það væru svo margir sem hefðu samband að hún vissi ekkert um notkunina eða í hvers höndum síminn var. Engin notkun var skráð á símanúmerið fyrr en í apríl samkvæmt símayfirliti sem er meðal gagna málsins.

RSK-hópurinn, utan tveggja, hefur allur viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að efnið sem hann safnaði var einkaefni sem refsivert er að birta. Þeir bera því hins vegar við að refsileysisástæður hafi verið fyrir hendi. Þar er ég ósammála og tel því birtingu efnisins sem slíks vera refsiverða og freklega árás á einkalíf mitt.

Greinahöfundarnir sem birtu, sitt á hvorum fjölmiðlinum, fyrstu greinarnar um sundurslitnar samræður upp úr símanum mínum, sem afritaður var á Ríkisútvarpinu og efninu síðan dreift til ýmissa aðila, hringdu í mig með nokkurra mínútna millibili til að „gefa mér kost“ á að svara ásökunum. Annað blaðið hafði þá þegar fjárfest í vinnu myndskreytara til að búa til teiknaðar myndir af mér og öðrum sem taka átti af lífi í þessum umfjöllunum, auk þess sem umfjöllunarefnið þakti bróðurpart blaðsins, sem fór í prentun þá síðar um daginn og dreifingu daginn eftir. Það sér hver heilvita maður að jafnvel þótt ég hefði reynt að bera af mér sakir hefði það engu breytt. Það átti aldrei að „gefa mér kost“ á einu eða neinu. Bara að tikka í boxið. Hefði mér gefist ráðrúm til að fara yfir það sem þeir höfðu hug á að birta hefði verið lítið mál að sanna að ekkert af hugarburði þeirra átti erindi við almenning. Þess ber að geta að annar höfundanna, Þórður Snær Júlíusson, sem nú er ritstjóri og einn eigenda Heimildarinnar, hafði ekki einu sinni fyrir því að hafa samband við hinn brotaþola málsins til að gefa henni „færi á að bregðast við“.

Ég hef aldrei sagt að RSK-hópurinn hafi byrlað mér eða stolið símanum mínum. Það hafa þeir aftur og aftur haldið fram til að slá ryki í augu almennings. Þeir fengu aðra í það verk. Eins og fram kemur hér að framan er vitað hver kom mér í það ástand að vera ósjálfbjarga (og raunar deyja og þurfa endurlífgun og svo að vera í öndunarvél) og hver tók símann. Þá er vitað hvar síminn var afritaður.

Það sem ekki liggur fyrir opinberlega er hvort RSK-hópurinn hafi vitað að hann fengi gögn og hafi því verið reiðubúinn að taka á móti þeim. Staðhæfingar meðlima hópsins standast illa skoðun en vegna allra verðlaunanna sem þeir hafa hlotið í gegnum tíðina er trúverðugleika þeirra hampað af mörgum. En það átti líka við um Claas Relotius. Það var samt ekki ávísun á sannsögli. Eigum við kannski okkar eigin Claas Relotius eða Lasse Skytt á Íslandi?

Höfundur er skipstjóri.