Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda þar sem lagt er til að frelsi fólks til ávöxtunar á séreignarsparnaði verði aukið. Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði…

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda þar sem lagt er til að frelsi fólks til ávöxtunar á séreignarsparnaði verði aukið.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilað að verða við beiðni einstaklings um að iðgjöldum hans til séreignar verði varið til fjárfestingar í tilteknum sjóði eða sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Það hafi í för með sér að einstaklingur muni sjálfur geta valið um í hvaða sjóði eða sjóðum fjárfest er til ávöxtunar sparnaðarins, en þó innan þeirra marka sem frumvarpið felur í sér.

Fram kemur að frumvarpið sé til samræmis við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem lögð sé áhersla á umbætur í lífeyrismálum. Lífeyrissjóðir hafi almennt vaxið mun hraðar en hagkerfið um árabil og eignir þeirra verið samtals 170% af vergri landsframleiðslu við árslok 2023. Með auknu valfrelsi og ráðstöfunarrétti einstaklinga yfir eigin séreignarsparnaði skapist forsendur fyrir meiri dreifstýringu sem sé til þess fallin að auka skilvirkni og samkeppni á fjármálamarkaði.