Heyi snúið Aðstæður til heyframleiðslu á Íslandi eru sagðar mjög góðar.
Heyi snúið Aðstæður til heyframleiðslu á Íslandi eru sagðar mjög góðar. — Morgunblaðið/Eggert
Nokkur heyskortur er nú í Noregi og norskur kaupmaður sem hefur tengsl við Ísland hefur nú flutt fimm tengivagna með íslensku heyi til Noregs og segir það eftirsótt hjá bændum þótt það sé nærri tvöfalt dýrara en norskt hey

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Nokkur heyskortur er nú í Noregi og norskur kaupmaður sem hefur tengsl við Ísland hefur nú flutt fimm tengivagna með íslensku heyi til Noregs og segir það eftirsótt hjá bændum þótt það sé nærri tvöfalt dýrara en norskt hey.

Edmund Skoie rekur verslun með hestavörur og fleira í Lindesnes í Agder, syðst í Noregi. Þegar mikill heyskortur var í Noregi árið 2018 flutti hann inn nærri 40 þúsund heybagga frá Íslandi og hefur nú tekið upp þráðinn á ný þótt innflutningurinn sé öllu smærri í sniðum. Alls komast 94 heybaggar í hvern tengivagn og hver baggi er um 220 kíló að þyngd.

Tengivagnarnir eru fluttir sjóleiðis frá Þorlákshöfn með flutningaskipum Smyril Line til Danmerkur og þeim er síðan ekið til Noregs. Alls áformar Skoie að flytja inn sjö tengivagna með heyi og segir það allt vera selt þótt það sé mun dýrara en norskt hey. Útsöluverð á hverjum bagga í Noregi er um 1.700 norskar krónur eða um 22 þúsund íslenskar krónur.

Skoie segir við Morgunblaðið að íslenska heyið sé eftirsótt. Það er talið mun betra en annað innflutt hey og tryggt að það beri ekki með sér búfjársjúkdóma. Skoie segist hafa hug á að halda innflutningnum áfram enda sé skemmtilegt að vinna við þetta.

Skoie vann sem unglingur í eitt ár á bæ á Suðurlandi og talar íslensku, Hann hefur síðan kynnst Íslendingum vel í kringum hestamennsku og íslenska hesta í Noregi og segist hafa farið til Íslands undanfarin sumur til að taka þátt í heyskap.

Góðar aðstæður hér

Skoie kaupir heyið nú frá Litlu-Tungu í Holtum. Guðni Rúnar Karl Vilhjálmsson bóndi í Litlu-Tungu segir að þaðan hafi verið flutt út hey frá árinu 1997, einkum til Dan­merkur, Hollands og Færeyja.

Guðni segir að aðstæður til heyframleiðslu á Íslandi séu afar góðar. Á sumrin sé bjart allan sólarhringinn og það hægi á trénisvexti í grasinu. Einnig séu hitastig og rakastig heppileg þannig að hægt er að þurrka það hratt eftir að það er slegið og því tapast lítið af fóður­einingum.