Slæmt ástand Vallavegur á Þingvöllum er afar illa farinn eftir veturinn. Það sama á við um fjölda vega á landinu. Vegagerðin er byrjuð að fylla upp í holur.
Slæmt ástand Vallavegur á Þingvöllum er afar illa farinn eftir veturinn. Það sama á við um fjölda vega á landinu. Vegagerðin er byrjuð að fylla upp í holur. — Ljósmynd/Vegagerðin
„Ekki hefur tekist að fjármagna viðhald vegakerfisins á Íslandi í takt við þarfirnar og því hefur safnast upp svokölluð viðhaldsskuld sem víða má sjá á slitnum samgöngumannvirkjum.“ Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

„Ekki hefur tekist að fjármagna viðhald vegakerfisins á Íslandi í takt við þarfirnar og því hefur safnast upp svokölluð viðhaldsskuld sem víða má sjá á slitnum samgöngumannvirkjum.“

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni að á þessu ári væru veittir 12,8 milljarðar í viðhald vega. Upphæðin þyrfti hið minnsta að vera 17-18 milljarðar til að halda í horfinu og meira til að vinna á skuldinni.

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins (SI) og Félags ráðgjafarverkfræðinga (FRV) „Innviðir á Íslandi 2021 – ástand og framtíðarhorfur“ fékk þjóðvegakerfið ástandseinkunnina 2 af 5 mögulegum. Einkunnin merkir að ástand þjóðvega sé slæmt.

Stjórnvöld komi til skjalanna

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsskuld í samgöngukerfi landsins sé mjög mikil og skora samtökin á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, að vinna á þeirri skuld. Verði það gert eftir atvikum með samvinnu við einkamarkaðinn á næstu árum, samhliða nýfjárfestingum. Mikilvægt sé að samgönguáætlun endurspegli þá þörf.

Þá kemur fram að viðhaldsskuldin í vegakerfinu sé 80 milljarðar króna í því mati Vegagerðarinnar sem kemur fram í samgönguáætluninni. Viðhaldsskuldin sé hins vegar metin hærri, eða 110 milljarðar króna, í áðurnefndri skýrslu SI og FRV.

Í skýrslunni komi fram að stórir hlutar þjóðvegakerfisins uppfylli ekki lágmarksviðmið sem lúta að hrörnun slitlags, hjólfaradýpt, sprungumyndun, holumyndun og fleiri þáttum er varða gæði vega og snúa þannig beint að öryggi vegfarenda.

Umferð á vegum landsins hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Þar með verður meira slit á vegum og auknar líkur á holumyndun. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Sem dæmi hefur umferð um Hellisheiði og í Hvalfjarðargöngum aukist um rúm 60% frá árinu 2010. Umferðin hefur vaxið enn meira á öðrum leiðum, sér í lagi á Suðurlandi. Á Hringvegi um Reynisfjall, vestan Víkur í Mýrdal, hefur árdagsumferð (meðalumferð á dag yfir árið) aukist um 300%, úr 700 bílum í 2.900 bíla á sólarhring.

Enn austar, í Kvískerjum, sem eru um 20 km vestan við Jökulsárlón, hefur umferðin vaxið um 360%. Farið úr 300 bílum á sólarhring árið 2010 í 1.400 bíla á sólarhring 2023.

„Vegakerfið stækkar sífellt með nýjum mannvirkjum og stækkun og breikkun þeirra sem fyrir eru, til dæmis vegna framkvæmda við breikkun vega og aðskilnað akstursstefna. Með þessu fjölgar þeim fermetrum sem þurfa á viðhaldi að halda en auk þessa eru margir kaflar á vegakerfinu komnir á þann aldur að komið er að eðlilegu viðhaldi burðarlaga og slitlaga. Ekki hefur tekist að fjármagna viðhald í takt við þarfirnar og því hefur safnast upp svokölluð viðhaldsskuld sem víða má sjá á slitnum samgöngumannvirkjum,“ segir í fyrrnefndum pistli á vef Vegagerðarinnar.

Lengd vega með bundnu slitlagi á Íslandi er um 5.878 km. Árlega þarf að viðhalda um 700 km af slitlagi ef vel á að vera. Hin uppsafnaða viðhaldsskuld eftirhrunsáranna gerir það að verkum að slitlög sem þarfnast viðhalds eru um 2.250 km. Niðurstöður burðarþolsmælinga benda til þess að 1.760 km af vegum með bundnu slitlagi hafi takmarkað burðarþol. Þá vegi þarf því að endurbyggja, þar dugar ekki að skipta um slitlag, segir Vegagerðin.