Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Hvers vegna er þessi stóri hópur enn skilinn eftir?

Sigurður Jónsson

Það ríkir almenn ánægja með nýja kjarasamninga. Talað er um tímamótasamninga sem geta stuðlað að lækkun vaxta og lækkun verðbólgu í landinu. Einnig er það merkilegt að gerður er samningur út næstu fjögur árin.

Stéttarfélögin sem skrifað hafa undir samningana náðu verulegum árangri í að bæta kjör þeirra sem verst er sett. Þannig verður mánaðarleg kauphækkun aldrei minni en tæpar 24 þúsund krónur og þannig munu launin hækka næstu fjögur árin.

Til viðbótar náðist að fá ríki og sveitarfélög til að samþykkja sérstakan aðgerðapakka sem kostnaðarmetinn er á um 80 milljarða króna. Það munar um minna og mun bæta hag margra fjölskyldna svo um munar. Sérstaklega hvað varðar barnafjölskyldur.

Stéttarfélögin settu sérstaka pressu á sveitarfélögin að afturkalla ýmsar gjaldskrárhækkanir og að teknar yrðu upp gjaldfrjálsar skólamáltíðir barna.

Í þessum samningum hefur náðst ótrúlegur árangur til hagsbóta fyrir marga.

Það vekur samt verulega athygli að í öllum þessum aðgerðum er ekki minnst einu einasta orði á aðgerðir til að bæta hag verst settu eldri borgara landsins. Um 70% allra lífeyrisþega fá einhverjar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Stór hópur þarf að stóla alfarið eða að miklu leyti á greiðslur um hver mánaðamót frá Tryggingastofnun.

Hvers vegna er þessi stóri hópur einu sinni enn skilinn eftir? Launþegar á vinnumarkaðnum munu fá sínar launahækkanir frá 1. febrúar 2024. Ekkert mun breytast hjá lífeyrisþegum fyrr en hugsanlega um næstu áramót.

Auðvitað væri sanngjarnast að hækkanir á greiðslum frá Tryggingastofnun fylgdu strax hækkunum á kjarasamningi á vinnumarkaðnum.

Hví engin skilyrði?

Nú er það svo að núverandi lífeyrisþegar voru í stéttarfélögum og greiddu sín félagsgjöld. Á hátíðarstundum tala menn fallega um eldri borgarana sem ruddu brautina til að bæta lífskjörin. Og þá minna menn einnig á það hvað framlag kvenna var mikið við uppeldi barna og heimilisstörf. En hvað svo?

Þegar kemur að alvörunni og hvernig kjör margra eldri borgara eru virðist allt gleymt.

Eðlilegt að spurt sé

Stéttarfélögin neituðu að skrifa undir nýjan kjarasamning nema ríki og sveitarfélög gæfu út ákveðnar yfirlýsingar til að samningar næðust. Það bar árangur. Þess vegna er eðlilegt að eldri borgarar landsins spyrji: Hvers vegna var ekki hægt að nota þá aðferð til að bæta kjör eldri borgara?

Enn er það þannig að frítekjumark lífeyrisjóðstekna er aðeins 25 þúsund krónur á mánuði. Eftir það skerðast greiðslur frá Tryggingastofnun um 45%.

Flestir hljóta að sjá hversu mikið óréttlæti þetta er. Hvers vegna í ósköpunum stóðu forystumenn stéttarfélaga ekki með sínum fyrrverandi félögum og neituðu að skrifa undir kjarasamning nema ríkið bætti kjör lífeyrisþega?

Höfundur er fv. bæjarstjóri í Garði.

Höf.: Sigurður Jónsson