TF-LIF Þyrlan var dregin út úr flugskýli í Nauthólsvík og svo sett á flatvagn, sem síðan var dreginn norður í land.
TF-LIF Þyrlan var dregin út úr flugskýli í Nauthólsvík og svo sett á flatvagn, sem síðan var dreginn norður í land. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar í aldarfjórðung, er nú komin á Flugsafn Íslands á Akureyri. Tekið var til óspilltra málanna í skýli Gæslunnar við Nauthólsvík í Reykjavík í gærmorgun þar sem þyrlan var dregin úr húsi, sett upp á flutningavagn og flutt norður. Í undirbúningi hefur verið síðustu mánuði að þyrlan, sem afskráð var og komin úr rekstri árið 2020, færi á safnið nyrðra en þar eru fyrir úr flota Gæslunnar þyrlan TF-SIF og Fokkervélin TF-SYN.

Þyrlan TF-LIF var keypt af ríkinu árið 1995 og kom til landsins þá um vorið. Slíkt gerðist eftir miklar umræður og þrýsting, meðal annars frá fólki við sjávarsíðuna, sem kallaði eftir því að björgunargeta Gæslunnar yrði efld.

Óteljandi ferðir við mjög erfiðar aðstæður

„Þyrlan markaði strax algjör tímamót. Hafði mikla burðargetu, langdrægi og var með afísingabúnaði,“ segir Páll Halldórsson. Þeir Páll og Benóný Ásgrímsson flugu þyrlunni heim til Íslands og strax þá í kjölfarið hófust æfingar áhafnar. Fljótlega var þyrlan svo komin í rekstur og fljótt kom í ljós að þetta var kostagripur. Saman fóru þeir félagar, Páll og Benóný – svo og fleiri flugmenn – í óteljandi björgunar- og sjúkraflug, gjarnan við mjög erfiðar aðstæður.

Alls var 1.565 manns bjargað eða fluttir í sjúkraflugi með TF-LIF á 25 ára tímabili, frá 1995 og fram á árið 2020. Tímamót urðu þegar Varnarliðið fór frá Íslandi árið 2006. Fram að því hafði þyrlusveitin á Keflavíkurflugvelli verið mikilvægt bakland flugsveitar Gæslunnar. Með brotthvarfi herliðs Bandaríkjamanna þurftu Íslendingar alfarið að taka björgunarflugið yfir. Slíkt var gert með fjölgun þyrlna og þjálfun nýrra flugmanna.

Þegar TF-LIF var komin úr notkun seldu Ríkiskaup þyrluna til sænsks fyrirtækis, sem nýtti úr henni ýmsa varahluti. Með atbeina Öldungaráðs Landhelgisgæslunnar var málum svo fyrir komið að skrokkur þyrlunnar var skilinn eftir í sýningarhæfu ástandi. Þá hafði þegar verið upplýst um áhuga Flugsafns Íslands á Akureyri að fá gripinn.

Björguðu 39 manns með þyrlunni á einni viku

Margir, til dæmis gamlir flugmenn Gæslunnar, voru staddir á Reykjavíkurflugvelli í gær þegar þyrlan var sett í flutning norður. Verkið önnuðust ET-flutningar, án endurgjalds, en einnig studdu Samherji og Eimskip verkefnið.
„Þessi þyrla, TF-LIF, sem ég flaug og vann á í 25 ár skilur eðlilega eftir sig ýmsar góðar minningar,“ segir Benóný Ásgrímsson fv. flugstjóri. „Við fengum strax krefjandi verkefni til dæmis þegar flogið var vestur á Flateyri í kjölfar snjóflóðsins þar í vondu veðri í október 1995. Einnig get ég nefnt björgun skipverja af flutningaskipunum Dísarfelli og Vikartindi og Steindóri GK í mars 1997. Þá var 39 mönnum á einni viku bjargað með þyrlunni. Ég er því sannfærður um að fjöldi fólks ber hlýjar tilfinningar til þyrlunnar svo mikilvægt björgunartæki sem hún var.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson