Fermingar Grindvíkingar fermast á Bessastöðum þetta árið.
Fermingar Grindvíkingar fermast á Bessastöðum þetta árið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is Grindvísk börn verða fermd í Bessastaðakirkju þetta árið. Séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju, segir vel hafa gengið í fermingarfræðslunni í vetur þrátt fyrir miklar áskoranir.

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Grindvísk börn verða fermd í Bessastaðakirkju þetta árið. Séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju, segir vel hafa gengið í fermingarfræðslunni í vetur þrátt fyrir miklar áskoranir.

„Það var ákveðið snemma í haust hvaða daga ætti að ferma og það hélst allt saman fyrst við fengum að nota Bessastaðakirkju,“ segir séra Elínborg í samtali við Morgunblaðið.

Grindvískar fjölskyldur eru á víð og dreif um landið, en úr fermingarárganginum eru þó engin börn svo langt í burtu að þau hafi ekki getað sótt fermingarfræðslu og munu nú í vor fermast í Bessastaðakirkju. Fyrsta fermingin er fyrirhuguð 24. mars og beint í kjölfarið er ferð í Vatnaskóg.

„Það er gaman að segja frá því að ég er vön að fara með börnin alltaf í fermingarfræðslu í Vatnaskóg með prestinum í Garði og Sandgerði svo við þekkjum fermningarbörn hvort annars. Svo datt okkur í hug að bjóða 9. og 10. bekk, sem er náttúrulega búið að ferma, með í Vatnaskóg í dymbilvikunni. Það verður mikið fjör þar,“ segir Elínborg. Um 80 börn eru skráð í ferðina en öllum var boðið með, sama hvort þau hefðu ákveðið að fermast eða ekki.

Ástandið hefur reynt mikið á grindvískar fjölskyldur og segir Elínborg unglingana gleðjast þegar þeir koma saman. „Það sem maður finnur með unglingana og börnin er þessi mikli söknuður eftir að vera ekki með vinunum,“ segir Elínborg. Hún segir næsta fermingarárgang, þann sem fermist að ári, vera strax farinn að huga að fermingarfræðslunni og ekki síst ferð í Vatnaskóg næsta haust.

Elínborg hefur haft í nægu að snúast þótt hún geti ekki þjónað söfnuðinum í Grindavík og er hún með aðstöðu í Tollhúsinu í Reykjavík. Þá heldur hún áfram að skíra grindvísk börn, gefa saman hjón og jarðsyngja þau sem fallið hafa frá á undanförnum mánuðum. Hefur hún fengið til afnota kirkjur hér og þar á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Kirkjugarðurinn í Grindavík, að Stað skammt vestan bæjarins, hefur ekki beðið miklar skemmdir í jarðhræringunum og er enn jarðsett þar. „Það er bara allt í lagi með garðinn og við megum jarðsetja í honum,“ segir hún.

Elínborg segir að ekki komi annað til greina í hugum margra en að halda áfram að leggja ástvini sína til hinstu hvílu í garðinum. „Það kæmi fólki ekki til hugar að láta til dæmis foreldra sína ekki hvíla saman. Það yrði nú mikið sem þyrfti að gerast ef fjölskyldumeðlimir yrðu hver í sínum garðinum. Það yrði mjög erfitt,“ segir Elínborg.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir