Kerlingarhólmi Bændur á Brekku eru ósáttir við kröfu stjórnvalda.
Kerlingarhólmi Bændur á Brekku eru ósáttir við kröfu stjórnvalda.
„Þetta mál er með ólíkindum og það sem sárast er eða kannski veldur hvað mestum vonbrigðum er að það hefur ekki einn stjórnmálamaður í mínu kjördæmi hvað þá öðrum tekið upp tólið og hringt til að spyrja út í málið,“ segir Þórhildur Þorsteinsdóttir, bóndi á Brekku í Borgarfirði

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta mál er með ólíkindum og það sem sárast er eða kannski veldur hvað mestum vonbrigðum er að það hefur ekki einn stjórnmálamaður í mínu kjördæmi hvað þá öðrum tekið upp tólið og hringt til að spyrja út í málið,“ segir Þórhildur Þorsteinsdóttir, bóndi á Brekku í Borgarfirði.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í byrjun mánaðarins var Þórhildur og hennar fólk óvænt dregið inn í kröfur íslenska ríkisins um þjóðlendur á svonefndu svæði 12, sem tekur til eyja og skerja innan landhelginnar en utan meginlandsins. Það þykir nokkurri furðu sæta enda er heimaból þeirra í miðjum Norðurárdal. Þórhildi hefur verið gert að sanna eignarrétt sinn á 11 hektara túni í miðjum dalnum, en svo óheppilega vill til að það ber heitið Kerlingarhólmi.

Ekkert hefur gerst frá því málið komst í hámæli fyrir tveimur vikum. Þórhildur segir að flestir telji að um grín hafi verið að ræða en sú sé svo sannarlega ekki raunin. Hefur hún ritað stjórnvöldum bréf þar sem óskað er eftir svörum um það hvernig „tún sem er 40 km inn í landi getur fallið innan þessa marka,“ eins og hún orðar það. Jafnframt óskar fjölskyldan eftir því að krafa stjórnvalda verði felld út en að öðrum kosti „verði farnar aðrar harðari leiðir.“

Morgunblaðið leitaði svara hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um réttmæti þessarar kröfu. Í skriflegu svari ráðuneytisins er því ekki svarað beint. „Kröfugerðin tekur til landsvæða utan strandlengju meginlandsins og miðast við stórstraumsfjöruborð. Hafi land, sem fellur innan þess svæðis, verið tilgreint í kröfulýsingu þá mun það falla út af henni,“ segir í svarinu.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon