Landamærahliðið í Leifsstöð stendur galopið

Útlendingar eru nú um fimmtungur landsmanna, en aðeins af þeirri ástæðu er eðlilegt að menn velti fyrir sér breytingum á samfélagi og menningu, aðlögun og álagi á innviði; hvaða kostnaður og ávinningur hljótist af mestu mannflutningum Íslandssögunnar.

Velflestir hafa hingað komið með lögmætum hætti, en ekki allir. Verulegur fjöldi hefur freistað landvistar með tilhæfulausri hælisleit, en verra þykir þó sjálfsagt flestum að leiðin virðist greið fyrir brotamenn af ýmsu tagi.

Fyrir stuttu komst upp um virkan liðsmann hryðjuverkasamtaka með hæli hér, réttarvörslukerfinu er mjög íþyngt af erlendum brotamönnum, en stjórnvöld hafa engin ráð til að koma stórhættulegum mönnum úr landi hafi þeir fengið landvist.

Við öllum blasir að mikið er að á landamærum landsins og enginn þarf að efa að einhverjir hafa gengið á það lagið. Eru aðgöngudyrnar að landinu þó að heita má aðeins tvennar, hvorar tveggja í Leifsstöð og hlið við hlið. Hvernig gat þetta vafist fyrir stjórnvöldum?

Helsta ástæðan er augljós: Það er enginn dyravörður við aðrar af þessum dyrum. Schengen-dyrunum.

Markmið Schengen-samstarfsins var að tryggja frjálsa för fólks innan aðildarríkjanna. Öll eru þau – nema Ísland – á meginlandi Evrópu. Sú frjálsa för skyldi tryggð með því að fella niður innri landamæri en styrkja eftirlit með ytri landamærum.

Þetta var skiljanlegt á innri markaði meginlands Evrópu þar sem flest landamæri höfðu lengi verið upp á punt, en síður í eyríkjum, sem eiga af landfræðilegum ástæðum hægt með landamæraeftirlit. Bæði Írar og Bretar afþökkuðu því gott boð.

Á Íslandi var niðurstaðan hins vegar sú að taka þátt og leggja traust sitt á ytra landamæraeftirlit í Evrópu. Að auki lögðu talsmenn aðildar gríðarlega áherslu á þann aðgang sem íslensk yfirvöld fengju þá að gagnabönkum Schengen og skjölum í hillukílómetravís, ómissandi til að tryggja öryggi landsins.

Hjörtur J. Guðmundsson alþjóðastjórnmálafræðingur reit í gær grein um Schengen-vandann við landamærin, því þegar komið er inn á svæðið – löglega sem ólöglega – megi ferðast skilríkjalaust innan þess og hverfa yfirvöldum sjónum.

Krafa um skil flugfélaga á farþegalistum fyrir flug er viðleitni til að stemma stigu við komu fólks í erindisleysu, t.d. brotamanna og fólks í endurkomubanni. Á þeim skilum hefur að vísu verið misbrestur, en stjórnvöld stæra sig af því að fá lista yfir um 93% farþega. Að mati Ferðamálastofu komu 2,2 milljónir útlendinga til landsins í fyrra, sem þýðir að yfirvöld vissu í raun engin deili á 154 þúsund manns.

Hjörtur bendir hins vegar á að jafnvel 100% skil hefðu takmarkað gildi, því farþegalistar innan Schengen innihaldi aðeins upplýsingar úr bókunarkerfum, sem farþegar láta þeim sjálfir í té.

Ótal dæmi eru um að fólk hafi reynt að villa á sér heimildir með þeim hætti, leitað hælis undir ólíkum nöfnum, jafnvel síðar sama dag og þeim var fylgt úr landi. Ugglaust eru hin fleiri, sem ekki komst upp um, en við blasir að lögbrjótar eru líklegri en aðrir til þess að falsa um það.

Þetta eru ekki aðeins fræðilegar vangaveltur. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í viðtali við Morgunblaðið í janúar að hending réði hvort brotamenn væru stöðvaðir á innri landamærunum, en hann segir þá sækjast mjög eftir því að komast til landsins. Innan Schengen væri öllum frjáls för, óháð ríkisfangi, og því lægju helstu áskoranir löggæslunnar á innri landamærunum.

En hvað með gagnasöfnin miklu? Í viðtali við Rúv. í fyrra sagði Úlfar innlenda frumkvæðis- og greiningarvinnu mestu skipta á innri landamærunum, minnst af upplýsingunum kæmi úr upplýsingakerfi Schengen, sem þó er klifað á að sé helsti kosturinn við aðildina.

Ef ekki er meira gagn að gögnunum en svo og Schengen er helsta ástæða þess að landamærin eru engin fyrirstaða, þá hljóta stjórnvöld að þurfa að endurskoða aðild eyríkisins að Schengen-samstarfinu. Á skal að ósi stemma.