Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Fyrirliggjandi ársreikningar Félagsbústaða hf. sýna að rekstur félagsins er ósjálfbær. Þetta segir Kjartan Manússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem telur að bregðast þurfi skjótt við miklum hallarekstri og skuldasöfnun félagsins

Fyrirliggjandi ársreikningar Félagsbústaða hf. sýna að rekstur félagsins er ósjálfbær.

Þetta segir Kjartan Manússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem telur að bregðast þurfi skjótt við miklum hallarekstri og skuldasöfnun félagsins. Í samtali við Morgunblaðið segir Kjartan að fyrirhuguð 6,5 prósenta raunhækkun á leiguverði muni ekki duga til og að leita þurfi fleiri leiða til að rétta reksturinn við.

Telur hann ekki óeðlilegt að Reykjavíkurborg stígi inn og aðstoði félagið við að rétta úr kútnum sökum þess að félagið var eitt sinn hluti af rekstri borgarinnar.

Ósjálfbær næstu 10 ár

Kjartan lagði fram bókun á fundi Félagsbústaða hf. á þriðjudag, en hann situr í stjórn félagsins. „Ljóst er að við núverandi aðstæður mun félagið ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána, sem tekin eru til að fjármagna fasteignakaup, endurbætur og viðhald. Þótt félagið hætti nú þegar að fjárfesta í eignum bendir margt til að rekstur þess yrði ósjálfbær næstu tíu árin,“ skrifar Kjartan í bókun sinni.

Þar bendir hann á að rekstrartekjur ársins 2023 hafi numið 6.459 milljónum króna, rekstrargjöld 4.075 milljónum og hrein fjármagnsgjöld 5.725 milljónum. Matsbreyting fjárfestingareigna nam 4.741 milljón króna á árinu.

Segir Kjartan það ekki gefa rétta mynd af rekstri félagsins að nota slíka virðishækkun á fasteignum félagsins til að fegra rekstrarreikning þess, enda sé slík matsbreyting reiknuð stærð, sem skili ekki raunverulegum tekjum.

„Án umræddrar matsbreytingar nemur tap félagsins 3.341 milljón króna á árinu. Veltufé frá rekstri nam 1.063 milljónum króna á árinu en afborganir langtímalána 1.493 milljónum, sem þýðir að félagið var ekki sjálfbært á tímabilinu. Í árslok vantaði tæpar 400 milljónir upp á til að veltufé frá rekstri nægði fyrir afborgunum langtímalána. Skuldir Félagsbústaða jukust um 6.206 milljónir frá fyrra ári og námu tæpum 63 milljörðum króna í lok þess. Nemur skuldaaukningin tæpum 11% á milli ára. Nettó lántaka ársins nam 3.115 milljónum króna,“ skrifar Kjartan í bókuninni.

Nauðsyn að leita annarra leiða

Bendir hann á að lítið megi bera út af svo handbært fé frá rekstri dugi ekki fyrir afborgunum lána. Þannig sé brýn þörf á því að styrkja tekjugrundvöll félagsins til frambúðar í því skyni að tryggja sjálfbærni, eða leita annarra leiða til hagræðingar í starfseminni.