[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brynjólfur Jónsson er fæddur í Kaupmannahöfn þann 15. mars 1954. Foreldrar hans kynntust í Kaupmannahöfn þar sem þau voru við nám, faðir hans í tryggingastærðfræði og móðir hans í sálfræði, þau giftu sig 1

Brynjólfur Jónsson er fæddur í Kaupmannahöfn þann 15. mars 1954. Foreldrar hans kynntust í Kaupmannahöfn þar sem þau voru við nám, faðir hans í tryggingastærðfræði og móðir hans í sálfræði, þau giftu sig 1. ágúst 1953.

Foreldrar hans komu heim til Íslands á hverju sumri og var Brynjólfur kominn í sveit í Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð til móðurafa síns og ömmu strax á öðru ári, var hann í sveit öll sumur til 15 ára aldurs.

Fjölskyldan flutti heim til Íslands sumarið 1957 og bjó í Reykjavík þangað til foreldrar Brynjólfs byggðu sér einbýlishús á Kársnesi í Kópavogi 1960. Brynjólfur var í Kársnesskóla allan barnaskólann, síðan í Gagnfræðaskóla Kópavogs og var hann m.a. meðlimur í Skólahljómsveit Kópavogs og iðkaði ýmsar íþróttir með Breiðabliki. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974 og byrjaði sama haust í læknisfræði við Háskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist sem læknakandídat 1980.

„Maður var alltaf að vinna meðfram námi. Ég fór á sjóinn sem messagutti og háseti á hvalveiðibátum og síðan sem matsveinn á humarveiðibátum meðfram menntaskólanáminu,“ segir Brynjólfur. „Meðfram læknanáminu fór ég að vinna í Skíðaskólanum í Kerlingarfjöllum og í lögreglunni í Reykjavík.“

Hann hóf læknastörf 1978 meðfram náminu, starfaði meðal annars í Hafnarfirði, Keflavík, Vestmannaeyjum og í Mariestad í Svíþjóð.

Haustið 1980 fluttist hann með fjölskylduna norður á Akureyri og starfaði í tvö ár á Fjórðungssjúkrahúsinu. Haustið 1982 flutti fjölskyldan til Svíþjóðar, fyrst til Skövde og árið 1986 til Linköping þar sem Brynjólfur hóf doktorsnám í bæklunarskurðlækningum.

Brynjólfur lauk doktorsvörn við Háskólann í Linköping 15. mars 1991 og var fjölskyldan þá flutt heim til Íslands. Hann fór á fjölmargar ráðstefnur, námskeið og fleira í sínu fagi og lærði meðal annars að gera krossbandaaðgerðir með speglunartækni árið 1995.

Brynjólfur starfaði á Borgarspítalanum, bæði á slysa- og bæklunardeild, einnig á St. Jósepsspítala og á Landskotsspítala.

„Eftir sameiningu spítalanna var mjög þrengt að starfsemi bæklunarlækninga og ómögulegt var að sinna stórum hluta aðgerða sem ekki þurftu spítalainnlagnar við,“ segir Brynjólfur. „Til að geta sinnt þeim skurðaðgerðum stofnaði ég læknastöð árið 1997 ásamt Ágústi Kárasyni, Stefáni Carlssyni og fleirum, það sem er Orkuhúsið í dag. Þar fer nú fram stærsti hluti bæklunarskurðaðgerða utan spítalaþjónustu á landinu í dag.“ Brynjólfur hætti á Landspítalanum 2014 og í Orkuhúsinu um síðustu áramót.

Brynjólfur hefur verið íþróttalæknir frá árinu 1980, fyrst á Akureyri og síðan með ýmsum félögum í Svíþjóð í handbolta, fótbolta og íshokkí og meðal annars hjá handboltafélaginu SAAB í Linköping. Eftir heimkomu frá Svíþjóð tók hann að sér að vera læknir karlalandsliðsins í handbolta. Með þeim hefur hann farið á ferna Ólympíuleika og yfir 20 stórmót á þeim 33 árum sem liðin eru.

„Sennilega hef ég verið á bekknum á meira en 500 landsleikjum í handbolta. Upplifanirnar eru líklega efni í heila bók,“ segir Brynjólfur. „Á þessum tíma hafa orðið gríðarlegar breytingar á öllu umhverfi handboltaiðkunar. Þar kemur til betri þjálfun, betra regluverk og dómgæsla, læknisþjónusta, endurhæfingarmeðferðir og greiningaraðferðir.“

Verkefnin voru mismunandi eftir mótum. „Á Evrópumótinu 2006 var ég til dæmis upptekinn með slasaða menn, á röntgendeildum öll kvöld eftir alla leiki Íslendinga, þá komu menn ýmist rotaðir, rif- eða kjálkabrotnir úr leikjunum. Þetta er sem betur fer nánast liðin tíð,“ segir hann.

„Með landsliðinu í handbolta hef ég ferðast víða um heim. Ég hef ferðast um alla Evrópu, farið til Tyrklands, Túnis, Egyptalands, Japans, Kína og Brasilíu, til að nefna nokkur lönd. Þessar ferðir hafa verið gríðarlega skemmtilegar oftast nær og hef ég haft mikla gleði af þeim auk þess að eignast fjölmarga vini fyrir lífstíð. Ég hef starfað með að minnsta kosti fimm landsliðsþjálfurum, þar á meðal Guðmundi Þórði Guðmundssyni þrisvar.“

Brynjólfur á mörg áhugamál. „Pabbi heitinn kenndi mér á skíði. Ég hef farið með fjölskyldunni og vinum ótal margar brekkur Alpafjalla. Frá því ég var að vinna í Kerlingarfjöllun hef ég einnig haft mikinn áhuga á vélsleðum og farið víða um land á þeim að vetrum og í jeppaferðum,“ segir hann.

„Ég hef sömuleiðis farið í fjallgöngur til dæmis með læknahópum og með frænda mínum Þorsteini Sigurðssyni. Ég hef farið á ótal háa tinda svo sem Kerlingu í Eyjafirði og á Herðubreið en einnig út í Fjörður, um Lónsöræfi og inn að Grænalóni við Vatnajökul. Að auki hef ég farið fjórum sinnum á Hvannadalshnjúk með kollegum mínum úr Orkuhúsinu, þeim Ragnari Finnssyni og Ágústi Kárasyni ásamt fleirum.“

Fjölskylda

Brynjólfur kvæntist Dagnýju Guðnadóttur, f. 27.11. 1954 á Ísafirði, heilbrigðisgagnafræðingi með meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði, þann 2. júní 1978.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðni Jónsson kennari frá Sléttu í Sléttuhreppi, Jökulfjörðum, f. 1.3. 1931, d. 8.10. 2001, og Edda Magnúsdóttir frá Brekku í Langadal, Ísafjarðardjúpi, f. 5.7. 1937.

Brynjólfur og Dagný voru samstúdentar frá MR 1974. Eiga þau þrjú börn: 1) Ásdís María, f. 21.11. 1974, tæknifræðingur. Hún er gift Bergþóri Lund, f. 3.5. 1975, tæknifræðingi, og eiga þau börnin Maríus Pétur, f. 6.6. 2000, þyrluflugmann, Dagnýju Eddu, f. 9.8. 2004, nema í heilbrigðisverkfræði í Álaborg, og Steinar Kára, 17.11. 2011; 2) Ernir, f. 24.6. 1980, byggingafræðingur. Hann er kvæntur Önnu Huld Jóhannsdóttur, f. 1.12. 1980, skurðhjúkrunarfræðingi, og eiga þau dæturnar Jennýju Lind, f. 28.6. 2009, og Helgu Dís, f. 31.7. 2012; 3) Ari, f. 17.11. 1989, fjölmiðlafræðingur. Sambýliskona hans er Sigríður Jóna Bjarnadóttir, f. 27.9. 1988, geðhjúkrunarfræðingur, eiga þau börnin Brynjar Snæ, f. 29.10. 2017, og Öglu Hrönn, f. 13.2. 2020.

Systkini Brynjólfs: Þorlákur, f. 13.7. 1956, verkfræðingur og fv. heimsmeistari í bridds, býr í Kópavogi; Þorgerður, f. 31.8. 1957, stærðfræðikennari við Háskólann í Reykjavík, býr í Reykjavík; Guðrún Ragnheiður, f. 2.2. 1960, d. 15.5. 2018, stærðfræðingur; Jón Erlingur, f. 10.10. 1965, BA í heimspeki og stærðfræði, búsettur í Lundi, Svíþjóð; Þuríður, f. 30.3. 1967, tónskáld, flautuleikari og kennari.

Foreldrar Brynjólfs voru hjónin Jón Erlingur Þorláksson, f. 27.10. 2026, d. 28.5. 2009, tryggingastærðfræðingur, og vann hann m.a. hjá Tryggingasjóði Fiskiskipa. Hann kenndi lengi stærðfræði við Viðskiptadeild Háskóla Íslands og Tækniskólann, og Sigrún Brynjólfsdóttir, f. 2.6. 1928, d. 19.3. 2021, húsmóðir og síðar fulltrúi hjá Heimspekideild Háskóla Íslands.