„Við höfum nú þegar ákveðna reynslu og hún er slæm. Það er endurskoðunarákvæði í lögunum og ég tel tímabært að skoða þann þátt sem varðar tungumálaþekkinguna. Það er algerlega óásættanlegt að menn komist í gegnum próf eftir einhverjum svindlleiðum. Síðan má taka lögin til heildarendurskoðunar um næstu áramót, eins og gert er ráð fyrir,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið, spurður álits á þeirri stöðu sem uppi er á leigubílamarkaði hér á landi.
„Við gerum ákveðnar kröfur um þekkingu og ég tel að við eigum að skoða í fullri alvöru að ná samstöðu á Alþingi um að gera kröfu um tungumálakunnáttu og að allir sitji þar við sama borð þegar þeir taka próf, fá réttindin og hafi sannarlega þá þekkingu sem prófin eiga að mæla. Það má líta á það sem ákveðin mistök að ákvæði um íslenskukunnáttu hafi ekki verið í nýju lögunum, en það hefur ekkert með frelsisþátt málsins að gera,“ segir hann.
„Ég tek undir með þeim sem hafa verið að tjá sig um ástandið á leigubílamarkaðinum að það sé ekki óeðlilegt að við skoðum að gera breytingar á lögunum. Lögin voru sett í góðri trú og ætlast er til þess að eftirlitsstofnanir ríkisins sjái til þess að þetta fari fram með sómasamlegum hætti. Það verður að fá einhverja niðurstöðu í það, það bendir hver á annan,“ segir Jón.
„Þeir alvarlegu glæpir sem framdir hafa verið á undanförnum vikum og mánuðum eru fordæmalausir í þessari atvinnugrein. Með tilkomu breytinga á lögunum og fjölgun útlendinga sem aka leigubílum, virðumst við vera að færast inn í annað umhverfi. Það er líka sláandi að heyra að heimilt sé að svindla í þessum prófum og þau séu eftirlitslaus. Svo bendir hver á annan; Samgöngustofa bendir á ökuskólann og skólinn bendir á Samgöngustofu. Það hlýtur að þurfa að grípa til ráðstafana til að taka á þessu,“ segir Jón.
Hann bendir á að Ísland hafi verið síðasta landið á Norðurlöndum til að breyta regluverki um leigubílaakstur. Finnar séu að stíga ákveðin skref til baka, en fyrirkomulagið í Danmörku sé að líkindum best. Þar sé skylt að leigubílstjórar skilji og tali dönsku. „Þó við stígum skref til baka í ljósi reynslunnar og gerum að skilyrði að leigubílstjórar tali og skilji íslensku, erum við ekki að draga úr því aukna frelsi sem innleitt var í nýju lögunum,“ segir hann.