Starship, stærsta og öflugasta eldflaug sem skotið hefur verið á loft, flaug hærra og hraðar en áður hefur þekkst í tilraunaflugi í gær en hún týndist eftir að hún kom aftur inn í lofthjúp jarðar í um 65 km hæð yfir Indlandshafi, að sögn fyrirtækisins SpaceX.
Eldflaugin, sem er 121 metri á hæð, er mikilvægur þáttur í áætlunum bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, um mannaðar tunglferðir á næstu árum.
Eldflauginni var skotið á loft í gær frá Starbase í suðurhluta Texas og fylgdust yfir 3,5 milljónir manna með geimskotinu gegnum samfélagsmiðilinn X.
Tvær fyrri tilraunir, sem gerðar voru á síðasta ári, enduðu með því að eldflaugin sprakk. Í þetta skipti náði eldflaugin 200 km hæð og flaug umhverfis hálfan hnöttinn á allt að 20 þúsund km hraða.